Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:19:24 (1927)

1995-12-14 17:19:24# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:19]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Fyrstu fjárlög kjörtímabilsins mótast mjög af þeirri meginstefnu að dregið verði úr ríkisútgjöldum svo jöfnuði verði náð á næstu tveimur árum. Þá stefnu hefur Sjálfstfl. boðað bæði fyrir og eftir kosningar og þá stefnu er að finna í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar sem hér er til 2. umr. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið svipaður hér eða meiri en í OECD-löndunum sl. tvö ár og allt bendi til þess að hann verði meiri á næsta ári er rík ástæða til að hafa hemil á ríkisútgjöldum en leitast við að bæta stöðu á vinnumarkaði með almennum aðgerðum í tengslum við kjarasamninga eins og gert hefur verið.

Markmið um minni ríkisútgjöld er eina raunhæfa ávísunin á hóflega skattlagningu borgaranna og er mikilvæg til að halda stöðugleika í þjóðfélaginu.

Með hærri meðalaldri þjóðarinnar og með auknum skuldbindingum vegna velferðarkerfisins aukast útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála. Vegna takmarkaðra tekna liggur fyrir að gera verður auknar kröfur gagnvart öllum þáttum í ríkisrekstrinum svo koma megi til móts við aukin útgjöld þeirra þátta sem lúta að velferðarkerfinu án skattahækkana.

Þeir sem tala gegn úrbótum í ríkisrekstri og hvetja til aukinna útgjalda eru vissulega talsmenn skattahækkana eða minni framlaga til velferðarmála og skólamála. Um það varður vart deilt. Ekki er gert ráð fyrir því að heildartekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðartekjum hækki á næsta ári. Af þeim sökum verður víða naumt skammtað og ekki verður veitt fjármagn til margra mikilvægra verkefna að þessu sinni þrátt fyrir að lög leyfi og ríkuleg rök megi færa fyrir því að hefja framkvæmdir, auka rekstur eða hefja rekstur einstakra stofnana. Engu að síður eru bæði í fjárlagafrv. og í brtt. meiri hluta fjárln. að finna skýra stefumótun sem felst í því að við viljum bæta þjónustu hins opinbera og nýta betur þá skattpeninga almennings sem við förum með í umboði þjóðarinnar. Þessi stefnumörkun þarf ekki að þýða niðurskurð heldur kröfu um árangur, skilvirkni, skýra markmiðssetningu og öfluga stjórnun stofnana á vegum ríkisins.

Markmið okkar í ríkisrekstrinum á að vera krafa um einföldun, ábyrgð og árangur í ríkiskerfinu. Sú krafa á að fylgja fjárlögum ársins 1996 um leið og við þingmenn og ráðherrar þurfum að lyfta okkur upp yfir vanda og viðfangsefni dagsins og huga að framtíðinni með gerð langtímaáætlana á sem flestum sviðum með upplýsingatæknina og aukna menntun að vopni. Til þess verks þarf að kalla til aðila úr atvinnulífinu, frá rannsóknastofnunum og háskólastofnunum svo sem kostur er. Frá þeim aðilum þurfum við að kalla á ráð um það hvernig við náum markmiðum um einföldun, ábyrgð og árangur svo hið takmarkaða fjármagn nýtist sem best. Með einföldun á ég ekki sýst við eftirlitshlutverk ríkisins og það flókna eftirlitsstofnanakerfi sem sett hefur verið upp á mörgum sviðum og stjórnsýsluna sem stýrir velferðarkerfinu. Einföldun hlýtur að geta falist í aukinni einkavæðingu og því að færa verkefni til sveitarfélaga og/eða stofnana sem næst þeim vettvangi sem sinna á með dreifðu valdi og ábyrgð en sem minnstri miðstýringu. Með ábyrgð vil ég vísa til þess að með skýrum hætti og samningum verði stofnunum gert ljóst hvert hlutverk þeirra er og stjórnendum veitt svigrúm til þess að stjórna innan ramma fjárlaga og þeirra samninga sem gerðir eru og árangur metinn á grundvelli samningsstjórnunar. Árangurinn á að felast í því að skipulag og starfsemi ríkisins sé þannig að ríkið geti sinnt skyldum sínum við borgarana á eins hagkvæman, skjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur er jafnframt því að teljast fyrirmyndar vinnuveitandi.

