Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:28:36 (1973)

1995-12-15 11:28:36# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:28]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að það sé enginn misskilningur uppi um tölur. Þó að það sé ekki kjarni þess máls sem við vorum að ræða hér er það nauðsynlegt engu að síður. Ég óskaði eftir upplýsingum frá Ríkisendurskoðun um muninn á niðurstöðutölum frumvarpa fjárlaga og síðan niðurstöðu ríkisreiknings á tilteknu árabili. Þær eru í þessari töflu og það er tekið fram, eins og ég gerði í ræðu minni, að um er að ræða afkomutölur á verðlagi hvers árs. Að því er varðar árið 1993 var frumvarpstalan 6,2 milljarðar, fjárlög 6 milljarðar 244 millj. og reikningsniðurstaðan á verðlagi þess árs 19 milljarðar 44 millj. kr. Fótnótan sem fylgdi þessu til skýringar var þessi: Á árinu 1989 var gerð breyting á reikningsskilaaðferð með ríkisreikningi þannig að gefnar eru tvær tölur frá þeim tíma, annars vegar með áföllnum skuldbindingum en hins vegar án áfallinna skuldbindinga. Minn skilningur var að eftir árið 1989, þ.e. frá og með árinu 1990, væri þetta með sömu reikningsskilaaðferð samkvæmt þessum upplýsingum. Sé það rangt þá hef ég misskilið það og biðst velvirðingar. En þetta er taflan og tölurnar eins og þær voru lagðar í mínar hendur af Ríkisendurskoðun.

Enginn var með neinn blekkingarleik í þessu tilefni vegna þess að tekið var fram að hér væri að sjálfsögðu um að ræða tölur á verðlagi viðkomandi árs.