Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 11:46:17 (1982)

1995-12-15 11:46:17# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[11:46]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir: Já, landbúnaðurinn er styrktur annars staðar, meira að segja í Evrópusambandinu. Þess vegna er ekki hægt að gagnrýna að hann er styrktur hjá okkur. Sá samanburður leiðir hins vegar í ljós að okkar styrkir til landbúnaðar eru um það bil tvöfaldir á við það sem gerist hjá Evrópusambandinu. Samanburðurinn innan OECD leiðir í ljós að hlutfallið er yfir 70% af þeim tekjum sem framleiðendur fá hér á landi en rúmlega 40%, 43%, innan Evrópusambandins.

Með öðrum orðum: Á þessu tvennu er reginmunur. Við vorum fyrir tveimur árum í efsta sæti í heiminum um stuðning á mann við landbúnað. Við höfum nú aðeins, m.a. fyrir atbeina okkar í fyrrv. ríkisstjórn, þokað þessum útgjöldum þannig niður, m.a. með afnámi útflutningsbóta, að við erum í þriðja eða fjórða hæsta sæti. (VS: Hver tók upp útflutningsbætur? Alþingi.) Það sem er athyglisvert í sambandi við útflutningsbætur, eftir að hafa varið 48 þús. millj. kr. í þær án nokkurs árangurs, að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, árið 1989, tókst að koma þeim fyrir kattarnef, koma þeim út, í samstarfi mínu við þáv. landbrh., Steingrím J. Sigfússon, í tilboði okkar til GATT.