Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 20:33:56 (1938)

1995-12-14 20:33:56# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[20:33]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fjárln. kom til fundar nú fyrir klukkutíma þar sem kynnt var eftirfarandi erindi frá heilbr.- og trmrh. og fjmrh. sem ég ætla að lesa hér upp. Það er svohljóðandi:

Í framhaldi af viðræðum heilbrrh., fjmrh., forseta Alþingis, formanns fjárln. og formanna þingflokka í morgun er nauðsynlegt að fara yfir stöðu sjúkrahúsanna nú fyrir 2. umr. frumvarps til fjárlaga. Heilbr.- og trmrh. og fjmrh. óska eftir að hv. fjárln. taki eftirfarandi tillögur til meðferðar:

1. Veitt verði til Ríkisspítala 150 millj. kr. á fjáraukalögum ársins 1995 til viðbótar þeim 90 millj. kr. sem nú eru inni í frv. Með þessari viðbót væri leystur uppsafnaður halli sjúkrahússins frá árinu 1994.

2. Af fjárveitingu til Ríkisspítala, Sjúkrahúss Reykjavíkur, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og Sjúkrahúss Suðurnesja verði 2% eða u.þ.b. 200 millj. kr. sett í sérstakan ,,pott`` til ráðstöfunar heilbrrh. Ráðherra skipi nefnd til skiptingar á honum á grundvelli sameiginlegrar hagræðingar í rekstri stofnanna og breyttrar verkaskiptingar milli sjúkrahúsanna.

3. Veitt verði 150 millj. kr. á fjárlögum ársins 1996 sem sett verði á sérstaka liði í fjmrn. til ráðstöfunar á næsta ári til að kosta hagræðingarátak í rekstri ríkisstofnana og létta undir stofnunum til að ná varanlegum sparnaði. Gert er ráð fyrir að stofnanir geti sótt í þennan sjóð fyrir tímabundnum kostnaði sem fellur á við að ná varanlegri hagræðingu, sérstaklega til greiðslu biðlauna.

4. Vandi nokkurra sjúkrahúsa, sérstaklega á Suðurnesjum, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og á Akranesi, lýtur fyrst og fremst að því sem liðið er og snertir ekki fjárlög ársins 1996, en verði skoðaður í tengslum við lokaafgreiðslu fjárlaga árið 1995.

Þessar tillögur voru kynntar í fjárln. Nefndin mun að sjálfsögðu taka þær til frekari meðferðar og hyggst leggja fram brtt. við 3. umr. málsins sem byggjast þá á meðferðinni á þessu erindi sem borist hefur frá heilbrrn. Nánari umfjöllun um erindið bíður funda fjárln. Ég legg þetta fram til upplýsingar fyrir 2. umr. málsins.