Tilkynning um dagskrá

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 14:07:48 (1919)

1995-12-14 14:07:48# 120. lþ. 65.92 fundur 141#B tilkynning um dagskrá#, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[14:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs einmitt til þess að lofa og prísa stjórn forseta á þessum fundum. Ég kvaddi mér hljóðs í morgun til að geta þess að mér þætti furðu sæta að á dagskrá væru fjárlög til 2. umr. þegar fyrir lægi að þeim mikla hluta fjárlaganna sem tengist heilbrigðismálum hefði verið frestað til 3. umr. Ég benti á í morgun að þingið hefði sjálft smíðað sér ákveðin tæki til þess að reyna að draga úr mistökum sínum með því að öll meiri háttar mál fengju a.m.k. tvær umræður í þinginu. Ég beindi því til forseta að hann gætti þess að ekki yrði farið illa með þessi tæki þingsins og forseti hefur orðið við þeirri bón okkar. Hann hefur sett á fundi með formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins og þeim ráðherrum sem málið varðar og ég tel að það hafi náðst farsæl lausn í þessu. Það liggur fyrir að undir 2. umr. verða kynntar þær tillögur sem á vantar í heilbrigðismálum, sérstaklega þær sem tengjast sjúkrahúsmálum í Reykjavík. Það er afskaplega mikilvægt að það liggur fyrir yfirlýsing um að ekki verða lögfestar meiri háttar breytingar á yfirstjórn sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni höfuðborgarinnar. Jafnframt tel ég líka að þær yfirlýsingar sem gengu af munni ráðherra um bandorminn séu þess eðlis að það sé hægt að ná farsælu samkomulagi um lendingu allra þingmála fyrir jól.