Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 20:43:04 (1943)

1995-12-14 20:43:04# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[20:43]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Fjárlagafrv. endurspeglar öðru fremur þá stefnu sem hver ríkisstjórn stendur fyrir. Þar birtast áherslur stjórnarinnar, afstaða hennar til þess hvernig hún telur rétt að raða samfélagslegum verkefnum niður eftir mikilvægi þeirra. Þar kemur fram hvort stjórnin telji rétt að þeir sem eru sjúkir eigi að bera uppi heilbrigðiskerfið eða hvort það eru hinir sem heilbrigðir eru. Þar má sjá skoðun stjórnarinnar á því hvort hún telji rétt að aðeins þeir sem hafa fé á milli handanna eigi að fá að mennta sig eða hvort það eigi að gæta velvilja frá stjórnvöldum í garð menntunar svo allir geti menntað sig sem geta og vilja án tillits til efnahags. Í fjárlagafrv. má líka lesa stefnu viðkomandi ríkisstjórnar í byggðamálum. Þar sést hver áhersla er lögð á landsbyggð annars vegar og þéttbýli hins vegar hvað varðar fjárúthlutanir. Maður skyldi af framansögðu ætla að stefna ríkisstjórnarinnar væri sú sem maður læsi í þessu frv. og því ætti frv. að stemma nokkurn veginn við það sem maður sér í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. En í því tilviki sem við höfum hér til skoðunar er það nú ekki alltaf svo, að maður tali ekki um hina svokölluðu kosningastefnu hvors ríkisstjórnarflokksins um sig. Einkum og sér í lagi er sorglegt að horfa upp á Framsfl. í þeirri aðstöðu sem hann er í í dag og enn sorglegra verður það þegar maður gluggar í fjárlögin frá í fyrra þar sem flokkurinn var í stjórnarandstöðu því þar kveður svo sannarlega við annan tón en í frv. sem nú liggur fyrir. Það er eins og flokkurinn gjörvallur hafi dottið á höfuðið. Það er stórmerkilegt að grípa niður í ræðu hv. þm. Framsfl. frá því í umræðunni um fjárlögin í fyrra. Það er engu líkara en að þar fari allt aðrir framsóknarmenn en þeir sem nú sitja á þingi fyrir flokkinn eða eru orðnir hæstv. ráðherrar.

[20:45]

Frsm. minni hluta fjárln. í fyrra var hv. þm. Guðmundur Bjarnason, sem nú er hæstv. ráðherra. Í ræðu hans var farið stórum orðum um afleiðingar af breyttum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna, um tvöfalt mennta- og heilbrigðiskerfi; annars vegar fyrir þá sem geta borgað og hins vegar þá sem ekki geta borgað. Nú situr sami hæstv. Guðmundur Bjarnason í ríkisstjórn og ekkert bólar á betri tíð fyrir þá sem ekki geta borgað. Þeir hafa líklega aldrei áður átt jafnerfitt með að mennta sig eða greiða læknishjálp og nú vegna þess að það kostar of mikið. Úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru reyndar vonandi til skoðunar í nefnd, eins og svo margt annað, og enn er ófyrirséð hvernig fer endanlega með gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Við bíðum og fylgjumst með, framsóknarmenn. Ekki aðeins með störfunum 12 þús. heldur bíðum við líka eftir hinum loforðunum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór ítarlega yfir álit 1. minni hluta fjárln. fyrr í umræðunni og þar komu fram helstu áhersluatriði okkar í 1. minni hluta. Ég mun ekki eyða tíma í að fara yfir alla þá þætti sem drepið er á í nál. en tek þess í stað nokkra málaflokka út og geri sérstaklega grein fyrir þeim. Áður en ég byrja á efnislegri umfjöllun um einstaka þætti langar mig til að gera vinnubrögð í fjárln. að umtalsefni. Reyndar er með ólíkindum að koma sem nýr þingmaður að fjárlagagerðinni og sjá vinnubrögðin sem eru viðhöfð. Ég vil þó áður en ég vík að gagnrýni minni þakka samstarfsfólki í nefndinni fyrir mjög góða samvinnu og ekki síður starfsfólki nefndarinnar. Samstarfið við meiri hlutann hefur verið ágætt og ég vil taka fram að gagnrýni minni er ekki ætlað að beinast að einstaklingum sem þar sitja, allra síst formanni og varaformanni, heldur mun fremur að þeirri hefð sem ríkt hefur um störf nefndarinnar. Ég vil sérstaklega taka fram að ég tel formanninn og varaformanninn hafa meðhöndlað minni hlutann af stakri prúðmennsku, svo það valdi ekki misskilningi.

