Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 21:27:43 (1945)

1995-12-14 21:27:43# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[21:27]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Þótt ég taki svona mikið af gögnum með mér í ræðustólinn, er það ekki tákn um að ég ætli að tala neitt gífurlega lengi. Þetta er frekar skipulagsleysi, en snertir þó það sem ég ætla að koma inn á.

Mig langar að byrja á því að ræða örlítið um vinnubrögð. Það urðu umræður í upphafi fundar í dag um þau tíðindi að fjárln. skilar að þessu sinni af sér verki til 2. umr. þar sem vantar inn í viðamikinn þátt fjárlaganna, eða það sem snýr að heilbrigðismálum. Ég fór að velta því fyrir mér, hvað það er sem við erum að ræða. Samkvæmt þingsköpunum segir svo um 2. umr., með leyfi forseta, í 39. gr.:

,,Önnur umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrstu umræðu eða útbýtingu nefndarálits og skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær. Síðan skal greiða atkvæði um hverja grein og breytingartillögur við hana, ef fram hafa komið, og loks um það hvort frumvarpið eigi að ganga til þriðju umræðu.``

Nú ber svo við að inn í þessa umræðu vantar viðamikla þætti og þá ekki síður það, hæstv. forseti, að 6. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1996, eins og reyndar önnur ár, er alls ekki til umræðu. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig á þessu stæði. Þýðir þetta að engar breytingar liggi fyrir um 6. gr. eða á hvaða heimild byggir fjárln. þann frágang að leggja 6. gr. ekki fram til umræðu? Ég minnist þess ekki að formaður fjárln. hafi komið inn á hana eða hennar sé getið í nefndarálitum, enda veit ég að hér er um þingvenju að ræða. En á hverju byggist hún? Hvers vegna er þessi kafli ríkisfjármálanna ekki til umræðu? Þetta leiðir til þess að hér er verið að sækjast eftir heimildum til ýmissa hluta og eins og ég þekki til þá fellur þessi liður, 6. gr., yfirleitt milli hluta. Hún er yfirleitt ekki rædd í umræðunum. Mér finnst rétt að vekja athygli á þessu og mér finnst að hér þurfi að verða breyting á. Það er fyllsta ástæða til þess að þingmenn fari mjög vel ofan í greinina og spyrji bæði fjárlaganefndarmenn og ekki síst viðkomandi ráðherra hvað liggur að baki. Um alls konar heimildir að ræða, kaup og sölu á eignum, húsum, jörðum og hinu og þessu sem mér finnst að þingmenn hafi ekki gefið nægilegan gaum.

[21:30]

Það er ákaflega gaman að heyra hvað nefndarmenn í fjárln. eru ánægðir hver með annan og þakka hver öðrum fyrir vel unnin störf. Af þessu má ráða að það hefur verið ákaflega skemmtilegt í fjárln. á þessu hausti. Ég get nú upplýst að nefndarstarf þar sem ég þekki til hefur verið með ágætum. Ég veit ekki hvort fjárlaganefndarmenn eru að innleiða þann nýja sið að menn byrji hverja einustu umræðu á að þakka hverjir öðrum fyrir gott samstarf. Ég veit ekki hvar það endar ef að tími þingsins fer í svona miklar þakkarræður. (Gripið fram í: Þetta er kínversk aðferð.) Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að þegar ég kom fyrst inn á hið háa Alþingi sem varamaður, ég held að það hafi verið 1984, lenti ég á fundi í efri deild en þar höfðu menn verið að ljúka einhverju viðamiklu máli. Þá einmitt upphófust svona ræðuhöld. Hver á fætur öðrum fór í pontu og ræðan gekk ekki út á neitt annað en að þakka formanni, varaformanni, leiðtoga stjórnarandstöðunnar o.s.frv. Ég held nú sannast að segja að þetta sé óþarfi og samstarf hér sé yfirleitt mjög gott og með eðlilegum hætti. En það hefur verið nokkuð sérstakt að hlusta á þetta hér í dag.

