Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 15:55:14 (1882)

1995-12-13 15:55:14# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[15:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vildi, með leyfi forseta, og ef enginn gerir athugasemdir fá að mæla fyrir 8. og 9. dagskrármálunum sameiginlega. Það eru samkynja mál um innritunargjöld eða skrásetningargjöld í Háskóla Íslands annars vegar og Háskólann á Akureyri hins vegar. Tilefni frumvarpanna er hið sama, þ.e. að umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd við það á liðnu vori með áliti sem er dagsett 19. maí 1995 að ekki væri nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella undir skrásetningargjald í háskólana og hvernig megi ráðstafa gjaldinu. Í framhaldi af því eru þessi frumvörp flutt, annars vegar um breytingu á 21. gr. laga um Háskóla Íslands og hins vegar á 15. gr. laga um Háskólann á Akureyri. En eins og segir í athugasemdum við frv. varðandi Háskóla Íslands, þá lýtur breytingin á 21. gr. laganna að því að treysta lagagrundvöll undir töku skrásetningargjalds af stúdentum Háskóla Íslands. Er slík breyting nauðsynleg í ljósi álits umboðsmanns Alþingis.

(Forseti (RA): Má ég biðja hæstv. menntmrh. að gera hlé á ræðu sinni andartaksstund. Samkvæmt þingsköpum þarf að leita heimildar þingmanna til þess að mæla megi fyrir tveimur málum samtímis og ef enginn andmælir því, þá verður það gert. --- Engum andmælum er hreyft og heldur þá hæstv. menntmrh. áfram ræðu sinni.)

Ég þakka fyrir, herra forseti. Eins og ég sagði er álit umboðsmanns nr. 836/1993, dags. 19. maí 1995, þar sem fram kemur að skrásetningargjaldið er talið þjónustugjald og ekki nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella þar undir og hvernig megi ráðstafa gjaldinu. Sértekjur sem háskólinn aflar með skrásetningargjaldi þurfa þannig að hafa skýra lagastoð. Hið sama gildir um ráðstöfun hluta þeirra til annarra aðila en háskólans sjálfs. Í framhaldi af álitinu mæltist ég til þess við háskólaráð að Háskóli Íslands gerði tillögu um breytingu á háskólalögum til að treysta lagagrunn undir töku skrásetningargjalds. Tillaga þessa efnis var samþykkt í háskólaráði 24. ágúst 1995 og barst menntmrn. 4. sept. 1995 og tekur hún til 1. mgr. 1. gr. frv. að því er Háskóla Íslands varðar.

Ráðuneytið féllst á tillögu háskólans en gerði á henni breytingar að því er varðar árlega endurskoðun gjaldsins við setningu fjárlaga og stöðu stúdentaráðs. Ráðuneytið telur eðlilegt að samið sé við stúdentaráð Háskóla Íslands um að það sinni sérstökum verkefnum fyrir Háskóla Íslands og til þess sé varið hluta skrásetningargjalda til skólans. Í tillögu ráðuneytisins er tekið mið af því að í drögum að samningi háskólaráðs og stúdentaráðs sem fylgja tillögu Háskóla Íslands kemur fram að umsamin verk eru ekki öll á starfssviði stúdentaráðs, heldur einnig stúdentaskiptasjóðs. Í tillögu ráðuneytisins er tekið mið af sjálfstæði stúdentaráðs sem samningsaðila, en í bréfi ráðuneytisins til stúdentaráðs frá 14. ágúst 1995 segir að stúdentaráð sé félagsskapur stúdenta sem komi fram fyrir þeirra hönd í samskiptum við menntmrn. og ráðuneytið telur að tryggja beri stjórnarskrárverndaðan rétt manna til að standa utan félaga.

Sú tilhögun, sem síðan er tekin upp eins og frv. ber með sér, er sú að skrásetningargjaldið er ákveðið 24 þús. kr. Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Háskólaráði er heimilað að ráðstafa allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli háskólans og stúdentaráðs Háskóla Íslands sem háskólaráð staðfestir. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan skrásetningartímabila og síðan segir að þeir teljist einir stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms og í reglugerð megi kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.

Frv. fylgir síðan sem fskj. drög að samningi Háskóla Íslands og stúdentaráðs Háskóla Íslands og þar er greint frá þeim verkefnum sem stúdentaráð tæki að sér ef þessi skipan kæmist á eins og hér er mælt fyrir um. Umræður hafa orðið um það hvað gerðist ef stúdentaráð tæki ekki að sér slík verkefni fyrir háskólaráð og ekki yrði gerður slíkur samningur. Þá hlyti upphæð gjaldsins að koma til skoðunar og hvernig að því væri staðið, en það er ljóst að um skylduaðild er ekki að ræða að stúdentaráði, enda væri það brot á nýsamþykktum stjórnarskrárákvæðum.

[16:00]

Að því er varðar frv. til laga um breytingu á lögum um Háskólann á Akureyri þá er það, eins og ég sagði, um samkynja mál að ræða. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga að lagabreytingu er flutt eru athugasemdir umboðsmanns Alþingis. Tilhögunin er eins og í Háskóla Íslands. Gjaldið er ákveðið 24 þús. kr. Upphæð þess kemur til endurskoðunar við gerð fjárlaga ár hvert. 13% af gjaldinu má verja til Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og allt að 10% til sérstakra verka samkvæmt samningi milli Háskólans á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri sem háskólanefnd staðfestir. Frumvarpinu fylgir síðan skipulagsskrá Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri. Það er öðruvísi að málum staðið heldur en í Háskóla Íslands þar sem eru lög um Félagsstofnun stúdenta. Hér eru einnig drög að samningi Háskólans á Akureyri og Félagsstofnunar stúdenta.

Málið held ég að liggi mjög skýrt fyrir, herra forseti. Það er einfalt í eðli sínu. Verið er að bregðast við athugasemdum og áliti umboðsmanns Alþingis. Menn geta deilt um það hvort þessi skrásetningargjöld eigi að leggja á eða ekki. Þær deilur hafa verið hér uppi á Alþingi. Ef menn vilja fara út í umræður um það vegna þessara frv. þá er það sjálfsagt og eðlilegt að menn ræði það mál. En hér er verið að formfesta þetta og treysta lagaforsendur fyrir því að innheimta þessi skrásetningargjöld og heimila háskólanum að ráðstafa þeim með þeim hætti sem getið er í viðeigandi lagagreinum.