Mikill hluti af starfi fjárln. er að taka á móti fulltrúum frá sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, eða öðrum sem fá nokkrar mínútur til að gera grein fyrir þeirra hjartans máli. Erindið er jú oftast að kría út einhverjar krónur úr ríkiskassanum. Oft á tíðum er hér um sáralitlar fjárhæðir að ræða, þótt þær skipti miklu máli fyrir viðkomandi einstakling eða félagsskap, og tíminn sem viðkomandi fær fyrir nefndinni er yfirleitt allt of stuttur. Ég hef sjálf staðið í því að fara fyrir fjárln. til að biðja um styrk fyrir tiltekin félagasamtök, sem reyndar hafa fengið fasta fjárhæð á fjárlögum lengi. Það er jafnóþægilegt að koma fyrir nefndina og fyrir nefndarmenn að sitja og yfirheyra fólk um smáatriði. Mér þykir eðlilegra að haga málum þannig að fólk geti sloppið við þessar heimsóknir að einhverju leyti, a.m.k. væri hægt að skera þær eitthvað niður. Fyrirkomulagið sem nú tíðkast þykir mér óhentugt fyrir nefndina sem má ekki vera að því að vinna sitt verk við fjárlagagerðina sem skyldi, því hún eyðir öllum tíma sínum í að taka á móti fólki í viðtöl, auk þess sem mér finnst yfirbragðið yfir því gamaldags og óaðlaðandi. Ég hef kannski engar lausnir uppi í erminni, enda hef ég stoppað stutt við í nefndinni, en ég trúi því hreinlega ekki að ekki sé hægt að viðhafa einhver önnur vinnubrögð í þessum efnum.

Annað sláandi við þessa vinnu er hversu handahófskennda meðferð erindin fá oft á tíðum. Þau fá misgóða umfjöllun eftir því hvernig stendur á í nefndinni og afgreiðsla einstakra mála er gjarnan merkt einstökum nefndarmönnum, sem fylgja sínum gæluverkefnum eftir. Reglur um hvernig fé er úthlutað eru oftast óljósar, þótt stundum sé til um það einhver rammi. Ég get tekið sem dæmi einstök íþróttasambönd, t.d. Glímusamband Íslands sem er innan Íþróttasambands Íslands en fær úthlutað á fjárlögum þótt meginreglan sé sú að einstök íþróttasambönd innan ÍSÍ séu undir sameiginlegum lið ÍSÍ. Nú síðast fékk Landssamband íslenskra akstursíþróttafélaga sérstaklega úthlutað 0,5 millj. á liðnum Ýmis íþróttamál og mér er alveg hulið hvers vegna þeir en ekki einhverjir aðrir. Ég er einungis að vekja athygli á að mér finnst reglur um hvernig þessu fé er varið mjög óskýrar. Ef fjárln. ætlar að deila út peningum á þennan hátt til einstakra íþróttasambanda tel ég fjárveitingavaldið vera farið að hafa mikil áhrif á afkomu einstakra sambanda. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að fjárveitingavaldið merki fjárframlög til íþróttasambanda en þá vil ég líka sjá heildarstefnumótun um hvernig það skuli gert. Ég vildi þá persónulega sjá áherslu á t.d. kvenna- og barnaíþróttir í stað þess að tryggja sérstaklega framlög til glímu, brids eða skákíþróttarinnar, þótt ég hafi ekkert á móti þeim greinum.

Ég vil nefna þá ótrúlega miklu áherslu sem lögð er á málefni landsbyggðarinnar í nefndinni, enda ekki að undra þar sem þingmenn Reykv. eru jafnsjaldséðir og hvítir hrafnar þar inni. Áherslur nefndarinnar mótast að miklu leyti af þessu sjónarmiði sem gerir það að verkum að lítið samstarf er á milli þingmanna Reykv. og t.d. borgarstjórnar. Skortur á samstarfi hefur reyndar verið til umræðu á fundum sem borgarstjóri hefur boðað þingmenn kjördæmisins á í vetur og stendur til að reyna að endurvekja gamlar reglur frá áttunda áratugnum um samskipti borgar og þingmanna kjördæmisins. Ég tel slíkt samstarf nauðsynlegt og liður í því er að þingmenn kjördæmisins komi að fjárlagagerðinni. Ég er ekki að mæla með því að þingmenn Reykv. fari að stunda kjördæmapot í stórum stíl heldur er það svo að í kringum fjárlagagerðina er farið yfir þarfir og hagsmuni kjördæmisins í þingmannahópum sem síðan skila umsögnum til fjárln. Aðeins eitt kjördæmi hefur ekki slíkan þingmannahóp og það er Reykjavíkurkjördæmi. Aðspurður tjáði formaður fjárln. nefndinni að hv. 1. þm. Reykv., sem er hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, hafi ekki séð ástæðu til að kalla slíkan hóp saman þar sem hefð væri fyrir því að ekki væri gert í þessu kjördæmi. Nú ætla ég ekki að draga í efa orð hæstv. ráðherra um hefðina en hvaðan sem hún er upprunnin er hún arfavitlaus. Hvers vegna skyldu þingmenn Reykjavíkur ekki setjast saman yfir það hvernig fjárlögin koma niður í kjördæminu? Ég sé hreinlega ekkert því til fyrirstöðu og legg til að við næstu fjárlagagerð verði hefðin brotin og þingmannahópurinn a.m.k. kallaður saman til að meta hvort hann eigi að starfa eða ekki.

