Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:10:23 (1984)

1995-12-15 12:10:23# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:10]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ekki alveg ljóst hvort unnt er að flytja meðmæli undir liðnum andmæli. En ég ætlaði aðeins stuttlega að nota tækifærið til þess að segja að loksins erum við farin að ræða eitthvað sem máli skiptir. Það sætir tíðindum, það er rétt, ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni, að stjórnarandstöðuflokkarnir allir gefa sér það sem grundvallarreglu að þeir flytja tillögur við ríkisbúskapinn í jafnvægi. Þeir flytja tekjujöfnunartillögur til þess að standa undir breyttri forgangsröðun sinni í útgjaldatillögum. Það er grundvallaratriði. Það hefur yfirleitt ekki gerst og sér í lagi er það líka athyglisvert þegar það er gert með þeim hætti að stjórnarliðum er bent á að þeir gætu gert betur, bæði í sparnaði og einnig í því að auka réttlæti í tekjuöflun. Þetta er ánægjulegt og ég vil nota tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með það.

Að því er varðar eitt einstakt mál sem heitir veiðileyfagjald, þá verð ég að viðurkenna að ég skil ekki hvernig á því getur staðið að talsmaður Alþb., fyrrv. formaður þess og núv. formaður þingflokks, skilur ekki það mál. Alveg burt séð frá öllum hugmyndum sem uppi kunna að vera um fiskveiðistjórnunarmál, hélt ég að við hlytum að vera sammála um eftirfarandi: Fiskimiðin á Íslandi eru að lögum sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Í lögum er frá því gengið að jafnvel þótt breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnuninni, þá skuli ríkið, almennir skattgreiðendur, ekki vera skaðabótaskyldir af því. Það verður með einhverjum hætti að koma upp afnotaréttindakerfi og það hefur verið gert. Og svo lengi sem það er svo að almannavaldið í nafni almennings á Íslandi sem er eigandi auðlindarinnar úthlutar afnotaréttinum, er það gersamlega óverjandi siðferðilega, hagfræðilega, efnahagslega og alla vega að þetta skömmtunarkerfi sé þannig að einstökum aðilum sé samkvæmt pólitískum ákvörunum úthlutað þessum miklu fémætum upp á tugi milljarða kr. ókeypis. Það er bara óverjandi. Og forustumenn í flokkum sem kenna sig við jafnaðarstefnu hljóta að vera sammála um eftirfarandi grundvallaratriði: Sameiginleg auðlind, sameign þjóðarinnar, ef einkaaðilar eiga að hafa afnot af þeim þá greiði þeir fyrir gjald. Svo getum við deilt um það hvernig eigi að stjórna fiskveiðum að öðru leyti.