Tryggingagjald

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:31:33 (2032)

1995-12-15 17:31:33# 120. lþ. 66.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál samhliða frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Sú breyting sem hér er lögð til er hluti af þeim skattkerfisbreytingum sem verið er að gera samhliða í tekju- og eignarskatti og enn fremur tengist þessi breyting þeirri ákvörðun sem tekin var í febrúar sl. þar sem heimilað var að launþegar gætu dregið frá tekjuskatti sinn hluta sem eru iðgjöld til lífeyrissjóða.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt. Það er tiltölulega einfalt og gengur út á að hækka þetta gjald yfir línuna um hálft prósentustig. Enn fremur er í frv. gerð sú formbreyting að hluti gjaldsins er eyrnamerktur Atvinnuleysistryggingasjóði, þ.e. 1,5% en afgangurinn rennur sem skattur til ríkissjóðs.