Eins og fram kom í upphafi dagskrár þingsins í dag er ýmislegt við það að athuga að láta veigamikil mál bíða 3. umr. eins og tíðkast hefur og ætla ég ekki að fjölyrða um það frekar. Það er furðulegt að ríkisstjórnin skuli ekki vera búin að vinna heimavinnuna sína betur en raun ber vitni og engu líkara en að afgreiðsla fjárlaga komi alltaf jafnmikið á óvart hvert einasta ár. Þingið er að dóla sér fram eftir vetri og svo skyndilega er eins og allt fari á annan endann og þingmenn leggja nótt við dag síðustu vikurnar til að endar nái saman. Örþreyttir ráfa þeir á milli húsa við Austurvöllinn og greiða atkvæði um lagafrv. annað slagið. Þetta eru að mínu mati engin vinnubrögð og ég vona að einhvern tímann verði hægt að sjá annað fyrirkomulag hér á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr, heyr.)

Ég vil einnig gera að umtalsefni lagasetningaraðferðina sem felst í bandorminum þar sem tugum laga er breytt í einu hendingskasti. Því miður er það svo að þar er ekki alltaf um að ræða atriði sem eru nauðsynleg í tengslum við fjárlagafrv., eins og reyndar hefur komið fram í umræðunni í dag. Væri þá eðlilegra að gera sumar þessara breytinga sérstaklega á hverjum lögum.

Þá ætla ég að víkja að þeim atriðum í fjárlagafrv. og nál. 1. minni hluta fjárln. sem ég tel ástæðu til að fara frekar yfir en gert hefur verið.

Eins og fram kemur í nál. 1. minni hluta er ljótasti bletturinn á frv. fyrirhuguð frestun og skerðing bóta til þolenda afbrota. Í Morgunblaðið í dag skrifar móðir eins slíks fórnarlambs og segir sögu sextán ára dóttur sinnar sem var nauðgað á hrottafenginn hátt. Móðirin segir frá sýn þessarar stúlku og sjálfrar sín sem aðstandanda á þessa lúalegu sparnaðartillögu ríkisstjórnarinnar og spyr okkur þingmenn að lokum hvort við getum horfst í augu við sjálfa okkur eftir að hafa samþykkt svona tillögur. Ég segi nei. Ég hef aldrei séð jafnlágkúrulega og jafnilla gerða tillögu til sparnaðar. Það er ekki eins og með henni séu miklir fjármunir sparaðir, a.m.k. ef litið er til þess sem ausið er í aðra þætti, svo sem til að koma til móts við vanda landbúnaðarins. Nei, við erum ekki að tala um nein hundruð milljóna heldur nokkra tugi. Því verði er ríkisstjórnin tilbúin að kaupa fullkomið réttarbrot á því fólki sem á í hlut og kosningaskrautfjaðrirnar eru reyttar af fuglinum

Rétt er að víkja lítillega að því hvernig þetta mál er allt saman tilkomið. Á síðasta kjörtímabili flutti þáv. og núv. hæstv. dómsmrh., Þorsteinn Pálsson, frv. sem hér um ræðir og voru allir sammála um að þar væri mikil réttarbót á ferðinni. Af hverju? Jú, af því að þeir sem verða fyrir tjóni á líkama og sálu vegna ofbeldisverka búa við að fá fjárhagslegt tjón sitt ekki bætt vegna þess að ógæfumenn sem fremja slíka verknaði eru yfirleitt ekki miklir eignamenn. Lítið stoðar að fá dæmdar háar bætur því þær innheimtast aldrei sökum takmarkaðrar greiðslugetu þess sem á að greiða.

Í greinargerð með frv., sem hæstv. dómsmrh. mælti fyrir á síðasta þingi, segir:

,,Markmið frumvarpsins er að styrkja stöðu brotaþola með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum, svo og fyrir tjón á munum sem leiðir af slíku broti, enda sé viðkomandi vistaður á stofnun ríkisins vegna afbrots eða gegn vilja sínum.

Bætur vegna tjóns, sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum og tjónvaldur er dæmdur til að greiða tjónþola, eru í flestum tilvikum ekki raunveruleg verðmæti þar sem tjónþoli hefur í fæstum tilvikum möguleika á að greiða bæturnar og í mörgum tilvikum er ólíklegt að hann hafi í náinni framtíð möguleika til þess.``

Svona er nú raunin og þetta er tilgangur frv. Hið háa Alþingi tók þá ákvörðun í vor að bæta þolendum ofbeldis skaðann að einhverju leyti með því að fella ábyrgð á greiðslu bóta á ríkissjóð, í tilteknum tilvikum og vegna tiltekins skaða. Ekki aðeins ákvað hið háa Alþingi að láta lögin gilda fram í tímann, eins og venjan er, heldur einnig um brot sem framin voru 1. jan. 1993 og síðar. Þannig ná lögin til tjóns vegna brota sem þegar hafa verið framin og því er ekki óeðlilegt að þeir sem hafa orðið fyrir slíku tjóni eftir 1. jan. 1993 en ekki farið í bótamál vegna fjárskorts ofbeldismannsins hafi drifið sig í að höfða mál eftir að hið háa Alþingi gaf fyrirheitin um bótaábyrgð ríkissjóðs með löggjöfinni í vor.

