Fjárlög 1996

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 23:21:39 (1952)

1995-12-14 23:21:39# 120. lþ. 65.5 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[23:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hvort hæstv. fjmrh. er staddur í þinghúsinu og ef svo er þá óska ég eftir nærveru hans við þessa umræðu.

(Forseti (RA): Hann er í húsinu og honum verður gert viðvart.)

Hæstv. forseti. Ég mun hinkra við þar til fjármálaráðherra er kominn í þingsalinn. Það er svolítið undarlegt eftir þessa tæknivæðingu í þinginu að vita til þess að maður er að tala til þingmanna víðs vegar um stofnunina þar sem þeir sitja sjónvarpsvæddir í herbergjum sínum. Undarleg tilfinning er það engu að síður.

(Forseti (RA): Hv. þm. getur verið viss um að þeir missa ekki eitt einasta orð.)

Alla vega ætla ég að sjá til þess að hæstv. fjmrh. missi ekki eitt orð af því sem ég segi í upphafi minnar ræðu vegna þess að ég vil, hæstv. forseti, byrja á að vekja athygli á því að í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir launahækkunum umfram það sem samið var um fyrr á þessu ári. Í kjarasamningum á fyrri hluta ársins eru endurskoðunarákvæði og hefur það væntanlega ekki farið fram hjá neinum hverjar hræringar hafa orðið á vinnumarkaði vegna þessarar endurskoðunar kjarasamninga. Þetta á við um almenna launamarkaðinn og þetta á einnig við um starfsfólk sem starfar hjá sveitarfélögum og ríki.

Þegar fjmrh. og fulltrúar hans sömdu á sínum tíma við félög ríkisstarfsmanna var frá því greint við upphaf kjarasamninganna að Vinnuveitendasambandi Íslands yrði látið það eftir að skapa samningsrammann og yrði ekki samið við starfsmenn ríkisins umfram það sem þar var skammtað. Gekk þetta að mestu leyti eftir. Kjaradómur eins og við vitum er svo annar handleggur. Honum koma engir samningar við enda hélt hann sig jafnan í sínum úrskurði einhvers staðar nærri plánetunum eins og fyrri daginn en það er önnur saga.

En varðandi kjarasamningana þá létu menn sig þessar málalyktir lynda þótt ánægja væri ekki með niðurstöðuna. En hvað gerist svo? Eftir úrskurð Kjaradóms um kjör alþingismanna, ráðherra og háembættismanna auk kjarabóta til þingmanna og ráðherra sem ákveðnar voru í þessum sal, logaði allt samfélagið í óánægju. Í kjölfarið ákvað Vinnuveitendasambandið að færa þorra launamanna á almennum vinnumarkaði kjarabætur, að sönnu ekki ýkja miklar og ekki var hrópað húrra fyrir þeim enda voru þessar kjarabætur ekki stimplaðar inn í launataxtann eins og óskir manna almennt stóðu til. En engu að síður voru þetta kjarabætur og námu samtals að því er sagt er um 800 millj. kr. En hvað skyldi hæstv. fjmrh. gera í þessari stöðu gagnvart því starfsfólki sem hann semur við? Hvernig skyldi hann axla ábyrgð sína sem launagreiðandi gagnvart starfsmönnum ríkisins? Nú er ég ekki, hæstv. fjmrh., að tala um neitt hálaunafólk. Ég er að tala um starfsstéttir á borð við póstmenn. Ég er að tala um almennt skrifstofufólk sem starfar hjá ríkinu eða aðrar stéttir. Ég er að tala um láglaunafólk sem þúsundum saman er með langt fyrir neðan 70 þús. kr. í dagvinnulaun. Hvernig skyldi hæstv. fjmrh. bera sig að gagnvart sínum starfsmönnum varðandi kjarabætur? Skyldi hann hafa lýst því yfir að hann hygðist láta Vinnuveitendasambandið ákvarða rammann, fara að dæmi atvinnurekenda innan Vinnuveitendasambandsins eins og fyrr á árinu? Við skulum ekki gleyma því að hæstv. fjmrh. hefur margoft lýst yfir því að þetta hafi hann gert og hefur hann vísað á bug öllum fullyrðingum um hið gagnstæða. Hann hefur margoft lýst því yfir að hann hafi samið innan sama ramma og samið var almennt um á almennum vinnumarkaði.

