Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 23:01:17 (1949)

1995-12-14 23:01:17# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[23:01]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarna sjá orðið ,,ágæti`` innan gæsalappa í þingræðunni þegar hún verður rituð. En eins og allir vita stöndum við frammi fyrir þeim verkefnum sem samningurinn leggur okkur á herðar og er Hollustuvernd ríkisins sennilega ein af þeim stofnunum sem verða mest fyrir því að þurfa að sinna nýjum verkefnum í tengslum við samninginn. Það varð mér ljóst strax á liðnu sumri þegar ég fór að líta á ný á málefni Hollustuverndar ríkisins.

Ég held að ég hafi einhvern tímann áður nefnt hér í umræðum um verkefni stofnunarinnar og þær skyldur sem þessi samningur leggur á okkur, að Hollustuvernd ríkisins hafi í þá tíð sem ég hafði áður afskipti af henni búið við þrjár eða fjórar reglugerðir sem samdar voru upp úr þeim eina lagabálki sem um stofnunina gildir. En nú eru þessar reglugerðir og tilskipanir komnar á a.m.k. þriðja hundrað. Þar hefur staðan augljóslega gjörbreyst og þess vegna er nauðsynlegt að fara yfir málefni hennar. Ég hef líka lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að líta til þess máls. Því miður vannst ekki tími til að skoða það betur fyrir afgreiðslu fjárlaganna en eins og hv. þm. greindi frá hefur nefnd sú sem vann að málinu komist að ákveðinni niðurstöðu. Hún var síðan lögð fyrir stjórn Hollustuverndar ríkisins sem hafði auðvitað ýmislegt við það að athuga að ekki skyldi hafa tekist að gera betur að þessu sinni. En ég hef rætt um það við einstaka stjórnarmenn hvernig að þessu megi standa. Að vísu ekki alla, en suma. Ég hygg að nú verði að líta til þess og þá sérstaklega í þessu sambandi að auka sértekjur stofnunarinnar vegna þess að þetta eftirlitshlutverk er þess eðlis að þar er verið að sinna ýmsum verkefnum fyrir t.d. ýmsa innflutningsaðila og framleiðendur. Þeir verða auðvitað í auknum mæli að standa undir þeim útgjöldum sem því fylgir.