Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:24:57 (1990)

1995-12-15 12:24:57# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:24]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með 2. umr. um fjárlög fyrir árið 1996, ekki síst vinnubrögðunum sem hér hafa viðgengist. Þar á ég í fyrsta lagi við þann annmarka að fresta umræðu um brtt. meiri hlutans og úrlausnir hans í heilbrigðismálum til 3. umr. en eins og alþjóð veit ná heilbrigðismálin yfir u.þ.b. 40% af fjárlögum íslenska ríkisins.

Í öðru lagi vil ég gagnrýna hversu seint umræðan fer fram, en samkvæmt starfsáætlun þingsins átti hún að vera fyrir rúmlega viku. Þetta endurspeglar væntanlega bæði vandann í ríkisfjármálum og hversu erfiðlega ríkisstjórnarflokkunum gengur að koma sér saman um úrræði.

Þá átel ég vinnubrögðin sem koma fram í svokölluðu bandormsfrv. þar sem ráðgert er að breyta fjölmörgum lagabálkum varanlega vegna þess að ekki verður staðið við markaða tekjustofna í fjárlagafrv. fyrir árið 1996. Þó að ekki sé til fyrirmyndar að breyta lögum árlega með ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum eiga tillögur um varanlegar lagabreytingar að koma fram sem sérstök þingmál að mínu mati. En vinnubrögðin eru eitt og innihald fjárlagafrv. annað.

Ég ræddi almennt um álit mitt á þessu fjárlagafrv. við 1. umr. en vil nú víkja sérstaklega að breytingartillögunum sem fram hafa komið, einkum þeim er snerta þær nefndir sem ég er í, nefnilega menntmn. og allshn.

Ég vil byrja á að segja örfá orð um tillögur okkar kvennalistakvenna sem kynntar eru á þskj. 353. Þær hafa þegar verið rökstuddar ítarlega, einkum og sér í lagi af Kristínu Halldórsdóttur, fulltrúa okkar í fjárln., en einnig af Kristínu Ástgeirsdóttur. Því ætla ég að láta nægja að fara aðeins örfáum orðum um tillögurnar til þess að leggja áherslu á mikilvægi þeirra. Því miður er ekki algengt að brtt. stjórnarandstöðu við afgreiðslu fjárlaga nái fram að ganga. Í því ljósi leggjum við megináherslu á að leggja fram fáar en skýrar tillögur sem allar hafa þann tilgang að styrkja stöðu kvenna og stuðla að jafnstöðu kynjanna. Stjórnarandstaðan hafði samráð áður en brtt. við fjárlagafrv. voru lagðar fram og varð að ráði að hver flokkur legði fram sínar tillögur en að sjálfsögðu munum við styðja þær sem við teljum góðar hvaðan sem þær koma. Við ákváðum því að stilla okkar tillögum í hóf en munum styðja margar góðar tillögur frá öðrum stjórnarandstöðuflokkum.

Ef ég vík fyrst að tillögum okkar kvennalistakvenna eru þær í fyrsta lagi að auka fjárframlag til Námsgagnastofnunar um 10 millj. kr. Þar erum við einkum með í huga að gera Námsgagnastofnun kleift að gera átak í að koma kennslubókum í það horf að þær séu í samræmi við gildandi jafnréttislög. Við fluttum þáltill. um þetta málefni á sl. ári. Þá dró ég fram helstu rökin fyrir átaki af því tagi sem ég tel að þurfi. Námsgagnastofnun hefur sagt að hún hafi ekki nægilegt fjármagn til þess að standa undir slíku átaki og þess vegna teljum við mjög tímabært og mikilvægt að gengið verði í það.

[12:30]

Í öðru lagi leggjum við til framlag til UNIFEM, til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi þar sem fram hefur komið að framlag til kvenna í þróunarstarfi hefur gefið besta raun. Við teljum að þessi samtök séu að vinna mjög mikilvægt starf og þess vegna þurfi að koma til nýr liður á fjárlögum upp á 5 millj. með framlag til UNIFEM.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í þá mikilvægu tillögu sem við setjum fram um bætur til þolenda afbrota. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir, a.m.k. þrír hafa lagt fram tillögu um það mál. Hérna er um mjög mikilvægt réttlætismál að ræða og Alþingi til stórskammar eftir að hafa samþykkt einróma lög um þessi mál rétt fyrir kosningar í vor að ætla engum fjárveitingum til að framkvæma lögin í fjárlagafrv. Þó að stjórnarflokkarnir hafi eitthvað dregið í land með sínum breytingartillögum teljum við þar alls ekki nógu langt gengið og að ekki komi til greina að taka vonina frá því fólki sem átti von á bótum fyrir árið 1993.

Þá leggjum við til 30 millj. kr. í viðbót við liðinn sem kallaður er avinnumál kvenna en þar eru eingöngu ætlaðar 20 millj. Komið hefur í ljós að það átak í atvinnumálum kvenna sem af þessum lið hefur skapast hefur reynst vel og við teljum að það sé veruleg þörf á að styrkja atvinnumál kvenna betur því atvinnuleysi meðal þeirra er meira en hjá körlum.

