Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:05:06 (2003)

1995-12-15 14:05:06# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:05]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki höfuðatriði hvort þetta er andsvar eða ræða. Tíminn er rúmur tími og engin þröng í ræðustólinn. En ég er með tvær litlar spurningar til frsm. um þetta efni. Sú fyrri er hvort nefndin hafi athugað hvort ekki væri rétt að útvíkka þessa heimild um að lækka eða fella niður þetta gjald, ekki aðeins miðað við tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega heldur almennt til tekjulágra og jafnframt til sjúks fólks. Menn geta orðið veikir um lengri eða skemmri tíma og ég spyr hvort nefndin hafi athugað hvort undir þeim kringumstæðum sé lagaheimild fyrir því að fella niður umrætt gjald.

Í öðru lagi langar mig að spyrja frsm. nefndarinnar að því hvort nefndin hafi athugað ákvæði laganna um holræsagjald út frá þeirri skilgreiningu að gjald er til að mæta kostnaði en ekki skattur og hvort afmörkunin á gjaldtökuheimildinni sé nægilega skýr. Á sínum tíma leit ég á þessa löggjöf, líklega í fyrra, þegar ég var að líta á gjaldtökuheimild fyrir ýmsum lögum og mig minnir að í gömlu vatnalögunum hafi þetta verið frekar óskýrt. En mig langaði að spyrja frsm. nefndarinnar að því hvort nefndin hafi athugað þetta efni og hvort það lægi þá fyrir með sæmilega afmörkuðum hætti hvað þetta gjald mætti vera hátt.