Eins og fram kemur í umræddri grein móðurinnar í Morgunblaðinu í dag birti til í tilveru dóttur hennar þegar hún sá fram á að hún fengi fjárhagslegt tjón sitt mögulega bætt. En myrkrið hefur umlukið marga aftur þegar ljóst varð að hæstv. ríkisstjórn var bara að plata. Hvað var hæstv. ríkisstjórn eiginlega að hugsa þegar hún lagði umrætt frv. fram? Fékk hún ekki upplýsingar um það í fjmrn., eins og vanalega, hvað pakkinn mundi kosta? Eða hélt hún að það yrðu til svo miklu meiri peningar í ríkiskassanum en raun varð á? Hvað er eiginlega að gerast? Mér þykir ljótur blettur á löggjafarvaldinu ef það ætlar að láta hafa sig út í að setja slík lög sem felast í breytingunni á bótaábyrgðarlögunum, ekki aðeins vegna efnislegs innihalds þeirra heldur ekki síður vegna þess réttaróöryggis sem skapað er með því að hringla fram og til baka með lagasetningu. Það má velta því fyrir sér hvort svona lagasetning standist mannréttindasáttmála sem við Íslendingar erum alltaf tilbúnir að skrifa upp á. Ég óttast að margir hafi þegar hafið málsókn í trausti þess að lagasetningin frá í vor stæðist og eins og ég skil málið þá eru allar líkur á því. Það er hætt við að þetta fólk sitji uppi með kostnaðinn af málsókninni en tjón sitt óbætt eða aðeins að litlu leyti. Ég hvet hvern og einn þingmann til að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar hvort hann geti horft framan í fólkið eftir að hann hefur samþykkt þessar skerðingar. Ég trúi því hreinlega ekki.

Víkjum þá aðeins að menntamálunum. Framtíð þjóðarinnar og samkeppnisstaða hennar á alþjóðavettvangi byggist að miklu leyti á góðri menntun landsmanna og öflugu rannsókna- og vísindastarfi. Frumvarpið ber ekki vott um mjög framsækna stefnu í þessum efnum og þrátt fyrir auknar fjárveitingar til nokkurra málaflokka í meðförum fjárln. er enn margt athugasemda vert. Enn er ekki séð fyrir endann á kostnaðarþættinum við flutning grunnskólans til sveitarfélaga þrátt fyrir að lögunum um grunnskóla, nr. 66/1995, sé ætlað að taka gildi þann 1. ágúst 1996. Má nefna í því sambandi réttindamál kennara og ýmis mál sem tengjast markmiðum um einsetningu skólanna innan sex ára frá gildistöku laganna. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið eru líkur á að nefndin um réttindamál kennara skili af sér tillögum í lok þessarar viku en þá er enn eftir að sjá niðurstöður af vinnu í kostnaðarnefndinni sem þó hlýtur að vera mesta málið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er klausa um að unnið verði áfram að þróun og eflingu Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Þá segir einnig að öflugt rannsókna- og þróunarstarf sé forsenda framfarasóknar í íslensku atvinnulífi. Síðan segir eftirfarandi: ,,Nýsköpunarsjóður námsmanna verður studdur og þátttaka námsmanna í rannsóknastarfi verður aukin.`` Svo mörg voru þau orð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en veruleikinn er því miður annar í frv. til fjárlaga.

Framlag til Nýsköpunarsjóðs námsmanna stendur nú í stað frá árinu 1995, eftir að það hefur verið hækkað um 5 millj. kr. í meðförum fjárln, en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir að framlög til sjóðsins yrðu skert, úr 15 millj. í 10 millj. kr. Ég vil vekja sérstaka athygli á tillögum stúdentaráðs Háskóla Íslands en samkvæmt þeim er fjárþörf sjóðsins 25 millj. eigi hann að standa undir hlutverki sínu. Nýsköpunarsjóðurinn veitti styrki til 150 verkefna sl. sumar og úthlutanir eru til mjög fjölbreytilegra verkefna. Sem dæmi um úthlutanir má nefna verkefni um eignarhald á kvóta, tölvubrot á sviði lögfræði, vetnisvél og viðkomu erlendra fiskiskipa og áhrif þeirra á íslenskt efnahagslíf. Hér er eins og nafngift sjóðsins bendir til um nýsköpunarverkefni að ræða. Sjóðurinn er opinn öllum á háskólastigi en auk þess að fá framlög frá ríki þá hafa sveitarfélög og atvinnufyrirtæki lagt til fé. Í máli forsvarsmanna stúdentaráðs kom fram að mótframlag fyrirtækjanna væri oft miðað við styrkina sem ríkið veitti og því hefði það mjög slæm áhrif fyrir heildarfjárhagsstöðu sjóðsins ef ríkið drægi saman framlög sín eins og til stóð.