Þess vegna kom mönnum óneitanlega mjög á óvart að hæstv. fjmrh. skyldi bregðast við af annarri eins óbilgirni og raun ber vitni í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Ég hef meira að segja grun um að það hafi komið ríkisstjórninni allri á óvart, alla vega hæstv. forsrh., sem í fréttaviðtölum sagði að starfsmenn ríkisins myndu að sjálfsögðu hljóta svipaðar kjarabætur og gerðust á almennum vinnumarkaði. Að vísu skal það tekið fram að þá hafði ríkisstjórnin ekki fengið línuna frá Vinnuveitendasambandinu. Þar var nefnilega kveðið á um það að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga fengju ekki kjarabætur í sitt launaumslag við fyrrnefnda endurskoðun kjarasamninga.

Það er ekki, hæstv. fjmrh., stórmannlegt að nýta sér þá staðreynd að fólk er seinþreytt til vandræða, seinþreytt til að beita verkfallsvopni. En ég spái því nú að framkoma af þessu tagi, ósanngirni af þessu tagi gagnvart láglaunafólki er ekki til þess fallin að skapa frið og jafnvægi í þjóðfélaginu. Framkoma af þessu tagi leiðir af sér tortryggni og hún leiðir af sér úlfúð. Ef menn á annað borð ætla að framfylgja almennri launastefnu þá er það grundvallaratriði að um hana ríki almenn sátt í þjóðfélaginu. Þetta er grundvallaratriði. Menn mega vita að þegar sáð er til sundrungar og sundurlyndis er uppskeran eftir því. Við erum einmitt að verða vitni að þess konar ástandi í þjóðfélaginu. Ég lít svo á að það sé skylda hæstv. fjmrh. að setjast niður með samtökum fulltrúa opinberra starfsmanna og reyna að ná sátt í þessum málum. Ég tel þetta mjög mikilvægt því ef menn vilja stuðla að farsælli niðurstöðu í kjarasamningum í lok næsta árs, og það hljóta allir að vilja gera, þarf að skapa trúnað og traust um heilindi samningsaðila. Það hljóta allir að vilja ná víðtækri sátt um almennar kjarabætur og leiðir til að ná þeim fram. Það verður fylgst með hæstv. fjmrh. í þessu efni því það kemur dagur eftir þennan dag.

Hitt er svo allt annað mál að sú ákvörðun hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar allrar að falla frá því að setja innritunargjöld á sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús og setja ekki á viðbótargjöld innan veggja sjúkrastofnana eins og til hafði staðið að gera, er ánægjuefni og mjög mikilvægt að mínu mati. Annað sem ríkisstjórnin lýsti yfir gagnvart samtökum launafólks, BSRB og ASÍ um að ekki yrðu skertar tekjur öryrkja, lífeyrisþega og atvinnulausra á næsta fjárlagaári eins og til hafði staðið er einnig mjög mikilvægt enda höfðu samtök launafólks lagt höfuðáherslu á að fallið yrði frá þessum áformum.

Eftir sem áður er gert ráð fyrir því í hinum illræmda bandormi að skera á tengslin sem verið hafa á milli kjara þessara hópa og þeirra hópa sem afla launatekna í þjóðfélaginu. Þetta verður að sjálfsögðu rætt við umræðuna um bandorminn sem öðru nafni nefnist frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Undarlegt heiti á lögum sem að uppistöðu til fjalla um breytingar sem eru hugsaðar til frambúðar og koma sumar hverjar ekki til framkvæmda á næsta ári heldur síðar. Þessar breytingar, sem eru mjög alvarlegs eðlis, verða að sjálfsögðu ræddar rækilega við umræðuna um bandorminn.

[23:30]

