Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:48:42 (1992)

1995-12-15 12:48:42# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:48]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er engin spurning að það hefur náðst verulegur árangur í stjórn efnahagsmála á Íslandi á undanförnum árum og er það mikilvægt fyrir möguleika okkar að jafnvægi og framförum í framtíðinni. Það er ástæða til að þakka þeim sem hafa verið í forustu í þeim efnum, ekki síst fjmrh., fyrir markviss vinnubrögð og þeim sem hafa staðið að verki við hlið hans, bæði í ráðuneyti og hér þingmegin. En þess þarf ávallt að gæta að ekki sé blóðmjólkað og ekki sé skorið um of þannig að hlutir fari úr jafnvægi eða óraunsæi komi í ljós.

Horfurnar sem blasa við í þjóðarbúskapnum kalla á aðhaldssama efnahagsstjórn á næstu missirum til að koma í veg fyrir að þensla myndist og til að tryggja viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd. Þetta er sérstaklega mikilvægt á meðan framkvæmdir standa yfir vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Ef af frekari framkvæmdum verður á sviði stóriðju á næstunni er brýnt að svigrúm verði skapað fyrir þær með því að draga úr opinberum framkvæmdum eftir því sem kostur er til þess að ekki skapist of mikil þensla sem mundi leiða til verðbólgu sem engum yrði að gagni.

Í morgun var kynnt í fjárln. álit Þjóðhagsstofnunar, horfur fyrir árið 1996 og það eru gleðileg tíðindi að upphafsorð í þeirri kynningu voru þau að áætlanir um framleiðslu og útgjöld á næsta ári bentu til að nú væri bjartara fram undan í íslenskum efnahagsmálum en verið hefur um langt skeið. Þetta eru gleðileg tíðindi og er vonandi að fram gangi sem spáð er. Að öllu samanlögðu má ætla að horfur utan lands og innan gefi færi á 3,2% hagvexti á næsta ári. Þjóðartekjur eru taldar aukast meira eða um 3,7% vegna viðskiptakjarabata og þessi framgangur stafar bæði af horfum um lægri vexti á erlendum fjármagnsmarkaði og góðum skilyrðum fyrir útflutning.

Hvað þýðir 3,2% hagvöxtur? Hann þýðir raunverulega stöðu og raunverulega möguleika til þess að við getum hækkað laun, aukið stöðugleika og gert það þannig að launaaukningin sé raunhæf og komi öllum landsmönnum til góða. Til þess þarf 3--4% hagvöxt á hverju ári og þannig er mikilvægt að halda þeim árangri sem náðst hefur en það þýðir markvissa efnahagsstjórnun.

Hv. þm. Svavar Gestsson hafði orð á því í ræðu fyrr í morgun að Sjálfstfl. væri hagsmunahaugur sem þyrfti að sinna margs konar sérhagsmunum í þjóðfélaginu. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir tók undir þetta með því að segja að Sjálfstfl. og Framsfl. þyrftu að metta sérhagsmunahópa í þjóðfélaginu. Það er sérkennilegt að heyra þessa tvo gömlu samherja úr Alþb., hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, nú þingmann Kvennalista, fjalla um þessi mál á þennan hátt með þessari gömlu lummu úr sovétkrúttinu sem nú er hrunið. En auðvitað er Sjálfstfl., í því fylgi sem hann hefur, hvað raunsæjust spegilmynd þjóðfélagsins af vilja fólksins í landinu og ekki erum við í þessu landi að eltast mikið við stéttaágreining. (Gripið fram í: Vill þingmaðurinn endurtaka þetta.)

Það er ætlun mín að fara yfir nokkur atriði í umræðu um fjárlagafrv. sem ekki hefur verið mikið fjallað um. Menn hafa talað út og suður um stórt og smátt og það er auðvitað gott að tala um meginatriðin. Mig langar að fjalla um nokkur smærri atriði, ekki bara vegna þess að hið smæsta er næst guði heldur af því að það sýnir líka svolitla mynd af því hvað er um að vera hér og þar í stofnunum og fyrirtækjum samfélagsins. Það er til að mynda skemmtilegt að um þessar mundir skuli hús vera byggt upp á Vestfjörðum, á Hrafnseyri. Það er teiknað og unnið samkvæmt því húsi sem Jón Sigurðsson forseti bjó í. Þetta verður fallegt hús, það verður til vegsauka fyrir ekki bara Hrafnseyri heldur okkar þjóð og það er vel að slíku málefni sé lagt lið.