[21:00]

Nú hefur sem betur fer verið ákveðið í meðförum nefndarinnar að bæta 5 millj. kr. fjárveitingu í sjóðinn þannig að hann fær sama framlag og á fjárlögum í fyrra. Það er reyndar ekki nóg til að sjóðurinn standi undir því hlutverki sem hann ætti að gegna. Eins og ég tók fram áðan, er lagt til af forsvarsmönnum stúdentaráðs að hann fái 25 millj. kr. Kannski lítur ríkisstjórnin svo á að hún hafi þurft að taka það sérstaklega fram í stefnuyfirlýsingu að hún ætlaði að leggja sama fjármagn og verið hefur í sjóðinn eða jafnvel minna en ég hef grun um að klausan hafi átt að þýða aukinn stuðning frá því sem áður var. Ella hefði verið betra að sleppa því að minnast á sjóðinn.

Rannsóknarnámssjóður, Vísindasjóður Rannsóknarráðs og Nýsköpunarsjóður námsmanna mynda ákveðna heildarmynd sem felur í sér alla möguleika ungs fólks til að stunda rannsóknastörf á Íslandi. Ef sjóðirnir eru skoðaðir saman kemur í ljós að Rannsóknarnámssjóður fær úthlutað 20 millj. kr. í frv. í stað 25 millj. kr. árið áður. Og Vísindasjóður Rannsóknarráðs er skorinn niður um 10 millj. kr. á milli ára eða úr 25 millj. í 15 millj. kr. Rannsóknarráð Íslands hefur bent á að niðurskurður til sjóðanna grafi undan trúverðugleika þeirrar stefnu sem lá til grundvallar að stofnun Rannsóknarráðs Íslands og með niðurskurðinum yrðu send mjög alvarleg neikvæð skilaboð ungs hæfileikafólks og dregið úr áhuga þess og möguleikum til að hasla sér völl hér á landi.

Ég held að það sé heilmikið til í þessu því staðreyndin er sú að umhverfið hér á landi er ekki allt of fýsilegt fyrir ungt fólk sem kemur heim úr námi eða yfirleitt til að stunda nám hér á landi. Það hefur komið í ljós í vetur að fólk sem kemur úr námi á mjög erfitt með að eignast húsnæði og kemur þar til samspil greiðslubyrði námslána og húsbréfa. Að auki er atvinnuleysi ungs fólks mjög mikið einkanlega hjá þeim sem taka þá stefnu að fara ekki í skóla. Það er því mjög alvarlegt ástand sem ungt fólk hér á landi stendur frammi fyrir í dag. Aukin framlög til innlendrar rannsóknastarfsemi gæti bætt heilmikið fyrir ungt fólk og eins og Rannsóknarráð bendir á aukið líkurnar á að fólk skili sér heim úr námi og stundi rannsóknir sem nýtast íslensku þjóðfélagi. Það er út af fyrir sig mjög jákvætt að rannsóknir í samvinnu við önnur lönd séu styrktar eins og ríkisstjórnin hefur gert en það kom margsinnis fram hjá viðmælendum fjárln. um þessi mál að grundvöllur þess að við getum nýtt það fé sem við leggjum í rannsóknasamstarf við önnur lönd er sá að hlúð sé að innlendum rannsóknum. Þarna er órjúfanlegt samhengi á milli.

Í áliti 1. minni hluta fjárln. er bent á skerðingar á framlögum til Kvikmyndasjóðs en sjóðnum eru ætlaðar 92,3 millj. í stað 101,6 millj. í fjárlögum 1995. Í kvikmyndaiðnaðinum felst mikill vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi ekki síst á seinni árum. Því er það miður að ekki sé fært að halda a.m.k. óbreyttum fjárlögum til sjóðsins. Það kom fram í máli þeirra forsvarsmanna sjóðsins sem komu fyrir hv. fjárln. að miðað við þau framlög sem sjóðnum eru nú ætluð getur hann engan veginn staðið undir kynningu og markaðssetningu íslenskra kvikmynda erlendis sem er þó nauðsynlegt eigi að styðja við íslenskan kvikmyndaiðnað.

Háskóli Íslands hefur farið fram á aukningu allt að 130 millj. kr. frá því sem gert er ráð fyrir á fjárlögum. Í samtölum fjárlaganefndarmanna við forsvarsmenn háskólans kom fram að fjármálatillögur þær sem lagðar hafa verið fram af skólanum eru byggðar á áliti fjármálanefndar háskólaráðs sem unnið hefur að því síðustu 18 mánuði að bera saman kostnað við reglubundið nám í Háskóla Íslands og hliðstæða þætti í skólum erlendis. Nefndin lét gera sérstakt reiknilíkan sem er ætlað að leggja mat á lágmarksfjárþörf skólans til að hann geti sinnt því hlutverki sem honum er ætlað samkvæmt reglugerð. En samkvæmt þeim samanburði vantar verulega upp á að kennslan verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum sem enn og aftur hlýtur að hvetja til að fólk stundi nám sitt þar ef það mögulega kemur því við. Óskir Háskóla Íslands um viðbótarframlag frá því sem fjárlög ákveða eru 130 millj. kr. og þar af eru 70 millj. ætlaðar til að bæta kennsluna og gera hana sambærilega við kennslu á Norðurlöndum.