En þótt ég leggi áherslu á hve mikilvægt það er að ríkisstjórnin skuli hafa fallið frá því að skerða kjörin hjá öryrkjum, ellilífeyrisþegum og atvinnulausum, og fallið frá innritunargjöldum, þá er ekki þar með sagt að allt sé eins og best verður á kosið. Því fer reyndar afar fjarri eins og ítrekað hefur komið fram hér við fjárlagaumræðuna. Það sem reyndar einkennir þessa umræðu er að kvartað er um fjársvelti mjög víða í menntakerfi, heilbrigðiskerfi og félagslegri þjónustu almennt. Nú vitum við öll að heilbrigðis- og félagsþjónusta er þess eðlis að henni verður aldrei fullnægt þannig að ekki megi gera betur. Þetta á einnig við um mennta- og uppeldismál. Svona er þetta eðli málsins samkvæmt. En þetta er einnig spurning um forgang í þjóðfélaginu, um hvernig fjármunum þess er ráðstafað. Ekki er nóg með það þó, því þetta snýst einnig um það hvernig greitt er fyrir þjónustuna. Það leikur ekki nokkur vafi á því að sú stefna sem framfylgt hefur verið, að svelta heilbrigðisstofnanir, hefur leitt til þess að þeim er í sífellt ríkari mæli þröngvað til að taka upp sértekjur. Á undanförnum árum hefur t.d. verið skorið niður við Háskóla Íslands. Hann bregður síðan á það ráð að setja á innritunargjöld sem að hluta til renna til reksturs skólans. Þar sem þetta á sér ekki stoð í lögum er þess farið á leit við ríkisstjórnina að lög um innritunargjöld séu samþykkt. Hæstv. menntmrh. talaði hér síðan fyrir nokkrum dögum fyrir þessari lagabreytingu en í grg. með því frv. og í máli hæstv. ráðherra er sagt að nú þurfi að lögfesta þessi gjöld. Hvers vegna? Að beiðni Háskóla Íslands. Með öðrum orðum, Háskóli Íslands er gerður ábyrgur fyrir því að koma á skólagjöldum.

Þetta eru menn einnig að föndra við gagnvart heilbrigðiskerfinu. Ég hef ekki trú á því að þetta sé vilji hæstv. heilbrrh. Ég endurtek það svo hæstv. heilbrrh. heyri orð mín. Ég hef ekki trú á því að innritunargjöld og aukin gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu sé vilji hæstv. heilbrrh. Og ég styð reyndar hæstv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur, í þeirri afstöðu að afla beri almennra skatttekna t.d. fjármagnsskatts, skatta af tekjum fyrirtækja og hátekjuskatts á einstaklinga til að standa straum af kostnaði við heilbrigðisþjónustuna í stað þess að láta notandann, sjúklinginn, ef því er að skipta, borga úr sínum vasa. Ég styð þessa afstöðu hæstv. heilbrrh. En hæstv. heilbrrh. má vita að hún er í samstarfi við stjórnmálaflokk sem hefur þá stefnu að markaðsvæða spítalagangana. Niðurskurður og fjársvelti er leiðin sem á að fara til að ná þessu markmiði því svo andvíg er þjóðin þessari ráðstöfun að ekki þykir fært að fara öðruvísi að málinu en inn um bakdyrnar.

En hverjir skyldu nú bregðast harðast gegn þessari stefnu? Jú, það eru málsvarar þeirra hópa sem eiga beint hlut að máli. Það hefur bókstaflega rignt yfir mótmælum frá samtökum öryrkja, sjúklingahópum sem eru afskiptir og forsvarsmönnum heilbrigðisstofnana sem sýna þá ábyrgð að styðja við bakið á sjúklingum sínum. Þessir aðilar eru ekkert sérstaklega að leggjast á hnén. Þeir færa mjög góð rök fyrir máli sínu sem í sumum tilvikum ganga út á það að spara fjármuni þegar til lengri tíma er litið. Þannig hefur landlæknir sýnt fram á að með því að stofna til svokallaðra sjúkrahótela megi spara 15--20% af rekstrarfé sjúkrahúsanna. Þetta eru með öðrum orðum fyrirbyggjandi aðgerðir í þeim skilningi að þær verða til þess að spara ríkissjóði fjármuni þegar til framtíðar er litið.

Eru hæstv. heilbrrh. og hæstv. fjmrh. að ræða hvernig eigi að ráðstafa 150 milljónunum? Hvort kalla eigi til sérfræðinga frá Nýja-Sjálandi, sérfræðinga í einkavæðingu, niðurskurði og eyðileggingu á velferðarkerfinu? Hvernig eigi að fara að því að reka fólk? Það var talað í yfirlýsingu sem var lesin hér upp í þessum ræðustóli fyrr í kvöld um varanlegar sparnaðaraðgerðir. Og hvað er það? Það eru biðlaun. Væntanlega greidd til fólks sem hefur verið rekið. Eða ýtt út á gaddinn.

Menn ætlast til þess að þegar verið er að tala um fjárlög að þá hlusti hæstv. ráðherrar á það sem verið er að segja.

