Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:31:52 (1975)

1995-12-15 11:31:52# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:31]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeim kafla ræðu hv. 9. þm. Reykv. sem var ádrepa á það sem hann kallaði hvers konar tilfærslur og stuðningur við atvinnulífið í landinu, vék hann sérstaklega að sjómannaafslættinum sem hann kallaði niðurgreiðslur til sjávarútvegsins. Það fór ekkert á milli mála þegar maður hlýddi á ræðu hv. þm. að honum hugnaðist það alls ekki að verið væri að færa fé til atvinnulífsins í landinu og taldi eðlilegt að leggja það af. Hv. þm. sagði margoft í ræðu sinni áðan með velþóknun að menn ættu að segja það sem þeir meina og meina það sem þeir segja. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að hv. þm. svari því nú undanbragðalaust hvort hann sé með orðum sínum að leggja til að horfið sé frá þeirri áralöngu aðferð við skattheimtu í landinu að hafa svokallaðan sjómannaafslátt eða hvort hann telji að þessi tilfærsla sé eðlileg eftir allt saman.

Það sem er hins vegar mjög athyglisvert í því sem hv. þm. talaði um er að nú glittir í fyrsta skipti með beinum hætti í hina tíu ára gömlu hugmynd Alþfl. um auðlindaskatt. Ég reyndi hér í umræðu fyrr í haust að kreista það upp úr talsmönnum Alþfl. hvað þeir meintu með þessu, hvað ætti að leggja hér á mikla skatta en gat með engu móti fengið það út. Nú gerist það hins vegar við 2. umr. fjárlaga að Alþfl. leggur til að varpað sé 800 millj. kr. skattbyrði á sjávarútveginn í landinu án þess að til komi neinar hliðarráðstafanir til að mæta því sem þó átti að vera forsenda fyrir því að hægt væri að leggja slíkan skatt á. Þetta þýðir t.d. það að Ísafjörður á að borga 37 millj., Akranes 24 millj., Neskaupsstaður 16 millj., Siglufjörður 14 millj. og Vestfirðir í heild um 80 millj. Hins vegar vekur það mikla undrun að samtímis þessu sér maður ekki neitt frv. sem gerir það að verkum að hægt sé að innheimta þetta gjald. Ég spyr hv. 9. þm. Reykv. hvort ekki megi vænta þess að Alþfl. flytji nú frv. til laga til að tryggja það að hann geti lagt þessa 800 millj. kr. skattbyrði á íslenskan sjávarútveg og 80 millj. kr. skattbyrði á sjávarútveginn á Vestfjörðum.