Hæstv. forseti. Umræða um fjárlög er ásamt umræðu um skattamálin og því sem hér gengur undir nafninu ráðstafanir í ríkisfjármálum, helsta tækifæri okkar þingmanna til að ræða almennt um efnahagsmál og þá efnahagsmál í heild. Hvernig efnahagsmál þjóðarinnar tengjast atvinnulífi, launamálum og öllu því sem við teljum til efnahagsmála. Í fjárlagafrv. má lesa stefnu ríkisstjórnarinnar. Þar eru útgjöldin sundurgreind og boðaðar leiðir til tekjuöflunar en hér er reyndar tekna aflað með lagaheimildum í sérstökum frumvörpum sem einmitt eru að skríða út úr efh.- og viðskn. þessa dagana.

Á undanförnum árum hefur mátt lesa ýmiss konar efnahagsspeki í fjárlagafrv. hvers árs. Ég minnist þess að eitt árið var mikið fjallað um kerfislægan halla. Næsta ár voru höfundar frv. mjög uppteknir af greiningu á orsökum atvinnuleysisins sem þá var í hámarki. En að þessu sinni ber það til tíðinda að höfundar frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 eru búnir að uppgötva framtíðina, að það komi ár eftir þetta ár og jafnvel enn þá fleiri ár. Þeir hafa uppgötvað hugtakið kynslóðareikningur og eru nú að brýna fyrir okkur það sem er auðvitað gott og blessað, að núverandi aðgerðir og núverandi efnahagsstefna muni hafa mikil áhrif á kjör komandi kynslóða. Þeim verður mjög starsýnt á halla ríkissjóðs og skuldasöfnun og annað sem er af mjög alvarlegum toga en geta þess ekki að það er ýmislegt annað sem getur haft áhrif á kjörin og framtíð þjóðarinnar eins og það t.d. hvernig aldursskipting þjóðarinnar mun þróast, hvernig þróun barneigna verður á næstu árum og áratugum og ekki síst náttúruleg skilyrði af ýmsu tagi eins og aflabrögð, gróðurhúsaáhrif sem kann að gæta hér á komandi áratugum og fleira. Það er mjög gott að horfa til framtíðar og gera sér grein fyrir því að það sem við erum að gera nú hefur áhrif til framtíðar. En ég hefði óskað þess að sjá stefnumörkun af því tagi miklu fyrr hjá íslenskum stjórnvöldum. Ég fæ nú reyndar ekki séð þrátt fyrir þessar hugleiðingar hagfræðinganna sem skrifuðu greinargerðina með frv., að í því felist mikil stefnumörkun til framtíðar. En við eigum einmitt að skoða það sem hér birtist út frá framtíðinni og þá verður mér ekki síst hugsað til menntamála og atvinnumála sem munu marka spor framtíðarinnar, stöðu atvinnuveganna nú og þeirrar framtíðar sem við þeim blasir og þess grunns sem við erum dag hvern að leggja fram til þjóðarinnar í skólum og menntamálum.