Þá er farið fram á aukið framlag til rannsókna og framhaldsnáms, alls kr. 60 millj. kr. og leiðrétting á launalið alls 66 millj. kr. Það mátti glöggt heyra á forsvarsmönnum Háskóla Íslands að þeir hafa þungar áhyggjur af ástandi háskólans enda má skilja á máli þeirra að þeir telji skólann ekki þjóna þeim faglega metnaði sem þeir vildu.

Í áliti 1. minni hluta fjárln. er tekið undir þau sjónarmið sem fram komu í áliti minni hluta félmn. um fjárlagafrv. þar sem varað er sérstaklega við þeim vanda sem að þjóðinni steðjar vegna vímuefnanotkunar unglinga. Lögð er á það áhersla í áliti minni hluta félmn. að Alþingi verði að bregðast sérstaklega við þróuninni í þessum málaflokki með auknum forvörnum, aðstoð við unglinga og harðari refsingu við smygli og sölu fíkniefna. Þetta er sérstaklega tekið fram í nál. af þeim sökum að hér er gífurlega aukin þörf á að taka til hendinni. Vandamál sem tengjast fíkniefnanotkun birtast okkur svo til daglega á síðum dagblaðanna og vandinn eykst dag frá degi.

Í fjárlagafrv. er boðaður verulegur niðurskurður til bygginga nýrra íbúða á vegum Byggingarsjóðs verkamanna og er samdrátturinn skýrður með því að húsnæði standi autt í 25 sveitarfélögum. 1. minni hluti vekur athygli á því í nál. sínu að ýmislegt bendi til þess að raunin sé allt önnur einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hundruð fjölskyldna bíða eftir félagslegu húsnæði. Það er fyllsta ástæða til að vara við að nota þannig ástand á einum stað sem röksemd fyrir niðurskurði á öðrum stöðum en slíkar alhæfingar bitna verst á þeim sem mest þurfa á slíku húsnæði að halda. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þarfa hvers sveitarfélags fyrir sig og fjármunum þarf að veita þangað sem þörfin er.

Þá er í nál. 1. minni hluta vakin athygli á þeim áformum sem fram koma í fjárlagafrv. um að ríkið hætti þátttöku í kostnaði við greiðslu húsaleigubóta. Varar minni hlutinn við slíkum áformum án undangenginna samninga við sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra og vekur athygli á ábendingum sem fram hafa komið frá borgarstjóranum í Reykjavík um að þar hafi húsaleigubótakerfið reynst vel og mikilvægt sé að gefa því tækifæri til að þróast í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Spá Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi hljóðar upp á 4,8% sem er svipað og verið hefur og af því er ljóst að gera þarf ráð fyrir auknum útgjöldum til atvinnuleysismála. Hluta þessa vanda ætlar ríkisstjórnin að leysa með því að hækka tryggingagjald um 0,5%. Það er vert að vekja athygli á því að í samtölum við aðila vinnumarkaðarins hefur komið fram að allar líkur eru á að það framlag sem áætlað er í þennan málaflokk dugi engan veginn til. Það kom fram í samtölum aðila vinnumarkaðarins við hv. félmn. Hv. félmn. hefur nú óskað eftir því við yfirvöld á þessu sviði að fá áætlun yfir útgjöld sjóðsins á næsta ári en hún er væntanleg næstu daga. Að meðaltali eru um 70% atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu og 30% á landsbyggðinni. Af þeim sem eru atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu eru 6,2% konur en karlar eru 3,7%. Konur á höfuðborgarsvæðinu eru því stór hluti þeirra sem eru atvinnulausir. Um 75% atvinnulausra á svæðinu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, eru skráðir í Reykjavík en þessar upplýsingar eru fengnar úr tölum vinnumálaskrifstofu félmrn. um atvinnuástandið.

Það er ljóst samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja að atvinnulausum mun fjölga á næsta ári og er þá gert ráð fyrir óbreyttu atvinnuleysisstigi en fjölgun á vinnumarkaði. Ekki lítur út fyrir að greitt verði úr þessum vandamálum á næstunni og því nauðsynlegt að leggja áherslu á að þjónusta þá sem ekki fá vinnu eins vel og unnt er. Því er mjög mikilvægt að tryggja fjármögnun á námskeiðum fyrir atvinnulausa og auka skilning á mikilvægi þess að skapa atvinnulausu fólki tækifæri til menntunar og vinnu.

