2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:55:04 (1913)

1995-12-14 10:55:04# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa talað tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins, hv. formaður fjárln. Jón Kristánsson og hv. þm. Sturla Böðvarsson. Báðir hafa haldið því fram að hér sé um eðlileg vinnubrögð að ræða. Báðir hafa vísað til fordæma í tíð síðustu ríkisstjórnar og sérstaklega hv. þm. Sturla Böðvarsson. Það kom aldrei fyrir meðan ég og hv. þm. vorum að verja afturenda þáv. ríkisstjórnar að við þyrftum að verja þetta allt saman. (Gripið fram í: Og eyrun líka.) Það kom aldrei fyrir að öllum rekstrarþáttum heilbrigðiskerfisins eða þeim þætti fjárlaganna sem tengdist heilbrigðiskerfinu væri vísað með manni og mús til 3.umr.

Það er líka annað sem hefur breyst, herra forseti, og það er að núna situr í forsetastóli maður sem hefur tekið upp vönduð vinnubrögð og hefur kallað þingið allt til stuðnings við sig. Þingið hefur tekið undir óskir hans um betri og vandaðri starfshætti. Við hljótum auðvitað að hugsa um virðingu þingsins. Hér er um að tefla afskaplega róttækar breytingartillögur sem varða heilbrigðismálin og við hljótum að gera kröfu til þess að fá tvær umræður um þær. Það eru vinnubrögð sem þingið sjálft hefur þróað til að koma í veg fyrir mistök og nánast í hvert einasta skipti sem menn hafa verið að ræða frv. til fjárlaga hafa orðið verulegar breytingar milli 2. og 3. umr. Nú er verið að svipta þingið möguleikanum til að gera þessar breytingar.

Herra forseti. Við höfum orðið vitni að afskaplega óvönduðum vinnubrögðum varðandi heilbrigðishluta fjárlaganna og þeim mun nauðsynlegra er að fá tíma til þess að vega og meta þær tillögur sem við höfum nasasjón af. Spurningin er auðvitað: Hvað dvelur orminn langa? Hvað er það sem veldur því að tillögurnar koma ekki fram? Er það ágreiningur innan stjórnarliðsins? Er það sleifarlag innan heilbrrn.? Það má kannski segja sem svo að það komi stjórnarandstöðunni ekki við. Gott og vel. Stjórnarliðið hefur sinn rétt til þess að véla um þetta og ná fram þessum tillögum, en ég segi: Það er krafa stjórnarandstöðunnar að við fáum tvær umræður til að ræða þær. Það er óhjákvæmileg krafa að umræðunni verði frestað þangað til stjórnarliðið er annaðhvort búið að jafna sinn ágreining eða þangað til hæstv. heilbrrh. er búinn að aka út þeim tillögum sem hún vill að þingið fjalli um í fyllingu tímans.