Öryggi vöru og opinber markaðsgæsla

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 16:51:19 (2023)

1995-12-15 16:51:19# 120. lþ. 66.6 fundur 100. mál: #A öryggi vöru og opinber markaðsgæsla# frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[16:51]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum við frv. til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Frv. þetta er gamall kunningi í þinginu og hefur verið flutt allnokkrum sinnum en ekki náð svo langt að vera afgreitt úr nefnd fyrr en nú.

Efh.- og viðskn. hefur fjallað allmikið um þetta frv., sent það til helstu aðila til umsagnar og eins fengið til sín á fund fulltrúa viðskrn. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem nefndin leggur til.

Þá er fyrst brtt. varðandi 1. gr. frv. þar sem er tekið af skarið um það í 1. gr. að lögunum sé ekki ætlað taka til starfsemi þeirra aðila sem sérlög eða reglur gilda um. Jafnframt er lagt til að ákvæði IV. og V. kafla skuli einnig gilda þar sem ákvæði sérlaga eru ófullnægjandi eða ganga skemur en ákvæði þeirra kafla.

Næst er brtt. við 2. gr. sem orðast þannig að framleiðendur megi einungis markaðssetja örugga vöru, þetta er orðalagsbreyting.

Við 4. gr. frv. er einnig brtt. þannig að hún orðist svo sem þar segir, en þar er verið að endurskilgreina hugtök. Tillagan frá nefndinni er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Framleiðandi telst vera sá sem býr til fullunna vöru, býr til hluta vöru eða lætur af hendi hráefni, vinnur eða aflar afurða úr náttúrunni að því tilskildu að hann hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig telst framleiðandi vera sá er merkir framleiðsluvöruna með nafni sínu, vörumerki eða öðru kennimarki eða aðili sem endurgerir vöruna. Hafi framleiðandi vöru ekki staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu skal fulltrúi hans teljast framleiðandi. Hafi hvorki fulltrúi framleiðanda né framleiðandi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu skal innflytjandi teljast framleiðandi. Aðrir fagmenn í aðfangakeðjunni, að því leyti sem starfsemi þeirra snertir öryggiseiginleika framleiðsluvöru sem er markaðssett, teljast og til framleiðenda.``

Þetta skýrir mjög þann texta sem er í 4. gr. þar sem um er að ræða skilgreiningu á hugtökum.

Í 7. gr. er orðalagsbreyting. Við 8. gr. er sömuleiðis orðalagsbreyting. Við 10. gr. er nokkur efnisbreyting þar sem verið er að skilgreina valdsvið ráðherra til reglugerðarsetningar eins og varðandi lögin. Fyrst og fremst er við það miðað að heimildir ráðherra til reglugerðarsetningar takmarkist við staðla og venjur sem gilda um öryggi vöru á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Enn fremur er lagt til að síðari mgr. greinarinnar falli brott, enda er hún sama efnis.

Við 12. gr. er gerð smábreyting þar sem tekið er fram að framleiðendum og dreifingaraðilum skal skylt í sambandi við rannsókn máls að beiðni eftirlitsstjórnvalda að afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá er bjóða fram vörur þeirra. Hér er almennt séð við það miðað að þessir aðilar geti keyrt út úr bókhaldi sínu upplýsingar um hverjir hafa selt þeim vörur og hvert þeir hafa selt sínar vörur. Það er ekki við það miðað almennt séð að haldin sé sérstök skrá sem er eitthvað ofan á þær kröfur sem gilda í bókhaldslögum eða virðisaukaskattslögum um viðskipti aðila.

Síðan er smábreyting á 14. gr. sem er fyrst og fremst til skýringar. Við 15. gr. eru gerðar nokkrar breytingar, einkum til þess að skýra eða afmarka betur hlutverk samkvæmt greininni og þá fyrst og fremst að ákveða að í þessum lögum skuli ekki settar takmarkanir eða verið að ákveða hlutverk annarra eftirlitsstjórnvalda en Löggildingarstofunnar að öðru leyti en því sem nauðsynlegt er til þess að uppfylla kröfur nákvæmlega þessara laga.

Við 19. gr. er gerð ákveðin breyting fyrst og fremst til þess að tryggja að eftirlitsstjórnvöld fari eftir stjórnsýslulögum í sínum vinnubrögðum. Við 20. gr. er hnykkt á því hvernig málsmeðferð eftirlitsstjórnvalda skal vera. Við 24. gr. eru gerðar smábreytingar þar sem gert er ráð fyrir því að sýnataka geti ekki verið úr hófi. Síðan er einnig gert ráð fyrir því að framleiðandi geti annast tilkynningar í fjölmiðlum þannig að varnaðaráhrifum sé náð ef á þarf að halda. Lagt er til að 27. gr. falli brott. Hugmyndin með þessu er ekki sú að afnema allt sem heitir markaðsgæslugjald til eilífðarnóns, heldur að þetta gjald verði lagt á smám saman eftir því sem reynslan af eftirliti þessu gefur tilefni til og það verði fundið út á hvaða vörur slíkt gjald þarf að leggjast og hversu hátt það þarf að vera til þess að standa undir þeim kostnaði sem þessu eftirliti fylgir.

Samhliða því að nefndin leggur til að þessi grein verði felld út hefur verið skrifað bréf til fjárln. með ósk um að það verði lagðar 5 millj. til safnliðs hjá viðskrn. á fjárlögum á næsta ári til að hefja þessa starfsemi. Enn fremur hyggst meiri hluti efh.- og viðskn. flytja frv. til laga um breytingu á lögum um vog, mál og faggildingu þar sem kveðið er á um að yfir Löggildingarstofuna skuli vera sett stjórn.

Með þessum breytingum, hæstv. forseti, hygg ég að nefndin hafi gert margar bætur á frv. og tel að það sé rétt að afgreiða það nú sem lög frá hinu háa Alþingi og sjá til hvort við getum ekki komið þessum hlutum í gott horf eins og ástæða er til.