Tómas Helgason, yfirlæknir á geðdeild Landspítalans, segir í mjög afdráttarlausri yfirlýsingu sem hann birtir í opnu bréfi fyrir fáeinum dögum, með leyfi forseta:

,,Það er dýrt að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu. En það er miklu dýrara að gera það ekki. Slíkt leiðir til minni verðmætasköpunar vegna vinnutaps og meiri kostnaðar vegna örorku og ótímabærs dauða. Þó að beinn kostnaður vegna meðferðar geðsjúkdóma sé töluverður er hann ekki mikill í samanburði við hinn óbeina kostnað og þá þjáningu sem af þeim hlýst. Með viðeigandi meðferð á sjúkrahúsi og göngudeildum er hægt að draga verulega úr þessum óbeina kostnaði, stytta veikindatímabilin, draga úr örorku og koma í veg fyrir sjálfsvíg.``

Það er spurt hverjir hefðu helst haldið uppi andróðri gegn þeirri stefnu að skera og skerða í velferðarkerfinu. Ég er hér með stóran bunka af bréfum þar sem samtök eru að andæfa niðurskurðinum og það er einkennandi hve mikil óvissa hrjáir þessa hópa alla nú um stundir. Og reyndar er það umhugsunarefni út af fyrir sig að ríkisstjórn landsins skuli árlega skapa óvissu hjá öllum þeim hópum sem eiga erfitt með að verja sig, óvissu um hvað ríkisstjórnin ætli að gera á þeirra hlut þetta árið. Ætti það ekki að vera okkur öllum svolítið umhugsunarefni? Mér væri sama ef það væru hópar sem ættu eitthvað undir sér. En slíkir hópar stíga af hógværð og hæversku til jarðar núna á þessum dögum fyrir jólin. Öðru máli gegnir um þá sem eiga í erfiðleikum, ekki bara á þessum tíma árs, heldur alla daga allan ársins hring. Það er ekki að ástæðulausu að t.d. fatlaðir hafi áhyggjur. Þannig hafa þeir hjá Sjálfsbjörg, Landssambandi fatlaðra og Öryrkjabandalaginu verið að álykta um bílalán sem Tryggingastofnun hefur veitt öryrkjum. Í yfirlýsingu sem barst frá Öryrkjabandalagi Íslands ekki alls fyrir löngu er fjallað um afnám bílakaupalána til hreyfihamlaðra. Þar segir að þessi lán hafi verið hreyfihömluðum afar dýrmæt í þeirra ríku þörf fyrir að eignast bifreið. Ég er að lesa upp úr ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslands, með leyfi forseta:

,,Eins og tryggingaráði er best kunnugt er mikil ásókn í þessi lán. Þrátt fyrir hið margumrædda mikla lánaframboð á almennum markaði eru bílakaupalán Tryggingastofnunar ríkisins á svo miklu hagstæðari kjörum en almennt er, afgreiðsla þeirra öruggari fyrir rétthafa og fyrirkomulag afborgana einnig með ágætum fyrir lántakendur. Þörfin fyrir lánafyrirgreiðslu þessa er því alveg jafnótvíræð og verið hefur hvað sem líður misdýrum gylliboðum lánamarkaðarins. Enda vafasamt í raun að þau eigi við alla þá er Tryggingastofnun ríkisins hefur liðsinnt svo vel og gerir vonandi áfram.``

Öryrkjabandalagið mótmælir þeirri ráðstöfun að hætta við þessi lán. Svo ég vitni í erindi sem Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra sendir frá sér um sama efni er í þeirra plaggi skírskotað til stjórnmálaflokkanna og stjórnarflokkanna sérstaklega en hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Að lokum viljum við benda á að Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra skrifaði stjórnmálaflokkunum fyrir kosningar til Alþingis 8. apríl sl. og bar fram nokkrar spurningar sem snerta málefni fatlaðra. Í svari Sjálfstfl. segir að flokkurinn hafi alla tíð lagt mikla áherslu á málefni fatlaðra og að rétt sé að taka tillit til þess sérstaka kostnaðar sem einstaklingurinn hefur af fötlun sinni og koma til móts við þarfir hvers og eins. Í svari Framsfl. sem nú er við stjórnvölinn í tryggingaráðuneytinu segir: Fólk í fyrirrúmi. Atvinnuskapandi aðgerðir og tekjujöfnun eru markmið nýrrar forgangsröðunar í útgjöldum ríkisins. Leggja ber áherslu á jöfnuð og réttlæti og að ávinningi ríkissjóðs verði varið til lífskjarajöfnunar og eflingar velferðarþjónustunnar``.