Þá gerum við tillögu um nýjan lið, fræðslu um kynlíf og barneignir sem við höfum rökstutt ítarlega. Það er mjög mikilvægt að alþingismenn og þjóðin geri sér grein fyrir því að Ísland er að mörgu leyti eins og þróunarland þegar við lítum til tíðni getnaðar hjá ungum stúlkum. Tíðnin er mun hærri hér en í nágrannalöndum okkar flestum. Ég veit til þess að Svíar gerðu stórátak í fræðslumálum á þessu sviði og það hafði veruleg áhrif. Ég tel að með auknu fræðsluátaki getum við komið í veg fyrir ótímabærar þunganir. Þetta er mjög þarft mál því að sú fræðsla sem fyrir er bæði í skólakerfinu og í heilbrigðisgeiranum er ekki nægilega aðgengileg og góð.

Að síðustu leggjum við til á sérstökum lið 200 millj. kr. til þess að gera átak í að jafna launamun kynjanna. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það gífurlega vandamál sem launamunur kynjanna er. Við teljum að þetta sé alger forsenda þess að nokkrar líkur séu á því að jafnrétti kynjanna náist. Allir kannast við þá frægu skýrslu sem kom út rétt fyrir kosningar í vor þar sem kom fram að kynferðið eitt og sér skýrir um 17% af launamun í landinu. Í framhaldi af því lögðum við kvennalistakonur fram sérstaka þingsályktun til þess að gera átak í þessum málum. Ríkisstjórnin er með starfsmat í gangi og ætlar sér vonandi að vinna eitthvert átak í framhaldi af því og nú er nýkomin niðurstaða frá starfshópi fjmrn. þar sem misréttið kemur mjög skýrt fram. Og maður spyr sig: Til hvers er verið að gera svona úttektir, starfsmat eða kannanir í ráðuneytum ef ekki eiga að koma til ákveðnar aðgerðir í framhaldi af því? Þessi könnun í fjmrn. er mjög athyglisverð en þar kemur fram að svokallaðar sporslur eru um 30% meiri hjá körlum en konum ef um er að ræða háskólamenntað fólk en þær eru 100% meiri ef um er að ræða starfsfólk hjá BSRB. Það er einnig munur á grunnlaunum. Hjá háskólamenntuðu fólki er munur á grunnlaunum kvenna og karla um 7% en munurinn á grunnlaunum kvenna og karla í BSRB er aðeins minni, um 5%. Meginmunurinn er í sporslunum. Þetta höfum við reyndar vitað og þetta kemur mjög skýrt fram. Ég á við yfirvinnu, bílastyrki og fríðindi af ýmsu tagi. Við teljum því að ef einhver meining er á bak við þá vinnu sem átt hefur sér stað í sambandi við launamál kynjanna, þá verður að koma til fjármagn og það á að vera hægt að nota þennan lið á ýmsa vegu til að útrýma þessum mun eins og löngu er tímabært að gera.

Ég hef verið spurð að því hvers vegna Kvennalistinn leggi ekki fram tillögu um að tekin verði upp kennsla í kvennafræðum við Háskóla Íslands næsta haust, en það stendur til að gera ef 1 millj. kr. fjárveiting fæst. Því er til að svara að fjárveitingar til Háskóla Íslands eru ekki sundurliðaðar þar sem háskólinn vill sjálfur fá að ráða hvernig því fé sem varið er til kennslu og vísindadeilda er skipt. Þó að það séu vissulega vonbrigði að stjórnarflokkarnir virðast ekki ætla að leggja meira fé til háskólans en raun ber vitni er ég mjög vongóð um að skilningur sé á þessu máli innan háskólans eftir að rektor lýsti yfir stuðningi við þetta mál á sameiginlegum fundi stjórnenda háskólans og þigmanna úr menntmn. og fjárln. í síðasta mánuði. Einnig er ég vongóð vegna undirtekta í fjárln. þingsins. Við ákveðum að virða háskólann og það að hann vill ráða sínum málum sjálfur. Við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu styðja þær brtt. sem þegar liggja frammi og eiga hugsanlega eftir að koma fram um að leggja meira fjármagn til Háskóla Íslands, samanber t.d. þær sem eru á þskj. 356, bæði tillöguna um að auka fjármagn til kennslu og vísindadeilda upp á 130 millj. og til Rannsóknarnámssjóðs og Nýsköpunarsjóðs.

Það eru mikil vonbrigði að menntamálin skulu ekki fá þann forgang í þessum fjárlögum sem ætla mátti eftir ummæli nýskipaðs menntmrh. eftir kosningar. Háskóli Íslands er flaggskip íslenska menntakerfisins og þó að hann fái lítið eitt auknar fjárveitingar umfram verðhækkanir hefur hann verið í fjársvelti undanfarin ár miðað við fjölgun nema og viðfangsefna. Ég bind því miklar vonir við þær kerfisbreytingar sem fyrirhugaðar eru við útreikning á kostnaði náms í háskólanum þó að mér sé ekki nógu kunnugt um hvar það mál er statt núna. Ég á hér við svokallað reiknilíkan sem er verið að smíða til að fjárveitingar til skólans verði sambærilegar við það sem tíðkast í öðrum háskólum. Það mál hefur ekki enn komið inn á borð menntmn. þingsins eins og vissulega er ástæða til en vonandi gerist það með tíð og tíma.

