Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:07:21 (2004)

1995-12-15 14:07:21# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:07]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom er þetta má til komið vegna beiðni borgarráðs Reykjavíkur. Hér er fyrst og fremst verið að bregðast skjótt við ákveðinni beiðni sem tengist því að Reykjavíkurborg er eins og önnur sveitarfélög að vinna að sinni fjárhagsáætlun og vill fá að taka á þessu máli í tengslum við hana.

Nefndin fór ekki ofan í þau atriði sem hv. þm. spyr um, en eins og fram kom í máli hans er þar um að ræða tiltölulega gömul lög. Þau eru frá árinu 1923 og eru ákaflega merkileg að mínum dómi því að þau ná yfir svo ótrúlega vítt svið og sýna hvað menn hafa hugsað vítt á þeim tíma. En vissulega er ástæða til að skoða þessi lög nánar og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur á undanförnum árum og tengst hefur úrskurðum umboðsmanns Alþingis um hvað teljist gjöld, hvað teljist skattur og hvernig eigi að afmarka slík gjöld. Ég er vissulega reiðubúin til að skoða þetta mál en það væri kannski rétt að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh. hvort það standi fyrir dyrum að endurskoða þessi lög.