Síðan er vikið mikið að þessum bílakaupalánum. Ég vildi aðeins nefna að þessi samtök hafa mjög miklar áhyggjur af breytingum á þessum hlutum. En það er ekki eingöngu þessir hópar sem hafa verið að andæfa. Það eru einnig Samtök aldraðra. Íslenskum ellilífeyrisþegum eða forsvarsmönnum þeirra hefur ekki orðið neitt sérstaklega svefnsamt nú á aðventunni. Í fyrsta lagi höfðu þeir áhyggjur af skerðingu ellilífeyris. Því var síðan bægt frá í bili, því eins og vikið var að hér fyrr og margir ræðumenn hafa sagt í ræðum sínum, er áformuð kerfisbreyting þar sem menn hyggjast aftengja ellilífeyri almennri launa- og verðlagsþróun.

En það er annað sem mig langaði til að vekja athygli á og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir vék að í máli sínu hér áðan. Nú stendur til að endurskoða fyrri ákvörðun stjórnvalda um að undanþiggja 15% af lífeyrisgreiðslum ellilífeyrisþega skattskyldu í ljósi þess að lífeyrisgjöld verða að fullu skattfrjáls á næstu árum. Nú stóð til upphaflega að gera þetta í tveimur áföngum. Fyrst 7,5% og síðan aftur 7,5%. En sú breyting varð gerð á að flýta afslættinum fyrir iðgjaldaprósentuna, flýta þeirri ákvörðun, og þá er ákveðið líka núna í tengslum við fjárlög að leggja þennan 15% skattafslátt lífeyrisþeganna af í einu vetfangi. Ég vil minna á það að þegar baráttan gegn tvísköttun lífeyris hófst hér fyrir alvöru voru það fyrst og fremst Samtök aldraðra, samtök aldraðra um allt land, sem börðust fyrir þessu. Síðan tóku verkalýðssamtök undir með þeim en þar komu fram ólíkar áherslur. Niðurstaðan ætlar að verða sú að aldraða fólkið verður af öllum kjarabótum sem það barðist fyrir með afnámi þessarar tvísköttunar, nema menn framkvæmi það sem vitnað er til í frv. til laga, þskj. 1, í skýringum með fjárlagafrv., en þar segir á bls. 271, með leyfi forseta:

[23:45]

,,Gert er ráð fyrir að fella þessa undanþágu niður í tveimur áföngum og kemur sá fyrri til framkvæmda um næstu áramót.``

En eins og ég segi er núna búið að ákveða að taka hana alla í einu. Hins vegar verður þeim fjármunum sem sparast við þessa breytingu varið til að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga. Þessu er lofað í þessari bók hér. Og nú spyr ég: Hvar er þessar hækkanir að finna? Það er mjög mikilvægt að grunnfjárhæðir lífeyristrygginga verði hækkaðar, að minnsta kosti sem nemur því sem sparast við þessar breytingar, eins og vikið var að í þingskjölum og í fjárlagafrv. þegar það var birt á sínum tíma.

Hverjir aðrir hafa verið að beita sér í vörninni fyrir velferðarsamfélagið? Það eru samtök launafólks. Þar gera menn sér grein fyrir að skerðing á velferðarþjónustu með tilheyrandi þjónustugjöldum veldur misrétti í þjóðfélaginu. Og nú spyr ég: Skyldi vera eitthvert samhengi á milli andófs launafólks annars vegar og þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að skera niður framlög til aðila á vinnumarkaði um 10 millj. kr.? Er það til að undirbúa og undirbyggja hagræðingarátak hæstv. fjmrh., sem sérstakur sjóður upp á 150 millj. hefur verið stofnaður um? Ég bara spyr. Það eru ekki miklir fjármunir sem samtök launafólks fá ár hvert af fjárlögum. Reyndar fá samtök atvinnurekenda einnig fjármuni, einnig stuðning. Samtök launafólks fá ekki mikla peninga miðað við þann fjölda sem býr að baki og það hlutverk sem þeim er ætlað að sinna. Í ræðum hér í dag hefur ítrekað verið vísað í álitsgerðir þessara samtaka en þær þarf allar að vinna. Og meira en það, þær þarf að ræða og undirbúa á fundum. Þetta eru lýðræðislega unnar álitsgerðir. Allt kostar þetta fjármuni sem ég vil meina að sé einfaldlega kostnaður við lýðræðið í landinu. Ef við ætlum að tryggja öflugt fjölþátta samfélag þurfum við kröftuga verkalýðshreyfingu. Því leyfi ég mér að mótmæla þessum niðurskurði og beini því til fjárln. og ríkisvalds að tillögurnar verði endurskoðaðar.

