Iðnlánasjóður

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 16:44:32 (2021)

1995-12-15 16:44:32# 120. lþ. 66.4 fundur 194. mál: #A Iðnlánasjóður# (tryggingalánadeild) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[16:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í greinargerð með þessu frv. kemur fram að útlit sé fyrir að á næstu missirum kunni að vera ráðist í nokkur stórverkefni á Íslandi sem innlendir aðilar eigi erfitt með að keppa um vegna þess að þeir geti ekki sett nauðsynlegar verktryggingar. Þess vegna sé mikilvægt að veita tryggingalánadeild þá heimild sem kveðið er á um í þessu frv.

Það kemur fram m.a. í umsögn um frv. þetta frá fjmrn. að fyrirhuguð stækkun álversins í Straumsvík er talin munu kosta um 13,5 milljarða kr. og ætla megi að allt að þriðjungur, eða 4,5 milljarðar kr., sé kostnaður sem gæti fallið í skaut innlendra aðila. Ég vil taka undir mikilvægi þessa máls að heimild sé fyrir hendi að tryggja verkábyrgðir, en ég tel ástæðu til að nefna það hér að það þurfi að huga vandlega að þeim tryggingum sem þarna eru á bak við vegna þess að ríkið ber einfalda ábyrgð á skuldbindingum Iðnlánasjóðs. Á fund nefndarinnar kom Tómas Sigurðsson frá Iðnlánasjóði og í máli hans, sem reyndar má sjá í greinargerð með þessu frv., er ljóst að skuldbindingar sjóðsins munu aukast talsvert með þessu ákvæði sem hér er lagt til að samþykkt verði.

Það kom einnig fram í nefndinni að eigið fé Iðnlánasjóðs er neikvætt og reyndar er það svo að Iðnlánasjóður skuldar ríkissjóði, að vísu ekki háa upphæð en engu að síður er eigið fé neikvætt. Ég tel því mjög mikilvægt, herra forseti, að það sem fram kemur í nefndaráliti iðnn. nái fram að ganga, en þar leggur nefndin áherslu á að trygging verkábyrgðar fari eftir almennum reglum sem settar verða af iðnrh. og fjmrh. sem staðfesta ákvarðanir stjórnar Iðnlánasjóðs um iðgjöld og tryggingarhlutverk. Það kom fram í máli formanns iðnn. að það eigi að koma fram í þessum reglum sem ég tel mjög mikilvægt. Það væri raunverulega brýnt að Iðnlánasjóður hefði baktryggingu eða endurtryggingu vegna þessa nýja flokks og mjög mikilvægt að þannig sé búið um hnútana af hæstv. ráðherrum að ekki sé hætta á því að ábyrgðir þessar geti fallið á ríkissjóð. Að því lúta mínar athugasemdir.

Ég bar það einnig fram í hv. iðnn. sem ég taldi ástæðu til að huga að, hvort það gæti komið til að samkeppnisráð gerði athugasemdir við þetta ákvæði í þá veru að það bryti í bága við samkeppnislög, en ekki fengust full svör við því í iðnn. Það er ljóst að skuldbindingar sjóðsins munu aukast verulega og þar með talin sú áhætta sem sjóðurinn tekur. Það er ástæða til þess að nefna það í þessu sambandi því það er ljóst að það er ekki síst verið að gera þessar breytingar á lögum Iðnlánasjóðs vegna þeirra miklu framkvæmda sem eru fyrirhugaðar vegna stækkunar álversins. Útboð sem hafa farið fram vegna framkvæmda við Ísal hafa verið langt undir áætlunum og hef ég heyrt þar tölur nefndar um 100 millj. kr. og það er alveg ljóst að það gæti líka leitt til þess að áhætta á sjóðinn ykist vegna þessa.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að lengja mál mitt. Ég styð þetta mál í trausti þess að svo verði búið um hnútana af hæstv. ráðherrum eins og hv. iðnn. kveður á um í sínu nefndaráliti.