Til þess að ná markmiðum um árangur í ríkisrekstrinum þarf starfsemi ríkisstofnana stöðugt að vera í skoðun og endurmati innan stofnana og utan án þess að það þurfi að virka truflandi á starfsemina. Þá er mjög mikilvægt að móta nýja starfsmannastefnu ríkisins er taki mið af því umhverfi og breytingum sem eru að verða á vinnumarkaði.

Það er trú mín og von að stjórnarflokkunum megi takast að standa að þeim úrbótum í ríkiskerfinu sem okkur eru nauðsynlegar í góðri sátt og í samstarfi við starfsfólkið sem best þekkir til þeirrar þjónustu sem veitt er og talið er að þurfi að veita.

Við 2. umr. um fjárlög ársins 1996 liggja ekki fyrir brtt. er varða rekstur heilbrigðisstofnana eins og komið hefur fram. Er þess að vænta að þær liggi fyrir við 3. umr. þegar heilbrrn. hefur náð að meta stöðu einstakra stofnana sem er mikilvægt og vandasamt verk, svo fjárln. megi taka afstöðu til erinda sem borist hafa nefndinni frá flestum ef ekki öllum sjúkrastofnunum landsins sem telja að frumvarp til fjárlaga taki ekki nægjanlegt tillit til þeirra þarfa sem rekstur einstakra stofnana krefst. Sama má raunar segja um mjög margar stofnanir ríkisins sem heyra undir önnur ráðuneyti. Á nær öllum sviðum sjá menn þörf fyrir ný verkefni sem gefa tilefni til aukinna útgjalda með fjölgun starfsmanna og þörf fyrir aukið húsrými.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki nota tíma minn við þessa umræðu til að gera grein fyrir einstökum brtt. Það hefur hv. formaður fjárln. gert í sinni ræðu. Ég vil fara nokkrum orðum um áherslur sem felast í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar.

Eins og fram kemur í fjárlagafrv. og var nokkuð rætt við 1. umr. þá eru framlög til viðhalds og fjárfestinga mjög skorin niður og hafa þau ekki verið svo lág um ára bil. Þó ber að líta á þetta í ljósi þess að framkvæmdir vegna stóriðju munu hafa veruleg áhrif svo og framkvæmdir við Hvalfjarðargöng ef þær hefjast. Engu að síður er þessum þætti ríkisútgjalda mjög haldið niðri svo markmið um halla náist og með því er dregið úr þeirri hættu sem spenna í fjárfestingum getur haft á vaxtastigið í landinu.

Framkvæmdir við heilbrigðisstofnanir eru sá þáttur fjárfestingar sem mest er lækkaður milli ára. Það markmið var sett að ekki færu af stað nýjar framkvæmdir á næsta ári. Einungis var veitt framlag til uppgjörs og þar sem samningar eru í gildi af hálfu ríkisins um tiltekin verk. Til að ná þessu markmiði þurfti að ná samningum við sveitarfélögin um frestun og má í því sambandi nefna samning við sveitarfélögin á Suðurnesjum um frestun svokallaðrar D-álmu en um byggingu hennar hafði verið gerður samningur. Fyrir milligöngu meiri hluta fjárlaganefndar tókst að leggja drög að samningi um D-álmuna sem ég tel að þjóni hagsmunum íbúa Suðurnesja betur en sá samningur sem áður hafði verið gerður þegar til framtíðar er litið. Ástæða er til að vekja athygli á framsýni þeirra sveitarstjórnarmanna af Suðurnesjum sem að samningunum komu síðustu daga en frestun slíkra verka er ekki auðvelt að skýra.

Samningar milli ríkis og sveitarfélaganna hafa verið gerðir um framkvæmdir. Við þessa umræðu vil ég láta það koma fram að ég tel mjög mikilvægt að samningum við ríkisisvaldið megi treysta. Annað er óverjandi. Hins vegar geta skapast þær aðstæður að leita þurfi eftir breytingum sem geta orðið báðum samningsaðilum til hagsbóta. Það gildir svo sannarlega í þessu tilviki sem ég nefndi. Ber að fagna þeirri niðurstöðu sem um þetta mál náðist og ætti að geta verið til fyrirmyndar um samskipi milli ríkis og sveitarfélaga. Er ekki síst mikilvægt að sýna slíkt fordæmi þegar samningar standa yfir vegna yfirfærslu grunnskólans.

