Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 17:53:08 (1935)

1995-12-14 17:53:08# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[17:53]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef einhver hefur uppi óábyrgan málflutning, þá er það hv. 8. þm. Reykn. eins og hann leggur mál hér upp. (Gripið fram í: Slekkur bara á þessu.) Málflutningur hans er svo öflugur reyndar að ljósin slokkna. En það er fjarri öllu lagi að ég hafi varað við einstökum talsmönnum sjúkrastofnana, það er bara fjarri lagi. Ég var að segja og nefndi dæmi um það að við yrðum að gæta þess að láta ekki trufla okkur í þeim erfiðu og viðkvæmu störfum sem við vinnum hér þó að öflugir talsmenn beri fram sínar óskir. Það er þessi almenna ráðlegging sem ég vil gefa hv. 8. þm. Reykn. og fyrrv. fjmrh. sem er býsna sjóaður (ÓRG: Það eru eingöngu talsmenn sjúkrahúsanna.) og m.a. stóð í því að semja við stóra og öfluga hópa. Ég veit því auðvitað að hann gerir sér alveg grein fyrir því, sennilega kannski betur en margir aðrir, að við þurfum að gæta þess að láta ekki hrekja okkur frá þeim markmiðum sem við höfum þó öflugir talsmenn beini sínum áróðri, sanngjörnum í mörgum tilvikum, gegn okkur. Við þurfum að huga fyrst og fremst að því að standast þennan þrýsting. Mér sýnist að hv. 8. þm. Reykn. hafi ekki staðist hann.