En það verkefni sem við stöndum frammi fyrir nú er einmitt að greina stefnu núv. ríkisstjórnar, taka undir það sem gott er eins og menn hafa nú gert í ræðum sínum í dag og ekki síður að gagnrýna það sem miður fer sem er auðvitað hlutverk okkar sem erum í stjórnarandstöðu. Mér hefur fundist að umræða um efnahagsmál sé mjög einhæf hér á landi eins og hún er reyndar víðast hvar annars staðar. Mönnum verður mjög starsýnt á vexti og vísitölur. Menn ræða sífellt um hallann, útgjöldin, þensluna og ríkissjóðinn og hvernig eigi að afla tekna. Menn velta fyrir sér leiðum í skattamálum og sköttum og skyldum almennings og allt er þetta sett upp í töflur, línurit og sneiðar og hvað það nú heitir allt saman. En það er mjög sjaldan sem spurt er um samhengi milli efnahagsstefnunnar og líðanar fólksins í landinu. Heimspekingurinn Bentham sem uppi var á 18. öld hélt því fram að það væri meginhlutverk stjórnvalda að stuðla að sem mestri hamingju þegnanna. Hann gerði sér grein fyrir því að því betur sem stjórnað er því betur líður fólkinu. Þá segi ég betur stjórnað í þeirri merkingu að stjórna í þágu almannahags. Hann gerði sér líka grein fyrir því að því betri sem líðan fólksins er því betra verður efnahagsástandið. Hagfræðingurinn Keynes áttaði sig líka á þessu og núna verður þess mjög vart í kenningum ýmissa hagfræðinga, ekki síst í Bandaríkjunum, að þeir halda þeirri kenningu mjög á lofti að líðan fólks og félagsleg staða hafi mjög mikil áhrif á efnahagslífið og jafnframt að þær ákvarðanir sem stjórnvöld taka á hverjum tíma hafi mikil áhrif á líðan fólksins. Í rauninni þegar maður fer að hugsa um það þá er þetta svo augljós staðreynd, hvort sem við erum að tala um ríkisstjórnir eða sveitarstjórnir. Allt sem við erum að ákveða, allar þær upphæðir sem við erum að verja til ákveðinna málaflokka eða skerum niður til málaflokka hafa víðtæk áhrif. En mér hefur fundist að á þeim tíma sem ég hef verið hér innan veggja að menn neiti að horfast í augu við afleiðingar gerða sinna eða vilji ekki horfa á dæmið til enda. Hvaða áhrif hefur t.d. sá niðurskurður til lengri tíma sem grunnskólinn hefur sætt? Hver verða áhrifin af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið?

Ástæðan fyrir því að menn hafa verið að velta þessu fyrir sér, þar á meðal hagfræðingar, er afleiðingar atvinnuleysisins. Það eru ekki síst hinar margvíslegu afleiðingar þess sem hafa einmitt vakið upp kenningar af þessu tagi sem kannski eins og ég nefndi hér áðan virðast vera svo augljósar staðreyndir. Ýmislegt sem er verið að ákveða hefur áhrif á vinnuþrek, heilsu, á framleiðni á vinnumarkaði, á neyslu vímuefna, á afbrot, skemmdir á umhverfinu, ofbeldi innan sem utan heimilis og fleira sem allt hefur svo áhrif á útgjöld ríkis og sveitarfélaga.

En ég hef ekki orðið vör við það að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi leitað mikið í smiðju til hagfræði af þessu tagi. Þeir hafa mun meiri áhuga á því sem er að gerast t.d. á Nýja-Sjálandi þar sem ýmsir sérfræðingar og spekingar af frjálshyggjuættum hafa gripið til sinna aðgerða sem hafa haft gífurleg áhrif á þjóðfélagið þar. Þar hefur verið gerð einhver mesta árás á velferðarkerfið sem um getur á síðustu áratugum. En ég vil reyndar taka það fram að í þeim miklu sviptingum sem þar hafa átt sér stað er ekki allt til hins verra en þá verður mér sérstaklega hugsað til þeirra róttæku breytinga sem þar voru gerðar á landbúnaði.

Ef ég sný mér nú að sjálfu frv. og þeirri stefnu sem þar er höfð uppi þá er vert að rifja upp fyrir sér hver markmið þessarar ríkisstjórnar í efnahagsmálum eru. Út frá því má spyrja sig: Hvernig er þeim í rauninni framfylgt? Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, Sjálfstfl. og Framsfl. eins og hún heitir reyndar, segir á bls. 2 með leyfi forseta:

,,Meginmarkmið ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. eru þessi:

Að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt. Hagstætt raungengi og sambærilegir vextir og í helstu samkeppnislöndum eru undirstaða öflugs atvinnulífs og forsenda þess að störfum fjölgi. Með auknum fjárfestingum og nýsköpun í atvinnulífi verður unnið gegn atvinnuleysi.