Það hefur verið lagt kapp á það af núverandi fjárln. í kjölfar fjárlagavinnu síðustu ára að styrkja rannsóknir og verkmenntun eins og komu fram í ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln. Það má nefna nokkur dæmi sem sýna hvernig þessum málum er lagt lið. Til að mynda er stutt við bakið á Kennaraháskóla Íslands varðandi rannsóknastarf, fjarkennslu og endurmenntun. Þessi þróun undanfarin ár hefur þýtt betri þjónustu í skólum landsins, ekki síst á landsbyggðinni þar sem í mörgum tilfellum er meiri skortur á betur menntuðu fólk en í mesta þéttbýlinu. Það má til að mynda benda á að stutt er við rannsóknastarfsemi í Háskóla Íslands og nýsköpun. Gott dæmi er Nýsköpunarsjóður sem stúdentar hafa lagt mikið kapp á. Nýsköpunarsjóður hefur skapað vinnu á rannsóknarsviði fyrir nemendur Háskóla Íslands undir leiðsögn og forsjá prófessora og fagmanna skólans. Allt hefur þetta skilað miklum og góðum árangri sem vert er að minnast á og sýnir að drifkraftur og bjartsýni ríkja í þessum málum þó að menn séu að keppast við að sníða stakkinn í efnahagsmálum eftir þeim vexti sem þjóðfélagið og fjáröflunarmöguleikar bjóða.

Það má nefna sem gott innlegg í menningarmál þjóðarinnar að framlag til húsafriðunarsjóðs er hækkað í þessum breytingartillögum. Þar er um að ræða það mikilvæga verkefni að sinna endurbyggingu og lagfæringu á gömlum húsum, húsum sem endurspegla sögu þjóðarinnar, reynslu og byggingarlist. Það er líka ánægjulegt að finna fyrir auknum áhuga fólks almennt á mikilvægi þess að sinna þessum þætti menningar þjóðarinnar. Það má minna á að Listskreytingasjóður hefur aftur komist af stað eftir nokkurt áfall og framlög til hans eru hækkuð um 4 millj. kr. Þessi sjóður hefur sinnt verkefnum víða um landið, verið hvatning fyrir listamenn sem í sívaxandi mæli eru að skapa sér sess í þjóðfélaginu með mikilli og góðri menntun og frjóu hugmyndaflugi og dugnaði. Við eigum auðvitað að nýta þessa reynslu og menntun. Það þarf ekki annað en líta til granna okkar og frænda í Danmörku sem hafa lagt mikið kapp á það að skapa myndlistarmönnum á hinum ýmsu sviðum vettvang til þess að njóta sín. Það hefur þýtt framleiðslu. Það hefur þýtt markaðssetningu. Það hefur þýtt viðskipti og fjármagn fyrir danska samfélagið í heild. Við eigum alveg sömu möguleika með því að hlúa að þessari grein í okkar samfélagi.

Það er lagt til að sjóvinnukennsla sé tekin upp í ríkari mæli en gert hefur verið og þá með kennslu eða þjálfun nemenda á sjó. Það er vel. Hörmuleg slys fyrir nokkrum árum drógu úr þessu verkefni og það er mikilvægt að taka það upp aftur. Við munum í náinni framtíð og kannski langt inn í framtíðina byggja á sjómennsku og sjósókn til að afla tekna fyrir okkar samfélag og velferðarkerfi. Og það er mikilvægt að allt er lýtur að sjómennsku verði á engan hátt hornreka í okkar samfélagi og menntunarkerfi en víða má bæta til mikilla muna í þeim efnum frá því sem nú er.