Framlög til hafnargerðar og sjóvarna dragast nokkuð saman eða um tæpar 100 milljónir milli ára. Um 220 millj. eru til uppgjörs eldri framkvæmda og 426 millj. til nýrra verka.

Ástæða er til þess að vekja athygli á því annars vegar að skuld ríkisins vegna styrkhæfra verka er nú 735 millj. kr. sem er mjög há tala og hins vegar að endurbygging mannvirkja er vaxandi hluti þeirra verkefna sem hafnirnar þurfa að fjárfesta í. Staða hafnanna er mjög mismunandi og geta þeirra til framkvæmda ótrúlega ójöfn. Enn um sinn verður því nauðsynlegt að veita þeim höfnum styrk sem einkum þjóna fiskiskipaflotanum en jafnframt er ljóst að taka þarf tillit til þess að bættar samgöngur á landi hafa áhrif á þörfina fyrir hafnargerð og réttmæti þess að styrkja hafnir innan sama atvinnusvæðis meðan aðrar njóta ekki styrks úr ríkissjóði. Einnig er nauðsynlegt að líta til stöðu þeirra hafna sem ekki kunna að hafa nýtt sér heimildir til tekjuöflunar en sækja í ríkissyrki engu að síður. Hafnirnar eru lífæðar við ströndina þeim byggðum sem allt eiga undir sjávarfangi. Til þess þarf umfram allt að líta.

Framlög til viðhalds og nýbygginga á sviði menningar- og menntastofnana eru um 1.600 millj. kr. Stór hluti þeirrar uphæðar er bundinn með samningum sem gerðir hafa verið til margra ára og því lítið svigrúm til að koma af stað nýjum verkum fyrr en þeim byggingum er lokið sem framkvæmdir hafa hafist við. Engu að síður er nauðsynlegt að mínu mati að taka til sérstakrar athugunar byggingar og viðhaldsmál á vegum menntmrn. og þeirra stofnana sem undir það heyra og gera áætlun um þörfina í ljósi þeirrar stefnu sem löggjöf um framhaldsskóla og háskólastofnanir lúta að. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því risastóra og vaxandi verkefni sem snýr að viðhaldi þessara bygginga og um það þarf að gera sérstaka áætlun.

[17:30]

Meiri hluti fjárln. hefur farið yfir fjölmörg erindi sem fyrir nefndinni liggja og hefði svo sannarlega viljað gera tillögur um framlög til margra hluta. En fyrir 3. umr. verða nokkrir liðir teknir til skoðunar, bæði til hækkunar og væntanlega til lækkunar. Ég vil benda á nokkur dæmi um viðfangsefni sem meiri hluti nefndarinnar vill leggja áherslu á án þess að það sé gert með mikilli hækkun framlaga, heldur sem vísbendingu um hvar nefndin telur m.a. að leggja þurfi áherslur.

Kennaraháskóli Íslands fær hækkun vegna fjarnáms fyrir sérkennara. Nýsköpunarsjóður fær nokkra hækkun vegna þeirra verkefna sem honum er ætlað. Vélskóli Íslands og Iðnskólinn í Reykjavík fá hækkun vegna tækjakaupa sem eru mjög mikilvæg fyrir skóla sem þurfa að fylgja mjög örri framþróun á sviði verk- og tæknigreina. Húsafriðunarsjóður og Listskreytingasjóður eru hækkaðir og telur meiri hluti nefndarinnar mikilvægt að þessir sjóðir geti sinnt hlutverki því sem lög gera ráð fyrir.

Garðyrkjuskólinn fær hækkun á framlagi til byggingar tilraunagróðurhúss sem er mikilvægt þróunar- og tilraunastarf í garðyrkjunni og getur skapað fjölmörg störf við ylrækt.

Í samræmi við búvörusamninginn eru framlög vegna sauðfjárframleiðslu hækkuð um 217 millj. kr., en í þeirri hækkun felast þær áherslur sem lagðar eru í búvörusamningnum sem ræddur hefur verið í þinginu. Þær eru að styrkja sauðfjárbændur til þess að færa framleiðsluna til samræmis við markaði og gera greinin hagkvæma með hækkun og sókn á mörkuðum. En slíkar aðgerðir eru langtímaverkefni sem stjórnarflokkarnir vilja standa að í sátt við bændastéttina og þá fjölmörgu sem eiga afkomu sína undir þjónustu við sauðfjárbændur.

