2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:33:50 (1902)

1995-12-14 10:33:50# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:33]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef stríðar athugasemdir að gera við dagskrá þessa fundar. Eins og fram kemur í þeirri dagskrá sem hefur verið dreift á borð þingmanna, er fyrirhugað að ræða fjárlög síðar í dag. Þetta er 2. umr. fjárlaga. Í gær var dreift áliti meiri hluta fjárln. og þar kemur fram að stjórnarliðið hefur tekið þá ákvörðun að fresta allri umfjöllun um þá rekstrarþætti sem tengjast heilbrigðiskerfinu til 3. umr. Þetta hefur ekki gerst í þann tíma sem ég hef átt sæti hér á Alþingi. Ég tel þetta í hæsta máta óeðlilegt og mjög óvönduð vinnubrögð og þessu mótmæli ég. Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar hafa þess vegna í dag ritað forseta þingsins svofellt bréf sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

,,Í áliti meiri hluta fjárln. á frv. til fjárlaga sem dreift var á Alþingi í dag kemur fram að stjórnarflokkarnir hafa afráðið að fresta allri umfjöllun um rekstrarþætti heilbrigðiskerfisins til 3. umr. þar sem heilbrrh. hefur ekki tekist að vinna breytingartillögur sínar í tíma. Langstærsti hluti fjárlaganna eða yfir 40% varðar heilbrigðiskerfið, umdeildustu þætti fjárlagafrv. er að finna í þeim hluta sem snýr að heilbrigðismálum. Það er því ljóst að með því að fresta heilbrigðishluta frv. verður 2. umr. hvorki fugl né fiskur og með því er gengið á lýðræðislegan rétt þingsins til að eiga tvær umræður um þær breytingar sem boðaðar eru af stjórnarliðinu.

Við undirritaðir formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar mótmælum þessum vinnubrögðum og förum hér með formlega á leit við forseta þingsins að 2. umr. verði frestað þangað til hægt er að taka heilbrigðisþátt frv. inn í umræðuna.``

Eins og ég sagði, herra forseti, þá rita undir þetta allir formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Herra forseti. Í tíð núverandi forsetadæmis hefur verið lögð áhersla á ný og vönduð vinnubrögð og allur þingheimur hefur lagt sig í líma við að fara eftir fyrirmælum og óskum hæstv. forseta. Það er lýðræðislegur réttur stjórnarandstöðunnar að fá tvær umræður til þess að fjalla um mikilvægar breytingartillögur, breytingartillögur sem hafa verið boðaðar af þingliðinu. Ég vek eftirtekt á því, herra forseti, að það hefur komið fram að það er ágreiningur um fjármögnun rekstrar í heilbrigðiskerfinu. Hæstv. heilbrrh. hefur sett fram hugmyndir sem hefur verið mótmælt harðlega af Sjálfstfl. og það er réttur þingsins að fá að fjalla um þetta í tveimur umræðum. Og það er líka annað, herra forseti. Ég tel að forsetadæmið verði að standa vörð um þau tæki sem þingið hefur í sögu sinni smíðað sjálfu sér til að koma í veg fyrir mistök en það eru tvær umræður. Það er 2. umr. og það er 3. umr. og þingheimur veit auðvitað að milli 2. og 3. umr. er mjög títt að það verða breytingar. Með þessu háttalagi er þingið svipt þeim möguleika að breyta frv. milli 2. og 3. umr. vegna þess að þessir umdeildustu þættir fjárlagafrv. koma bara til einnar umræðu.