Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:17:27 (2010)

1995-12-15 14:17:27# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:17]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég hyggst taka hér til máls fyrst og fremst vegna athugasemda hv. þm. Kristins Gunnarssonar. Ég vil gefa þær skýringar sem ég sé fyrst og fremst og mér fannst reyndar að hluta til koma fram í svari formanns nefndarinnar, hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Málið kemur til hv. félmn. vegna beiðni Reykjavíkurborgar, það er alveg rétt. Borgin taldi sig skorta lagastoð til að gefa þennan afslátt sem hún taldi mikla þörf á. Það er hins vegar rétt að það komi fram og það kom fram í nefndarviðtölum við Samband sveitarfélaga. Það kom einnig fram hjá ýmsum sveitarstjórnarmönnum sem þekkja sveitarstjórnarmálin og eru í nefndinni að önnur sveitarfélög hafa praktíserað þennan afslátt lengi. Reykjavíkurborg hins vegar sækir um lagastoð til að fá að gera það. Þannig er málið komið til nefndarinnar. Við fengum umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um málið og sveitarfélögin telja að þau þurfi að fá lögunum breytt til að geta framkvæmt þau eins og þau telja eðlilegt. Þetta eru þeir hópar sem þeir telja að hafi mesta þörf fyrir afslátt. Það má náttúrlega alltaf deila um hversu langt Alþingi á að ganga í endurskoðun laga hverju sinni og í þessu tilviki leit ég svo á að það væri rétt að sveitarfélögin sjálf og sambönd þeirra mætu þörfina á því hvaða hópar þyrftu þennan afslátt. Í sjálfu sér má alltaf ganga lengra og það má vel vera að það væri eðlilegra að hafa heimildina opnari. En þau fara fram á að lögunum sé breytt í þessa átt. Við urðum við þeim óskum og mátum svo að sveitarfélögin sjálf gætu best metið hvaða hópar hefðu þörf fyrir afslátt.