Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:35:17 (1994)

1995-12-15 13:35:17# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:35]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki hafði ég hugsað mér að gera athugasemdir við upplestur hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur úr forustugrein Tímans. Það er nauðsynlegt að koma því á framfæri. En ég vildi gera að umræðuefni í andsvari það sem hv. þm. sagði í fyrsta lagi um samstarf sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Hvergi hefur komið fram, svo ég hafi heyrt, að fallið sé frá hugmyndum um aukið samstarf sjúkrahúsanna á þessu svæði í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu og skynsamlegri rekstri en e.t.v. er núna. M.a. get ég vitnað til þess að í margumræddu samkomulagi sem hefur verið gert við forsvarsmenn sveitarfélaganna á Reykjanesi vegna D-álmu er gert ráð fyrir því að samstarf takist við Sjúkrahúsið í Keflavík til að ná betri árangri og styrkja stöðu þessara sjúkrastofnana í heild. Meginviðfangsefni okkar er auðvitað að reyna að koma á slíku samstarfi og bæta heilbrigðiskerfið.

Að öðru leyti vil ég vekja athygli á því að hér talaði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sem jafnframt er stjórnarnefndarmaður á Ríkisspítölunum. Nauðsynlegt er að benda á vegna þess að hún vakti athygli á biðlistum að það er á valdi yfirstjórnar Ríkisspítalanna að standa fyrir forgangsröðun. Komið hefur fram af hálfu stjórnenda Ríkisspítalanna, m.a. í viðtölum við fulltrúa fjárln. Alþingis, að bullandi ágreiningur er um verkaskiptinguna innan spítalanna. Það er náttúrlega nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á stjórn þessa mikla og mikilvæga fyrirtækis geri sér grein fyrir að um stefnuna sem þar hefur verið mörkuð virðist vera ágreiningur innan Ríkisspítalanna. Brýnt er fyrir okkur þingmenn að fá sem bestar upplýsingar frá spítölunum til þess að við getum metið stöðuna, ekki síst í ljósi annars ágætrar ræðu hv. þm., sem vakti athygli á vandanum sem vissulega er til staðar hjá þessum sjúkrastofnunum.