Að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á ráðdeild og að treysta stoðir velferðarinnar. Í þeim tilgangi er brýnt að stöðva sjálfvirkni í útgjöldum ríkissjóðs.``

Ef við horfum aðeins á þessi markmið í ljósi þess sem liggur fyrir í fjárlagafrv. þá má segja að það markmið að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum virðist vera nokkuð í höfn eins og mál líta út núna, þ.e. í ríkisfjármálunum. Við sjáum það að verðbólga er lág og þó ríkissjóður sé rekinn með halla þá virðist nú vera nokkur stöðugleiki. En sá stöðugleiki nær hvorki til sveitarstjórna í landinu né heimilanna eins og fram hefur komið í þeim nefndarálitum sem hér liggja fyrir því að á meðan ríkið er að vinna að því að ná niður sínum halla er halli heimilanna vægast sagt geigvænlegur og erfiðleikar sveitarstjórnanna einnig mjög miklir.

Að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu. Það markmið er sett í þessum fjárlögum að ná niður halla ríkissjóðs á tveimur árum og það markmið setti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sér líka í byrjun kjörtímabilsins 1991 og það fór nú eins og það fór. Eins og ég nefndi við 1. umr. þá finnst mér menn ansi brattir að byrja á þessu á nýjan leik og heldur ólíklegt að það takist.

Eins og ég nefndi áðan er það líka markmiðið að vinna gegn atvinnuleysi með auknum fjárfestingum og nýsköpun í atvinnulífi en ég verð að segja eins og er að ég hef ekki orðið vör við áform af þessu tagi hér í frv. Það er dregið úr fjárfestingum ríkisins og eins og hér hefur verið nefnt er lítið um stuðning við nýsköpun í atvinnulífi. T.d. er dregið úr framlögum til rannsóknasjóða og til vísindarannsókna. Enda liggja hér fyrir tillögur um hækkanir á slíkum fjárframlögum. Ég veit ekki hvar þetta markmið er að finna í þeim gögnum sem hér liggja fyrir.

[21:45]

Ef við berum þá stefnu sem kemur fram í frv. saman við aðgerðirnar og spyrjum okkur hvað í raun sé verið að gera mundi ég lýsa því þannig það er í fyrsta lagi verið að reyna að skera halla ríkissjóðs mjög bratt niður. Og ég spyr aftur: Tekst það? Er hér um raunhæf markmið að ræða? Niðurskurðurinn felst fyrst og fremst í því að það er verið að ráðast á ákveðna þjóðfélagshópa. Ákveðnir þjóðfélagshópar eiga að borga brúsann og þá fyrst og fremst gamla fólkið, fatlaðir og einstæðir foreldrar. Þótt hér hafi verið bent á að það eigi að auka fjárframlög til barnabótaaukans sem er tekjutengdur, breytir það ekki því að það er ákveðinn hópur einstæðra foreldra, þ.e. foreldrar sem eru fyrir ofan þessi tekjuviðmið, sem verður fyrir skerðingu. Staðreyndin er að svona tekjuviðmiðanir segja okkur oft harla lítið vegna þess að það er svo margt annað sem ræður kjörum fólks, t.d. námsskuldir.

Það er verið að skera niður fjárframlög til framkvæmda. Við hljótum að spyrja hvaða áhrif það hefur á atvinnulífið. Mér finnst ríkisstjórnin gefa þessu allt of lítinn gaum og gera allt of lítið úr atvinnuleysinu og afleiðingum þess og hvernig eigi að draga úr því. Það er verið að reyna enn einn ganginn að spara í heilbrigðismálum þó reyndar hafi verið hætt við nokkur áform hvað það varðar og við vitum ekki enn hver útkoman verður. Hér er hinn sígildi flati niðurskurður einnig á ferð en það bólar lítið á áformum um einkavæðingu sem hinn galvaski fjmrh. lagði mikla áherslu á í upphafi ferils síns. Hann hefur orðið að bakka með hana þótt hann hafi reyndar endurnýjað nefndina sem á að annast einkavæðinguna.

