Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 10:54:41 (1968)

1995-12-15 10:54:41# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[10:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var kjarnmikil ræða hjá hv. þm., enda fyrrv. ráðherra. Mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar alþýðuflokksmenn tala um hagsmunapot og kjördæmapot. Ég veit ekki betur en að hver einasti maður sem ráðinn var í vinnu í einstök ráðuneyti eða til einstakra stofnana hafi fyrst og fremst verið ráðinn samkvæmt flokksskírteini á meðan Alþfl. stjórnaði landinu á síðasta kjörtímabili. Þar sem hv. þm. kom inn á landbúnaðarmál þá megum við ekki gleyma því að stór hluti þessarar þjóðar lifir á vinnslu landbúnaðarafurða. Í mínu kjördæmi er t.d. talað um að hvert og eitt bú skapi á að giska fjögur störf í þéttbýli. Ég vil halda vörð um þessi störf, bæði íslenskan landbúnað og vinnslu landbúnaðarafurða. Þetta er grundvallaratriði fyrir okkur. Hins vegar megum við gjarnan breyta í landbúnaðarkerfinu eins og ég kom inn á þegar ég talaði um stjórnkerfisbreytingu og annað slíkt. Við erum með allt of margar afurðastöðvar og kerfið okkar er of dýrt. En íslenskur landbúnaður verður að lifa vegna þess að við lifum m.a. á vinnslu landbúnaðarafurða, það sést ef við skoðum þéttbýlisstaði þessa lands, t.d. á Suðurlandi. Okkur ber að fara vel með peninga ríkisins, það er alveg ljóst. Eins og ég sagði áðan tel ég að við séum að treysta grundvöll þessa þjóðfélas með því að ná niður fjárlagahallanum.