Öryggi vöru og opinber markaðsgæsla

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:06:13 (2026)

1995-12-15 17:06:13# 120. lþ. 66.6 fundur 100. mál: #A öryggi vöru og opinber markaðsgæsla# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel skylt að svara þessu gagnmerka andsvari hæstv. iðnrh. Það var út af fyrir sig virðingarvert af hæstv. ráðherra að viðurkenna að málið hefði mátt vera í vandaðri búningi þegar það kom hér inn. Ég tek það ekki upp til þess að ásaka einn eða neinn, en mér er alveg ljóst að það á sér vissar skýringar að mál af þessu tagi hafa oft tilhneigingu til að vera dálítið ótótleg þegar þau koma hér inn. Það er m.a. vegna þess að menn eru að burðast við að þýða þarna upp reglur, stundum býsna framandlegar fyrir okkur sem ekki hafa verið til í réttinum og jafnvel smíða þá um leið hgutök og búa til nýyrði sem er undir hælinn lagt að nokkur maður skilji. Og það mætti tína til dæmi um það eins og t.d. í fyrstu línu 1. gr. frv. en hún hljóðar svona í frv. áður en því verður þó vonandi breytt:

,,Lög þessi ná til vöru sem boðin er hér á landi í atvinnuskyni.`` Við áttum erfitt með að átta okkur á því hvað það þýddi að bjóða vöru í atvinnuskyni. Bjóða hana hvar? Svona er auðvitað ekki hægt að ganga frá hlutunum og fjölmörg dæmi af þessum toga mætti tína til upp úr frv. sem best er að sleppa hér. En þetta á þá bara fyrst og fremst að verða okkur öllum til áminningar í þeim efnum að vanda eftir því sem kostur er fráganginn á þessum málum og mér sýnist á köflum að það sé ekki um annað að ræða en að láta bara málfarsráðunauta eða aðra slíka aðila vinna jöfnum höndum með þeim sem eiga að leggja til faglegu þekkinguna og/eða eru að þýða svona hluti úr erlendum málum. Það er ekki vansalaust að stjórnvöld eða ráðuneyti standi fyrir því að leggja fram frumvörp á Alþingi sem eru ekki á boðlegu íslensku máli.