Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:23:33 (2030)

1995-12-15 17:23:33# 120. lþ. 66.9 fundur 205. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (breyting grunngjalda, áfengisinnflutningur o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir andsvarið eða öllu heldur meðmælin. Ég er að vísu ekki að öllu leyti sammála hv. þm. um að það gerist sárasjaldan að við séum sammála. Það gerist þó nokkuð oft að við séum sammála. Ég hygg að það sé kannski í og með vegna þess að þótt við séum af og til pólitískt ósammála, höfum við báðir tilhneigingu til, leyfi ég mér að segja þó að mér sé málið skylt, að reyna að taka, eins og það var orðað í afmælisgrein um hv. þm. Hjörleif Guttormsson, vitsmunalega afstöðu til hlutanna. Og þegar hlutirnir liggja þannig að þeir eru nokkuð raktir og einboðnir verðum við að sjálfsögðu af þeim sökum sammála, ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm. að við erum stundum verulega ósammála um ákveðin atriði í pólitík og það er bara eins og það er.

Ég fékk þær upplýsingar úti í þingsalnum, herra forseti, frá einum hv. þm. sem er vel að sér um þessi mál, að komur erlendra skemmtiferðaskipa að landinu hefðu verið 115 talsins á síðasta sumri. Þar af leiðandi voru viðkomur þeirra í höfnum þó nokkuð fleiri því mörg þeirra renna sér inn á fleiri en eina höfn. Það er t.d. þó nokkuð algengt að þau sigli með landinu og komi við bæði á Akureyri og í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Og þá geta menn rétt hugleitt hvers konar dellugjaldtaka í raun og veru er á ferðinni. Það er ekki skynsamlegt að hafa hlutina svona. Og ég held að hér sé rýr og óskynsamlegur skattstofn að gera miklu meira tjón en gagn og fæli frá viðskipti sem gæfu meira af sér í aðra hönd og skiluðu þegar upp væri staðið miklu meiri verðmætum inn í þjóðarbúið heldur en með því fæst að halda áfram þessari gjaldtöku.