[13:00]

Þegar minnst er á sjómenn og öryggismál má minna á að í brtt. meiri hluta fjárln. er lagt til að ýmsar endurgreiðslur verði hækkaðar úr 35 millj. í 40 millj. Þar er um að ræða endurgreiðslur eða styrki til björgunarsveita landsins samsvarandi og nemur virðisauka af hinum ýmsu björgunartækjum hvort sem það eru snjóbílar, snjósleðar eða sigtæki til björgunarstarfa eða annarra þátta. Fjárln. hefur ákvarðað að sams konar styrkur verði einnig veittur sjómönnum vegna endurgreiðslu virðisauka af flotvinnugöllum. Það var ákveðið á sl. ári í fjárln. að innan þessa ramma skyldi það verkefni hýst. Því miður hefur sú nefnd er fjallar um sjóð þennan og skiptingu hans ekki tekið til greina ákvörðun Alþingis, að tillögu fjárln., að flotvinnugallaverkefni skyldu tekin þar inn en með því að nú er hnykkt á því vona ég að menn dragi ekki lappirnar þar lengur. Og ekki getur það verið baráttumál björgunarsveita landsins að hamla gegn því að hvatt sé til þess að sjómenn kaupi flotvinnugalla til öryggis við sitt starf á sjónum. Eins og kunnugt er er lögbundið að flotgallar séu í öllum skipum og eru þeir þá hluti af búnaði skipsins en flotvinnugalla verða sjómenn sjálfir að kaupa. Það er mikilvægt að stuðla að því að aukning verði í þeim efnum. Ég vona að það verði hnykkt á því enn frekar í umræðunni og við afgreiðslu fjárlaga við 3. umr.

Ýmis mál má nefna sem eru kannski ekki stórmál en eru skemmtileg og jákvæð. Hlúð er að hinum ýmsu samtökum listamanna og listgreina með styrkveitingum, t.d til Íslenska arkitektaskólans, til tónleikahalds um allt land og til uppbyggingar á opinberum mannvirkjum. Má þar nefna sérstaklega ,,þornin`` öll, þ.e. endurbyggingarsjóð opinberra bygginga. Þá er átt við Þjóðarbókhlöðu, Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn og Þjóðleikhús. Þarna eru mikil verkefni. Senn lýkur framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðu og þá standa ,,þornin`` þrjú eftir, Þjóðminjasafnið, Þjóðskjalasafnið og Þjóðleikhús en mikið fjármagn þarf til að ljúka brýnum aðgerðum svo þessar byggingar standi undir nafni og hægt sé að sinna þar verkefnum af þeirri reisn sem ber.

Það má nefna til að mynda að fjárln. leggur til að styrkja smíði víkingaskips sem einstaklingur er að byggja, Gunnar Marel Eggertsson sem kunnur varð af því að stýra víkingaskipinu Gaiu víða um höf þar sem því var siglt yfir 20 þúsund mílur og var eins konar merkisberi norrænnar menningar. Þetta er skemmtilegt verkefni og ég fullyrði að eins og þjóðin er stolt af því að eiga byggingu eins og Þjóðveldisbæinn sem er eftirmynd bæjarins sem stóð á Stöng í Þjórsárdal, þá mun þjóðin jafnframt verða stolt af því að um flóa og firði landsins muni sigla víkingaskip það sem nú er verið að ljúka smíði á, smíðað eftir Gauksstaðaskipinu fræga frá Noregi. Sérfræðingar allir, innlendir og erlendir, telja að þetta skip sem hér er verið að smíða sé það besta af öllum skipum sem verða smíðuð í þeim dúr og það er mín spá að það eigi eftir að verða þjóðargersemi og mikil hvatning því að allir þessir hlutir, hvort sem við erum að tala um gömul hús eða gamla þætti í menningu, færa okkur nær uppruna okkar og virðingu fyrir því sem við eigum að bera ábyrgð á, landinu og meðferð þess og þeim auðlindum sem það býður upp á.

Þetta eru nokkur atriði svona í smærri kantinum sem mér fannst ástæða til þess að nefna þó og vekja athygli á að það er víða komið að í þeim, ég vil segja, þúsundum atriða sem fjárln. þarf að fjalla um og þó að meginmarkmiðin séu það sem heitir niðurskurður þarf að taka tillit til annarra þátta sem horfa til heilla og framfara. Á því byggjast þessi vinnubrögð og eru sem betur fer að miklu leyti unnin í samstarfi og samvinnu allra sem koma að málum. Það getur alltaf komið upp einhver ágreiningur en samstaðan er ótrúlega mikil þegar á reynir.