Ein af þeim spurningum sem vakna hjá mér eftir að hafa farið í gegnum fjárlagafrv. er auðvitað sú: Hvað varð um öll áformin sem menn lýstu svo fjálglega hér fyrir kosningar um sókn í menntamálum? Það voru allir sammála um það í kosningabaráttunni og lýstu því mjög fjálglega yfir að það væri mjög brýnt að auka fjármagn til menntamála og ég man eftir nokkrum fundum um þau mál, m.a. í Háskólabíói. En hér bólar hvergi á þeirri stefnu. Ég fæ ekki séð að hér sé um neina sókn að ræða enda sjá menn það að beiðni Háskóla Íslands hefur ekki verið sinnt og hann fær hvergi nærri það fjármagn sem hann þarf á að halda. Ef svo heldur fram sem horfir verður auðvitað ekkert úr þeirri sókn sem lofað var.

Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum í fjárlagafrv. og þeim breytingartillögum sem fyrir liggja og þá einkum því sem heyrir undir þá nefnd sem ég er í, félmn. Við fórum á sínum tíma rækilega í gegnum þann kafla frv. sem undir okkur heyrir og þar eru nokkur mál sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Mér finnst þurfa að gefa þeim mun meiri gaum en gert hefur verið. Það eru í fyrsta lagi málefni fatlaðra. Samkvæmt frv. til fjárlaga gerist það í fyrsta skipti að fjármagn er tekið úr erfðafjársjóði til annarra hluta en því er ætlað. Því er ætlað að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra en að þessu sinni fer ríkisstjórnin þá leið að skerða eða taka af því framlagi a.m.k. 133 millj. kr. Að vísu á að verja þeim fjármunum til reksturs stofnana fatlaðra en það sem þarna er að gerast er það sama og með svo marga aðra sjóði, eins og við sjáum reyndar í bandorminum. Þar sem menn hafa markað ákveðna tekjustofna er byrjað að kroppa í þá og byrjað að taka þá í annað, eins og dæmið er með þennan sjóð. Minni hlutinn í félmn. varar alveg sérstaklega við þessu, ekki síst í ljósi þess hvernig hefur farið með aðra slíka sjóði og aðra slíka eyrnamerkta tekjustofna.

Í öðru lagi vil ég nefna húsnæðismál og benda á að í umræðum í félmn. lýstu menn miklum áhyggjum yfir framtíð Byggingarsjóðs verkamanna. Það er alveg ljóst að það framlag sem er að finna hér í fjárlögum og er verulega skorið niður dugar ekki fyrir rekstri sjóðsins og þeim lánveitingum sem fram undan eru. Þar er aðeins um tvennt að ræða, annaðhvort verður að auka framlag ríkisins svo sjóðurinn rýrni ekki stöðugt og gangi á eigin eignir og stefni hreinlega í gjaldþrot eða hækka vexti. Það hlýtur öllum að vera ljóst að hækkun vaxta í Byggingarsjóði verkamanna er einfaldlega ekki á dagskrá. Þar er verið að sinna þeim hópi fólks sem stendur hvað verst að vígi í samfélaginu og sakna ég nú hv. þm. Péturs Blöndals sem finnst íbúar í félagslega húsnæðiskerfinu búa við mikil forréttindi umfram ýmsa aðra. En staðreyndin er sú að menn gera sér ekki grein fyrir því hvaða hópur fólks það er sem býr í félagslegum íbúðum og hvernig efnahagsstaða þess er. Það var síðast núna í vikunni þegar við vorum að fjalla um bandorminn að fulltrúar Alþýðusambandsins bentu á það hvílíkt óréttlæti felst í því að lögin heimila nú að vextir séu hækkaðir þegar búið er að skoða tekjur fólks á ákveðnu árabili. Ef fólk fer yfir þau tekjumörk má hækka vextina en ef fólk lendir í einhverjum áföllum, missir vinnu eða lendir í veikindum, er ekki heimilt að lækka vextina aftur. Við kvennalistakonur höfum reyndar flutt tillögu um þetta en hún hefur ekki náð fram að ganga. Þetta er mál sem vissulega þarf að skoða. Jafnframt því að sjóðurinn stendur frammi fyrir þessum erfiðleikum er verið að skera niður sjálf lánin. Það er verið draga úr lánum sérstaklega til bygginga á félagslegu húsnæði. Í nefndaráliti félmn. til fjárln. var varað sérstaklega við því og vakin athygli á því að ekki mætti nota stöðuna úti á landsbyggðinni sem eitthvert skjól til þess að skera niður þegar staðreyndin er sú að hér á höfuðborgarsvæðinu bíða hundruð manna eftir því að fá úthlutað íbúðum. Þörfin er gífurlega mikil og þá á auðvitað að beina fjármagninu þangað sem þörfin er.

