Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 14:21:38 (2012)

1995-12-15 14:21:38# 120. lþ. 66.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[14:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan þakka hv. félmn. fyrir snöfurleg viðbrögð og afgreiðslu þessa frv. Það barst til mín sanngjörn ósk frá Reykjavíkurborg og þannig háttar til að flest sveitarfélög nema Reykjavíkurborg hafa um langan tíma innheimt holræsagjald og gefið á því afslátt í einstökum tilvikum. Þegar farið var að athuga þetta hjá Reykjavíkurborg fundu menn engan lagastaf fyrir því að það væri heimilt að undanþiggja örorkulífeyrisþega eða ellilífeyrisþega. Hins vegar er samkvæmt lögunum hægt að undanþiggja þessa hópa fasteignaskatti og þetta er bara til samræmis við fasteignaskattinn. Má ég biðja hv. 5. þm. Vestf. að hlusta. Þetta er gert til að samræmi sé í holræsagjaldinu og fasteignaskattinum, eða sömu undanþáguákvæðin. Ég vil ekki hætta mér út í að fara að fjalla um það af hverju sjúkir séu ekki með í þessu og af hverju heimildin nái ekki til þeirra sem eru tekjulágir. Þá getur maður lent í ógöngum með því að fara að velta því fyrir sér hversu mikið sjúkir menn eigi að vera til að eiga rétt á þessu eða hvar tekjumörkin eigi að liggja. Þarna geta menn lent í ógöngum. Það er auðvitað hægt að finna fyrir þessu einhver sanngirnissjónarmið en menn geta lent í ógöngum. Þeir sem eru mikið sjúkir og varanlega sjúkir fá væntanlega örorkubætur þegar fram líða stundir og þá kemur það ekki við þá.

Ég vil leggja áherslu á að hér er um að ræða samræmingu við fasteignaskattinn. Þessir hópar eiga möguleika á að fá felldan niður fasteignaskatt og það er eðlilegt að þeir eigi kost á að fá holræsagjaldið niðurfellt líka. Það er eðlilegt að festa í lög að þessi heimild sé fyrir hendi þannig að sú aðgerð sveitarstjórna styðjist við lög. En svo virðist ekki vera með þau sveitarfélög sem hafa verið að veita þessar undanþágur á umliðnum árum.

Önnur athugasemd sem kom frá hv. 5. þm. Vestf. var hvort hér væri um að ræða gjald fyrir þjónustu. Ég held að það geti ekki verið vafi á því að þetta sé gjald fyrir þjónustu. Að vísu ekki alltaf árlega þjónustu en hér í Reykjavík hefur stórfé verið varið til holræsaframkvæmda og í sumum bæjarfélögum öðrum. Það eru gífurlega kostnaðarsöm verkefni fram undan í fráveitumálum í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa nú þegar tekið á þeim. Þannig að hér hlýtur tvímælalaust að vera um að ræða gjald fyrir þjónustu en ekki skattheimtu í sameiginlegan sjóð.

Varðandi frekari endurskoðun á lögunum er ekki komin í gang nein vinna við það. Enda eru þau ekki alfarið á forræði félmrn.