Það eru ýmis atriði sem út af standa til 3. umr. Ég vil nefna Kvikmyndasjóð sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir kom inn á áðan. Það er mikilvægt að styrkja þann sjóð og að hann standi undir hlutverki sínu. Hann er lykill að erlendu fjármagni og þannig á að mínu mati að horfa til hans. Eitt stórt verkefni bíður t.d. lokaafgreiðslu 3. umr. fjárlaga. Það er flugmálaáætlun. Það slys má auðvitað ekki verða að flugmálaáætlun verði skorin niður eins og er á blaði í dag því það yrði meiri háttar slys í samgöngumálum og öryggismálum þjóðarinnar. Það vinnst kannski tími til þess að fjalla um það nánar á næstu dögum. Það er engin spurning að flugmálaáætlun sem á að vera um 400 millj. kr. á ári sem er ekki stór liður í heildardæminu, er stór liður í því öryggisneti sem flugvellir landsins eru. Reykjavíkurflugvöllur er móðurskip flugsamgangna Íslendinga. 300 þús. farþegar fara á ári um Reykjavíkurflugvöll. Hann er lykill landsbyggðarinnar að höfuðborginni og eitt stærsta fyrirtækið þar. Flugvöllurinn skapar gífurlega mikla atvinnu hvort sem það er á sviði þjónustu eða annarra þátta sem tengjast beinlínis fjölda farþeganna sem þar fara um. Það er auðvitað skylda höfuðborgarinnar að sinna þessum þætti. Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með því hvernig fulltrúar meiri hluta Reykjavíkurborgar hafa verið að agnúast út í Reykjavíkurflugvöll. Þeir hafa verið með hugmyndir um að leggja hann af, breyta þannig gersamlega samgöngumynstri þjóðarinnar og í rauninni ráðast á landsbyggðina sem þarf að hafa sem greiðastan aðgang að höfuðborg sinni og þeim stofnunum sem þar eru og hafa m.a. skapað sérstöðu og styrk Reykjavíkur umfram aðrar byggðir landsins.

Það er engin spurning að næsta verkefni sem liggur fyrir samkvæmt flugmálaáætlun er að byggja upp Reykjavíkurflugvöll sem er vægast sagt í lélegu ástandi og er svo komið að sumir reyndir flugmenn reyna að velja sér hluta af brautunum til þess að lenda á. Það segir söguna. Og menn eiga ekki að taka áhættu á því að stórt slys komi upp á Reykjavíkurflugvelli þegar um slíkt er að ræða. Þetta er ekki svo há upphæð sem skekkir myndina í heild en málið er þeim mun mikilvægara. Ég vona að menn taki þann pól í hæðina á næstu dögum að tryggja að flugmálaáætlun gangi fram. Flugmálaáætlun var skert um 30 millj. á síðasta ári. Hún átti að skerðast um 70 millj. en samkomulag náðist á síðustu stundu við gerð fjárlaga að draga úr skerðingunni og er í rauninni illt að vegið sé tvívegis í sama knérunn. Það hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra að vinna á þann hátt. Það er hægt, með því að flugmálaáætlun standi, að byggja Reykjavíkurflugvöll upp eins og þarf öryggis vegna á 2--3 árum þó að það sé greitt á 8--10 árum en þá væri það líka binding á flugmálaáætlun eins og hún er. Jafnframt þessu þarf að ljúka við ýmsa flugvelli landsins sem hafa verið í uppbyggingu á síðustu árum. Það vantar flugleiðslutæki margs konar, sem sagt öryggisbúnaðinn sjálfan, stjórnbúnaðinn sjálfan. Á næsta ári er áætlað að 130 millj. þurfi í það verkefni, á þar næsta ári 110 millj. og talsverðar upphæðir á árunum á eftir þannig að það er ekkert svigrúm á neinn hátt að vera að kroppa í flugmálaætlun, þessa lágu upphæð, í þessar mikilvægu samgöngur þjóðarinnar.