Samkvæmt núverandi skipan fjárlaga til háskólans er það því endanlega á valdi fjárlaganefndar hans að ákveða hvernig fjárveitingum til skólans er varið, m.a. að ákveða hvort tekin verður upp kennsla í kvennafræðum næsta haust. Þetta nám hefur verið samþykkt í háskólaráði og í þeim deildum háskólans sem hlut eiga að máli, þ.e. í félagsvísindadeild og heimspekideild. Það ásamt góðum orðum rektors á áðurnefndum fundi með nefndum þingsins og góðum undirtektum í fjárln. gefur mér góðar vonir um að málið muni ná fram að ganga. Um er að ræða 1 millj. kr. Sú glæsilega ráðstefna sem haldin var um rannsóknir í kvennafræðum í Háskóla Íslands í lok októbermánaðar er gott dæmi um þá grósku sem er í þessum fræðum hér á landi. Auk þess er það löngu tímbært að háskólinn taki upp formlega kennslu á þessu sviði eins og tíðkast hefur í velflestum háskólum í öðrum löndum í um það bil 20 ár.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að tilmælum forseta og stytta mál mitt og láta vera að fjalla að nokkru ráði um þær breytingartillögur sem fyrir liggja á sviði menntmn. og við kvennalistakonur munum styðja. Ég vil þó nefna breytingartillögu meiri hlutans og minni hlutans um aukin framlög í Listskreytingasjóð og fagna þeim og fram komnum brtt. um að auka fé til Kvikmyndasjóðs miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrv. Eins og ég lagði áherslu á í umfjöllun minni um Kvikmyndasjóðinn við 1. umr. er ljóst að nú er mikið blómaskeið í íslenskri kvikmyndagerð. Það ber að virða og aðstoða t.d. með því að markaðssetja þær frábæru kvikmyndir sem framleiddar hafa verið að undanförnu. Framlag í Kvikmyndasjóð er framlag til menningarauka. Það er atvinnuskapandi og margfaldast við það að oftar en ekki koma til erlendir styrkir á móti sem ekki fást ef íslensk fjármögnun er dregin til baka.

Þó erfitt sé að ræða um framlög til heilbrigðiskerfisins í þessari umræðu þar sem breytingartillögur meiri hlutans koma ekki fram fyrr en við 3. umr. svo og nákvæmar tillögur meiri hlutans eða ríkisstjórnarinnar um vandann í heilbrigðiskerfinu, þá vil ég aðeins minna á utandagskrárumræðuna fyrr í vikunni um vímuefni, sjálfsvíg og ungt fólk. Ég vona að aukin fjárframlög verði til barnageðdeildar og til vímuefnavarna samanber fram komnar breytingartillögur um þau mál. Vímuefnavarnir tengjast einnig allshn. og dómsmrn. en þar á ég ekki síst við það að efla fíkniefnalögregluna og rannsóknir á því sviði.

Ég hef gert að umræðuefni nokkrar breytingartillögur sem við kvennalistakonur munum styðja, einkum á sviði menntmn. og allshn. en ég hef ekki rætt um það hvar við ætlum að fá tekjur á móti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að slíkar útgjaldatillögur séu óábyrgar nema fram komi hugmyndir um hvernig afla á tekna á móti.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, talsmaður okkar kvennalistakvenna í fjárln. gerði skýra grein fyrir því að okkar tillögur eru um mun lægri upphæðir en sú umsvifaaukning er sem fyrirséð er í þjóðfélaginu á næsta ári. Því teljum við að það sé vel fyrir þeim séð bara með þeim þætti, en að auki mætti nota umsvifaaukninguna til að minnka hallann á ríkissjóði. Þar að auki getum við kvennalistakonur tekið undir ýmsar breytingartillögur sem fram hafa komið um tekjuaukningu fyrir ríkissjóð og vil ég þar fyrst nefna fjármagnstekjuskatt og veiðileyfagjald svo að nokkuð sé nefnt. Ég fagna þeirri umræðu sem átti sér stað áðan um veiðileyfagjald og vona að hún sé merki um að það mál verði frekar rætt í þinginu og bendi hæstv. ríkisstjórn á að þar megi væntanlega fá töluverðan pening til að greiða niður vandann í heilbrigðiskerfinu.

[12:45]

Eins og fram kom hjá fyrri ræðumönnum þurfa Sjálfstfl. og Framsfl. að metta mjög marga sérhagsmunahópa. Þeir vilja frekar gera það en halda uppi almennilegu velferðarkerfi og eru nú á góðri leið með að rústa velferðarkerfinu en ég vona svo sannarlega að á þessu verði breyting þó það sé ekki fyrir séð í fjárlagafrv.