Þá vekjum við líka athygli á þeim áformum ríkisstjórnarinnar að koma húsaleigubótum alfarið yfir á sveitarfélögin eins þar er boðað. Þar sem húsaleigubætur hafa verið teknar upp gefast þær vel. En það eru ekki nærri því öll sveitarfélögin sem hafa tekið þær upp, m.a. með eftirfarandi rökum: Það er aldrei neinu að treysta sem ríkisvaldið gerir. Eftir nokkur ár verður búið að koma þessu öllu yfir á okkur. Það er einmitt boðað hér í þessu fjárlagafrv. að það eigi að koma húsaleigubótunum yfir á sveitarfélögin. Það gengur algjörlega þvert á þau markmið sem menn settu sér í upphafi. Því miður eru enn nokkur stór sveitarfélög sem hafa ekki tekið upp húsaleigubætur. En það kom einmitt fram í heimsókn okkar nokkurra þingmanna Reykjavíkur til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar að húsaleigubæturnar skipta skjólstæðinga þeirrar stofnunar verulegu máli. Það er alveg ljóst að eins og staða sveitarfélaganna er núna, eru þau ekki fær um að taka þennan póst á sig. Það er alveg ljóst. Við hljótum því að mótmæla öllum áformum ríkisstjórnarinnar um að gera breytingar á húsaleigubótunum. Það þarf miklu frekar að tryggja þær í sessi. Miðað við alla þá aðstoð sem menn hafa veitt því fólki sem er að kaupa sér húsnæði þá hljótum við að spyrja: Hvað um leigjendur? Eiga þeir engan rétt? Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í máli hæstv. félmrh. að það þurfi að auka framboð á leiguhúsnæði og það eigi að vera kostur. Auðvitað á að styðja það fólk eins og aðra. Sé stefna ríkisvaldsins sú að styðja fólk í húsnæðismálum, eiga leigjendur að sjálfsögðu að njóta þess eins og aðrir.

Hæstv. forseti. Ég fer nú að stytta mjög mál mitt. Það eru örfá atriði sem ég vil nefna áður en ég lýk því. Þá er fyrst að nefna að ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því, sem reyndar á eftir að koma hér til umræðu á næstu dögum, hvernig farið er með gamla fólkið í landinu. Í þeim frv. sem hér liggja fyrir, fjárlagafrv., skattafrv. og bandorminum, er um þrefalda árás á gamla fólkið að ræða. Í fyrsta lagi er verið að aftengja þær bætur sem lífeyrisþegar fá, bætur í almannatryggingakerfinu. Þær eiga ekki lengur að fylgja almennum launahækkunum eins og verið hefur. Það er fyrsti liðurinn. Í öðru lagi eiga fjármagnstekjur að skerða þessar sömu bætur. Í þriðja lagi liggur nú fyrir að ríkisstjórnin ætlar að fella alfarið niður þann 15% afslátt sem lífeyrisþegar fengu með samþykkt laga hér fyrir tveimur árum. Ef þingmenn átta sig ekki á því um hvað ég er að tala þá gerðist það fyrir tveimur árum, þegar mikil umræða var um tvísköttun lífeyris, að samþykkt var að byrja á þeim endanum sem snýr að lífeyrisþegum og það var samþykktur sérstakur 15% afsláttur til þeirra. Það var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að þessi afsláttur yrði afnuminn í tvennu lagi, færi fyrst í 7,5% og síðan niður í 0. En nú liggur það fyrir samkvæmt tillögu sem búið er að afgreiða út úr efh.- og viðskn. að hann verður felldur niður með öllu. Þetta þrennt verður til þess að skerða kjör lífeyrisþega verulega. Því miður hef ég ekki fengið útreiknað dæmi um það hversu miklu þetta nemur til að vita hversu háar upphæðir þetta eru, og eftir því þurfum við að kalla. En þarna er þrisvar sinnum ráðist á sama hópinn. Þetta er algjörlega óþolandi.

