Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:09:01 (2027)

1995-12-15 17:09:01# 120. lþ. 66.9 fundur 205. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (breyting grunngjalda, áfengisinnflutningur o.fl.) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:09]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. lög nr. 1/1992 og lög nr. 50/1994.

Þetta frv. snýst ekki um miklar upphæðir en nefndin sendi það engu að síður til umsgnar þeirra aðila sem málið snertir og fékk á sinn fund fulltrúa úr fjmrn. Nefndin gerir nokkrar tillögur um breytingar.

Í fyrsta lagi gerir nefndin tillögu um að leyfi til vátryggingamiðlunar, verðbréfamiðlunar og fasteignasölu verði 50 þús. kr. Nefndin gerir enn fremur tillögu um að skráning hlutafélaga verði með þeim hætti að skráning einkahlutafélaga verði 75 þús., umskráning einkahlutafélaga í hlutafélag verði 75 þús. og að umskráning hlutafélags í einkahlutafélag verði 5 þús. kr.

Síðan eru gerðar tillögur um breytingar á skilgreiningu í 3. gr. um að brúttótonn verði nettótonn og enn fremur að það verði lækkun á þeim hluta gjalds sem farþegaskip greiða þannig að það verði fjórðungur en ekki helmingur. Enn fremur að það lagt verði á gjald vegna endurgerðrar myndbandsupptöku sem verði 1 þús. kr. Loks er tillaga um breytt kaflaheiti.

Enn fremur vill nefndin taka fram í sínu nefndaráliti að hún telur að stefna skuli að því að skráning fyrirtækja, sem er hluti nýsköpunar, eigi ekki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð. Leggur hún áherslu á að ráðherra kanni hvernig haga megi gjaldtöku fyrir þessa skráningu þannig að gjaldtakan standi undir eðlilegri og hagkvæmri starfsemi skráningaraðila og jafnframt að skráningar allra fyrirtækja verði á einum stað.

Með þessum breytingartillögum og með þessum skilaboðum í nefndaráliti leggur nefndin til að frv. verði samþykkt.