Ég hef dregið fram nokkur dæmi um tilteknar áherslur sem lagðar eru í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Síðustu vikur hafa mörg spjót staðið á fjárln. vegna þeirra stofnana ríkisins sem þurfa meira rekstrarfé. Ýmsir hafa gengið fram fyrir skjöldu. Nú síðast í morgun kom landlæknir í fjölmiðla rétt eina ferðina til þess að segja þjóðinni frá því að meiri fjármuni þurfi til rekstrar stóru sjúkrahúsanna, sem ég efast ekki um að er rétt. Og eftir orðum hans er tekið. Það er litið svo á að þau beinist að stjórnmálamönnum sem standa gegn auknum framlögum úr ríkissjóði. Á sama tíma hefur mátt lesa lærða texta hagfræðinga um það forgangsverkefni að ná niður halla ríkissjóðs.

Þessi andstæðu sjónarmið eru nær ósættanleg. Að vísu má lesa í greinargerð Seðlabankans frá 5. nóvember sl. að tölfræðilegar rannsóknir Seðlabankans bendi til þess að ríkisfjármál hafi ekki haft afgerandi áhrif á þróun raunvaxta hér á landi á árunum 1984--1994. Þar hafi aðrir þættir en ríkisfjármálin gnæft yfir á þessu tímabili, svo sem þróun viðskiptajafnaðar, þ.e. mismunur þjóðhagslegs sparnaðar og fjárfestingar. Við þessar aðstæður og allar þær umræður sem fram fara um fjárhag ríkisins kemur upp krafan um sterkari forgangsröðun þar sem fleiri komi að en þingmenn og ráðherrar að raða upp fjárfestingu og framlögum. Þegar rætt er um forgangsröðun er það jafnan með þeim formerkjum að auka eigi útgjöld til heilbrigðismála á kostnað annarra þátta, svo sem vegagerðar, hafnargerðar og annarrar mannvirkjagerðar. Umræða um þessi mál er okkur nauðsynleg og sem dæmi um allar mótsagnirnar í umræðunni um forgangsröðun er að ef dregið væri mjög úr framkvæmdum við vegakerfið er víst að á vegum muni verða fleiri og alvarlegri slys sem heilbrigðiskerfið þarf þá að takast á við og kosta. Og með því að láta hafnirnar drabbast niður stóreykst slysahætta sjómanna sem við hafnirnar vinna og þurfa að sigla um þröngar og ófullnægjandi innsiglingaleiðir.

Af þessu má sjá að viðfangsefnið er ekki auðvelt og við þingmenn þurfum að hafa þjóðfélagið allt í huga þegar við fjöllum um framlög af fjárlögum en ekki einblína á einn þátt þess. Okkur ber að varast að láta þann harðsnúna, vel upplýsta og skipulagða hóp, þá talsmenn sjúkrahúsanna, villa okkur sýn en ekki má heldur gera of lítið úr þeim vanda sem daglega er staðið frammi fyrir á sjúkrahúsunum um allt land þar sem bent er á mikla fjárþörf.

Virðulegi forseti. Forsenda þess að lífskjör batni hér á landi er að atvinnulífið megi eflast og atvinnutækifærum fjölgi. Með auknum samskiptum milli landa færumst við inn í samkeppni meðal þjóðanna um það hver veiti bestu lífskjörin. Það er skylda okkar á Alþingi að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að atvinnulífið eflist og við getum veitt vel menntuðu fólki tækifæri til starfa. Ég leyfi mér að vona að okkur takist á þessu kjörtímabili að nýta þá bættu stöðu sem blasir við og sköpuð hefur verið í efnahagslífinu til þess að við getum með sanni sagt að við stöndumst samkeppni meðal þjóðanna um að veita góð lífskjör á Íslandi.

Virðulegi forseti. Með aga og styrkri stjórn eigum við að geta risið úr öldudalnum og skapað vinnufúsum höndum atvinnu og félagslegt öryggi. Það er okkar verkefni.