Menn eru enn að væflast með þennan blessaða fjármagnstekjuskatt í tíunda skiptið í einhverri nefnd úti í bæ, þar sem við kvennalistakonur eigum reyndar fulltrúa, en það mál ætti að vera komið í höfn fyrir löngu. Mér var nú reyndar sagt frá því fyrir nokkrum dögum sem ég vissi ekki, að fjármagnstekjuskattur var afnuminn hér á landi í kringum 1978. Hann var í gildi hér en einhverra hluta vegna var hann afnuminn. Það væri fróðlegt að fara ofan í þá sögu. Það var nú ekki ómerkari maður en Indriði H. Þorláksson sem upplýsti mig um þetta. (Gripið fram í.) Því miður hef ég ekki vitneskju um það. Það væri frekar að hv. þm. Svavar Gestsson þekkti þessa sögu. Ef ég man rétt var hann kjörinn á þing 1978. (SvG: Þetta var forsetinn.) Það væri fróðlegt að fá hæstv. forseta hér í ræðustólinn ef hann gæti upplýst okkur um það hvaða réttlætismál það var á sínum tíma að afnema fjármagnstekjuskatt. En einhverra hluta vegna gerðist þetta og þið sjáið það í ljósi sögunnar hversu illa hefur gengið að koma honum á aftur. Það ætti kannski að kenna mönnum að það eigi aldrei að fella niður neina skatta. Það er nú reyndar ekki mín kenning, en það má kannski draga þá ályktun af þessu. Ég ætla ekki að gera það að allsherjarkenningu.

[22:00]

Ég vil ekki láta hjá líða að minnast á það mál sem við höfum margítrekað hér bæði kvennalistakonur og aðrir og snertir þá tillögu sem við höfum lagt fram sem breytingartillögu við fjárlögin og reyndar aðrir, þ.e. bætur til þolenda afbrota. Það má ekki gerast að sú tillaga til lagabreytingar sem felst í bandorminum verði samþykkt og bæturnar skertar verulega fyrir utan að því verði seinkað að hefja greiðslur þeirra. Við hljótum að beita okkur af öllu afli til að fá þessu hnekkt og tiltölulega nýsamþykkt lög gangi í gildi. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fór mjög rækilega ofan í þetta mál og ég ætla ekki að endurtaka það. Ég ítreka bara hversu gríðarlega mikið réttlætismál það er að standa við þessi samþykktu lög.

Ég vil líka nefna sérstaklega og ítreka þá tillögu sem við höfum lagt fram um örlítinn styrk til fræðslusamtakanna um kynlíf og barneignir. Það er furðulegt að hv. formaður fjárln. skuli ekki hafa beitt sér í þessu máli.

