Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 13:40:13 (1996)

1995-12-15 13:40:13# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[13:40]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. virðist hafa misskilið það sem ég sagði. Ég geri ekki ráð fyrir því að stjórnarnefnd Ríkisspítalanna fari með einhver fagleg málefni á sviði heilbrigðismála innan Ríkisspítalakerfisins heldur fjalli um og beri ábyrgð á allsherjarrekstrinum. Ég ætlast satt að segja til þess, virðulegi forseti, að stjórnarnefnd Ríkisspítalanna fjalli um áætlanir sem fela í sér m.a. skiptingu þeirra fjármuna sem fjárlög gera ráð fyrir á milli einstakra deilda. Ef ég sæti í þessari ágætu stjórn mundi ég í það minnsta gera fyrirspurn um með hvaða hætti fjármunum er skipt og hvaða rök og forsendur lægju að baki skiptingunni. En um lengd biðlista getur að sjálfsögðu ekki verið fjallað hjá stjórnarnefndinni.

Hvað varðar Ríkisspítalana að öðru leyti eru verkefni þeirra mörkuð í lögum og stjórnarnefndinni falið tiltekið hlutverk sem er mjög mikilvægt. En ég tel að enga lagabreytingu þurfi til þess að sjúkrahúsin geti aukið samstarf sitt. Það þarf fyrst og fremst heilbrigða skynsemi, að skoða þessi mál. Þeir sem best þekkja til fara yfir hvernig þær sjúkrastofnanir sem mest álagið er á geta aukið samstarf sitt til að nýta bæði fjármuni, tæki og mannafla svo sem mestur og bestur árangur geti orðið. Þetta er eitt viðfangsefnið. Ekki þarf að breyta neinum lögum eða slengja saman stjórnum. Það þarf vilja til verksins en því miður virðist hann vanta hjá forustu þessara ágætu sjúkrastofnana.