Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:45:46 (1896)

1995-12-13 16:45:46# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:45]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er ekki að miða við það að þessi upphæð geti farið upp úr öllu valdi. Ég tel að það eigi að standa á bak við þessa fjárhæð skilgreindur kostnaður sem tíundaður er í þessari greinargerð. Háskóli Íslands lagði til að þarna yrði um vísitölutengingar að ræða. Það ákvæði var tekið út. Upphæð gjaldsins mun síðan koma til árlegrar endurskoðunar við setningu fjárlaga. Þá vænti ég þess að Háskóli Íslands muni gera grein fyrir því í fjárlagatillögum sínum hvernig kostnaði við þessa þætti sem hér eru tilgreindir er háttað og þá geti menn metið það hvort nauðsynlegt sé að breyta þessu gjaldi eða ekki. Þannig tel ég að eigi að standa að þessu máli og mörkin á milli skrásetningargjalds og skólagjalds eru alveg skýr eftir þessu frv.