Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:48:32 (1933)

1995-12-14 17:48:32# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:48]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 8. þm. Reykn. spyr mig um það við hverja ég hafi átt þegar ég talaði áðan um það að þingmenn yrðu að líta á ábendingar og athugasemdir talsmanna sjúkrahúsanna í víðu samhengi. Ég mun ekki svara því við hverja ég á vegna þess að yfir okkur rignir daglega upplýsingum um erfitt ástand á sjúkrastofnunum. Ég sagði að nær allar sjúkrastofnanir sem eru yfir tiltekinni stærð hafa gert athugasemdir við fjárlagafrv. og tel að það bendi til þess að forsvarsmenn þeirra hafi töluvert til síns máls að sjálfsögðu. En við verðum hins vegar, og á það benti ég í minni ræðu, að líta yfir sviðið allt, ekki láta fipast vegna þess að mjög öflugir talsmenn leggi mjög hart að okkur að taka einhver tiltekin verkefni til meðferðar. Það er með þeim hætti sem ég tel að við þingmenn eigum að vinna. Við eigum að líta yfir sviðið allt en ekki láta hrekjast undan öflugum talsmönnum hversu mikilsvert og mikilvægt málefnið er sem þeir engu að síður flytja.

En ég vil leggja á það áherslu, hv. 8. þm. Reykn., að auðvitað þurfum við hv. þm. góð ráð. Og við hlustum en eigum að sjálfsögðu að meta aðstæður hverju sinni sjálfir.