Herra forseti. Fyrst hv. þm. gat nú verið að yrkja um þessi mál inni í fjárln. þá hefði hann getað veitt þessu stuðning sinn. Ég græt af sorg yfir þessu. (Gripið fram í: Er ræðumaður drukkinn?) Nei, fjarri því. En í alvöru talað, þá er hér um mikið alvörumál að ræða og ég vona svo sannarlega að hv. fjárln. taki þetta til skoðunar milli 2. og 3. umr. Ég hefði getað flutt hér nokkra fræðslu um þessi mál í heimssögulegu samhengi og eins hefði ég getað rakið það ástand sem ríkir í þessum málefnum hér á landi. En ég ætla að láta nægja að fullyrða að það er mjög mikil þörf á því að styðja við bak þessara samtaka sem m.a. eru að þreifa sig áfram í starfi hér í borginni og eiga vonandi eftir að láta til sín taka víðar á landinu. Hér er um mjög þarfa starfsemi að ræða enda ríkir nokkuð sérstakt ástand hér á landi bæði hvað varðar unglingaþunganir, endurteknar fóstureyðingar og fleira slíkt. Má þá einnig minnast á að meðlagsgreiðslur eru nánast fjárhagslegt vandamál hér á landi vegna þess hve mörg börn fæðast utan hjónabands eða eru skilnaðarbörn. Hér fæðast fleiri börn utan hjónabands en í nokkru öðru Evrópulandi, að ég hygg. Og menn eru býsna skuldseigir í þeim málum. Það er ekki hægt að segja annað en að hér ríkir ákveðið ábyrgðarleysi í þessum efnum sem auðvitað bitnar á börnunum.

Hæstv. forseti. Ég á mér fleiri hjartans mál í þessu fjárlagafrv. sem vert væri að koma inn á. Þau snúa að hæstv. menntmrh. Þar vil ég t.d. nefna Listskreytingasjóð og Kvikmyndasjóð en hér liggja fyrir tillögur um hækkun til þeirra mála. Ég vil einnig sérstaklega nefna það sem ég hef tekið fyrir á hverju einasta ári, eða framlög til húsafriðunar. Þótt hv. fjárln. hafi hækkað framlög til þeirra málefna örlítið, sem ég þakka auðvitað fyrir, má enn betur gera. Ég vil minna á að auk þess sem húsafriðun stuðlar að varðveislu menningarverðmæta þá er hún einnig mjög atvinnuskapandi. Ég get ekki ímyndað mér hollari og betri vinnu heldur en þá að varðveita menningarverðmæti og alla þá sögu sem kynna má í því samhengi. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu og þetta varðar reyndar líka bandorminn. Ég fæ tækifæri til að ræða þetta betur síðar. Mér finnst framkoma ríkisvaldsins vægast sagt heldur sérkennileg þar sem sveitarfélögunum er ætlað að standa við sitt, borga ákveðna upphæð á hvern íbúa. En ríkisvaldið sem átti lögum samkvæmt að borga jafnt á móti ætlar bara að hafa það eins og því sýnist. Ákveða á fjárlögum sitt framlag.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég rifja það upp að þetta fjárlagafrv. hefur fengið mikla gagnrýni. Það hefur verið gagnrýnt mjög harðlega af Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu, fulltrúum gamla fólksins, fatlaðra og einstakra hópa sem þar er ráðist á. Þá minni ég t.d. á þann hóp fólks sem hefur verið að leita eftir því að fá glasafrjóvgun. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gagnrýnt frv. allharkalega, það gerist auðvitað enn eitt árið að ráðist er á sveitarfélögin með ýmsu móti. Þetta færir okkur heim sanninn um að það er margt mjög vont að finna í þessu frv., fyrst og fremst það sem snýr að þeim sem verst standa í þjóðfélaginu, öldruðum og fötluðum. Það er að mínum dómi til vansa ef við ætlum að ganga hér frá þessu verki með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv. Ég skora á meiri hluta Alþingis að taka sig nú á og falla frá þeim áformum sem hér er að finna um skerðingu bóta og skerðingu framlaga til þeirra sem orðið hafa fórnarlömb afbrotamanna af ýmsu tagi. Enn er tími til að breyta um stefnu. Hér er ekki um þvílíkar fjárhæðir að ræða að þeirra verði ekki aflað með einhverjum hætti.