Þá bendir 1. minni hluti á að skert er framlag frá Félagsmálaskóla alþýðu frá því sem var á fjárlögum 1995, sem verður að teljast óeðlilegt með tilliti til mikillar þarfar á aukinni starfsmenntun í atvinnulífinu, fullorðinsfræðslu og þjónustu við atvinnulausa. Ég hef, ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni, lagt fram brtt. þess efnis að framlag til Félagsmálaskóla alþýðu verði hækkað um 500.000 kr. en skerðingin frá í fyrra var 300 þús. kr. Tillagan er á þskj. 360. Þar er lagt til að liðurinn 07-985, Félagsmálaskóli alþýðu, almennur rekstur, verði hækkaður um 500 þús. kr. frá því sem lagt er til í fjárlögunum. Í lögum um Félagsmálaskóla alþýðu segir að rekstrarkostnaður skólans skuli greiddur að fullu úr ríkissjóði, annar en rekstrarkostnaður heimavistar sem greiðist 80%. Á þessu lagaákvæði byggist framlag ríkisins til Félagsmálaskólans.

Forsaga þessa mál er að við gerð kjarasamninganna 1977 lofaði ríkisstjórnin að liðka til fyrir gerð samninganna með sérstöku framlagi á fjárlögum til fræðslustarfsemi á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Félagsmálaskólanum ber að veita félagsmönnum BSRB fræðslu og auk þess ASÍ-félögum en til þessa hefur fjárveiting til skólans ekki tekið mið af því. Hún er að verðgildi svipuð og hún væri ætluð ASÍ-félögum einum þannig að skólinn þjónar því mun stærri hópi en hefur samt sem áður ekki fengið aukið fjármagn. Félagsmálaskóla alþýðu er stjórnað af fulltrúum frá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, ASÍ, BSRB og félmrn. Þetta er skipulag sem gerir bæði ríkisvaldinu og samtökunum auðvelt að hafa áhrif á starfsemina og leggja þær áherslur í fræðslustarfi sem skynsamlegastar þykja á hverjum tíma.

Fyrsti minni hluti fjárln. fordæmir þá aðgerð að afnema tengsl greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði og almannatryggingakerfinu við almenna launaþróun í landinu. Í gildandi lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er tenging við kjarasamninga fiskverkafólks sem felur í sér að bæturnar hækka í samræmi við almennar launahækkanir í þeirri starfsgrein. Þá er ákvæði um það í lögum um almannatryggingar að hækka skuli tryggingabætur í samræmi við kjarasamninga verkafólks. Með því að falla frá þessari tengingu er verið að snúa til kerfis sem minnir á ölmusu en slíkar hugmyndir höfðu sem betur fer verið aflagðar hér á landi. Ríkisstjórnin hyggst nú taka slíkt skref til fortíðarinnar og gerir það í nafni þess að það falli undir heildarstefnuna um afnám sjálfvirkni og verðlagsuppfærslna. Sú tenging við laun sem viðhöfð hefur verið í þessum málaflokkum er grundvallarréttindamál fyrir þá sem þurfa á greiðslum úr tryggingakerfinu að halda og gildir sá skilningur allt að einu þótt ríkisstjórnin hafi samið um greiðslurnar nú um áramót í tengslum við aðgerðir á vinnumarkaði. Eftir stendur að atvinnulausum er ekki tryggð þessi tenging í framtíðinni sem er mikil afturför enda eru atvinnulausir formlega séð á vinnumarkaði og því sjálfsagt að greiðslur til þeirra fylgi almennri launaþróun. Þá er rétt að minna á að það var almenn krafa verkalýðshreyfingarinnar að fallið yrði frá þessum áformum og það að ekki hafi verið fallist á þær kröfur mun væntanlega leiða til harðari átaka við frágang kjarasamninga í framtíðinni þar sem verkalýðshreyfingin mun eftir sem áður leitast við að tryggja félagsmönnum sínum sambærilegar launabreytingar og öðrum.

Fjárlaganefnd hefur fengið fjölda fólks á sinn fund vegna reksturs og stjórnunar heilbrigðiskerfisins. Hallatölur frá fyrri árum í heilbrigðiskerfinu hljóða upp á a.m.k. 700 millj. kr. og samkvæmt framlögðum tillögum þeirra aðila sem lagt hafa fram erindi fyrir nefndina vantar a.m.k. 2--2,5 milljarða kr. á það sem stjórnendur meta að þurfi til að veita nauðsynlega þjónustu. 1. minni hluti vill í þessu sambandi vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi heilbrigðismál þótt það verði samt að segjast eins og er að það er hálfgert hálfkák að vera að ræða mikið um þessi mál á meðan ekki liggja fyrir skýrari tillögur frá ríkisstjórninni. En eins og tillögur hæstv. heilbrrh. voru kynntar fyrir fjárln. hér áðan þá er engan veginn ljóst hvað í þeim felst svo að ég tel rétt að bíða til 3. umr. með frekari umfjöllun um þau mál. Vonandi fáum við þá frekari skýringar í umræðum í nefndinni um það hvað felst í tillögunum.

Í áliti 1. minni hluta fjárln. er þó vakin athygli á nokkrum atriðum sem eru efnislega mest þau sömu og koma fram í áliti minni hluta heilbrn. um fjárlagafrv. Ég mun aðeins drepa á einstaka mál í minni ræðu.

