2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:44:32 (1907)

1995-12-14 10:44:32# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það kunna að vera til fordæmi í þingsögunni um það að hluti fjárlaga hafi verið skilinn eftir fram að 3. umr., en það eru ekki góð vinnubrögð, hv. þm. Jón Kristjánsson. Og ég spyr hreinlega: Hvaða stefnu á að ræða í dag? Hvað verður til umræðu í dag, 60% fjárlaganna? Það á að skilja eftir langsamlega stærsta þáttinn og reyndar þann mikilvægasta, þar sem menn eru í mikilli glímu við mikil útgjöld. Þetta horfir þannig við okkur, sem ættum að taka þátt í þessari umræðu, að það sé nánast ómögulegt. Og ég spyr enn: Hvað á eiginlega að ræða hér og hvaða yfirsýn eigum við að hafa yfir fjármál ríkisins og fjárlögin með þessum hætti? Þetta er algerlega óviðunandi og ég tek undir þá ósk sem hefur komið fram um að þessari umræðu verði hreinlega frestað þar til niðurstöður liggja fyrir í heilbrigðismálum.