Um þetta flyt ég ekki breytingartillögu. Það geri ég hins vegar varðandi einn tiltekinn lið, geðheilbrigðisgeirann. Ég flyt tillögu um sérstakt viðbótarframlag á fjárlögum sem renni til geðdeildar Ríkisspítala og barnaspítala samkvæmt nánari ráðstöfun stjórnarnefnda spítala. Þörfin á framlagi til barnaspítala er afar brýn því allri aðstöðu fyrir börnin og foreldra þeirra er mjög ábótavant. Margoft hefur verið sýnt fram á að langvarandi sjúkdómslegur hjá litlum börnum eru þeim og fjölskyldum þeirra afar erfiðar og því nauðsynlegt að vel sé búið að þeim.

Ég hef kynnt mér geðheilbrigðismál nokkuð í sumar og haust og hef sannfærst um þörfina á því að auka fjármagn til þessa málaflokks. Víða er úrbóta þörf en þarna verður ekki undan því vikist. Það er staðreynd að vegna niðurskurðar á fjármagni til þessa málaflokks hefur þurft að vísa bráðveiku fólki frá. Slíkt er skelfilegt fyrir sjúklingana, jafnvel enn skelfilegra á stundum fyrir aðstandendur þeirra og fyrir samferðamenn þeirra á götum úti stundum beinlínis háskalegt. Rétt er að vekja sérstaka athygli á vanda barnageðdeilda og langar mig til að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu í haust, 10. okt. sl., en þar skrifar Valgerður Baldursdóttir, yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Barna- og unglingageðdeild Landspítalans er að mestu í sömu sporum og fyrir 25 árum ef frá er talin legudeild sem opnuð var fyrir unglinga árið 1987.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Enn þann dag í dag hafa ekki komið stöðugildi sem sérstaklega er ætlað að sinna göngudeildarvinnu, sem sýnir sig m.a. í því að við komumst ekki í snertingu við nema um tíunda hluta þeirra barna sem nágrannaþjóðir okkar telja nauðsynlegt að fái þjónustu á svona göngudeildum og hafa þó upp á að bjóða umfangsmeiri þjónustu við börn á öðrum sviðum.``

Síðar nefnir höfundur þjónustukreppu. Í þessu samhengi þar sem vísað er til þess að þörf sé á mannafla, á stöðugildum, á fólki, til að sinna geðsjúkum börnum var okkur sagt frá því hér fyrr í kvöld að hæstv. fjmrh. ætli að ráðast í varanlega hagræðingu, ,,hina endanlegu lausn``. Og hvað er það? Það er að leggja niður stöður, að leggja niður störf. Það er sérstakt framlag á fjárlögum til að reka fólk, biðlaunagreiðslur. Hin varanlega hagræðing hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar. En hér kemur hins vegar fram að það vantar fólk.

Í bréfi sem ég vitnaði í áðan, frá Tómasi Helgasyni prófessor, forstöðumanni geðdeildar Landspítalans, segir m.a.:

,,Á þessu ári sem nú er að líða þurfti að loka rúmlega 60% rúma móttökudeilda geðdeildarinnar í sex vikur vegna fjárskorts, þar á meðal barnageðdeildinni. Meðferðardeild fyrir fíknisjúklinga á Vífilsstöðum varð að loka alveg í september. Í hennar stað var opnuð dagdeild með miklu minni mannafla. Þótt aðsókn að dagdeildinni sé mjög mikil og þegar ljóst að hún getur ekki annað meðferðarþörfinni nema með meiri mannafla kemur hún ekki að fullu í stað þeirra deildar sem varð að loka.``

Síðar í yfirlýsingu Tómasar Helgasonar, prófessors og yfirlæknis á Ríkisspítölunum, segir orðrétt, með leyfi forseta, og ég ætla að gera þetta að lokaorðum mínum:

,,Það er léleg hagstjórn að koma í veg fyrir að þeir sem þurfa lækningu fái hana og það er ómannúðlegt að líkna ekki þeim sem á þurfa að halda. Það er heldur ekki stórmannlegt hjá einni ríkustu þjóð í heimi að láta sparnað bitna mest á þeim sem minnst mega sín og ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér.``