Ljóst er samkvæmt heimildum forsvarsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur að sameining Borgarspítala og Landakotsspítala hefur skilað verulegum ávinningi nú þegar þótt formlega verði sameining ekki fyrr en um næstu áramót. Bentu þeir þó á að fyrirhuguð hagræðing næðist ekki að fullu nema ný skrifstofuaðstaða fengist og jafnframt skapaðist þá meira rými í spítalanum í Fossvogi. Þá lýstu forsvarsmenn sjúkrahússins áhyggjum sínum af lækkun framlaga til reksturs um 225 millj. kr. frá árinu 1995 og telja að leita verði leiða til að ná niður rekstrarhalla þessa árs, en hann er áætlaður 105 millj. kr. Þá kom einnig fram að nauðsyn er á að huga frekar að viðhaldi búnaðar og tækja.

Athygli er vakin á málefnum glasafrjóvgunardeildar Landspítalans en fram kom á fundum með fulltrúum frá deildinni að um 650 pör eru þar á biðlista. Þá kom einnig fram að meðalaldur kvenna á biðlista fer hækkandi í samræmi við lengd biðlistans en hann hefur hækkað um tvö ár síðan á árinu 1991. Þá vöktu fulltrúar deildarinnar athygli á því hversu húsnæði deildarinnar er þröngt og vinnuálag mikið. Þá er mikil óánægja með þá ráðstöfun sem fyrirhuguð er að láta aukna gjaldtöku vegna glasafrjóvgunarmeðferða ekki nýtast til að byggja upp deildina sjálfa heldur eru framlög til kvensjúkdómadeildarinnar skorin niður sem nemur fyrirhugaðri hækkun. Þá hafa heyrst miklar óánægjuraddir frá þeim sem nota þessa þjónustu út af gjaldtökunum og hefur fólk haft uppi stór orð um háar gjaldtökur í samanburði við það sem annars staðar tíðkast. Það er óneitanlega brotið blað í heilbrigðiskerfinu ef við förum inn á þá braut að láta fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda greiða niður aðra starfsemi í kerfinu og ber að varast þá þróun.

Þá er í nál. minni hluta vakin athygli á ummælum fulltrúa kvennadeildar Landspítalans sem taldi aukið vinnuálag auka verulega líkur á mistökum sem auk annars tjóns hafi þegar haft í för með sér mikinn skaðabótakostnað fyrir ríkið. Þetta eru alvarleg orð og fyllilega vert að skoða ástandið þarna rækilega.

[21:15]

Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir hafa farið fram á framlag á fjárlögum sem nemur 2 millj. kr. til að setja á stofn skrifstofu auk viðbótarframlags til starfseminnar. Ekki hefur sú beiðni samtakanna fengist samþykkt þrátt fyrir þunga áherslu a.m.k. tveggja þingkvenna sem eiga sæti í hv. fjárln. Samtökin um kynlíf og barneignir voru stofnuð árið 1992 en sams konar samtök hafa verið starfandi um allan heim í áratugi. Að íslensku samtökunum standa bæði einstaklingar og félög en meginmarkmið þeirra er að stuðla að heilbrigðu kynlífi og tímabærum barneignum. Minni hlutinn styður það að fé sé veitt í þessa starfsemi enda hafa samtökin samfélagslegu hlutverki að gegna sem ekki er sinnt annars staðar sem skyldi. Ungmæðrafæðingar eru mun algengari hér en annars staðar í nálægum löndum, enda víðast hvar staðið betur að fræðslu um barneignir en hér. Því mun ég styðja þá tillögu til breytinga á fjárlögum sem hér hefur verið lögð fram af hv. þingkonum Kvennalistans. Ég sé ekki ástæðu til að leggja fram sérstaka tillögu þess efnis sjálf, en mun þess í stað styðja tillögu þeirra.

Fyrsti minni hluti telur brýna nauðsyn á stefnumörkun í heilbrigðismálum í stað handahófskennds niðurskurðar við fjárlagagerð ár hvert eins og raunin hefur verið. Það er sýnt af viðtölum nefndarmanna við forsvarsmenn stofnana í heilbrigðiskerfinu að lengra verður ekki gengið á þessari braut og nauðsyn á stefnumótun til langtíma. Það er mikil þörf á að leggja mat á forgangsröð þeirra samfélagslegu verkefna sem við teljum að eigi að sinna og meta til lengri tíma áherslurnar í fjárúthlutunum ríkissjóðs. Það verður að segjast eins og er að á meðan ríkisstjórnin hefur efni á að gera búvörusamning upp á annan tug milljarða, kemur það spánskt fyrir sjónir að klípa nokkra tugi milljóna af réttarbótum til þolenda ofbeldis og slík vinnubrögð misbjóða sómakennd manns stórlega.

Það mætti gera fjölmargar fleiri athugasemdir við fjárlagafrv. en hér hefur verið gert, en ég mun láta staðar numið í bili og láta frekari athugasemdir bíða 3. umr.