Tryggingagjald

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 17:45:39 (2035)

1995-12-15 17:45:39# 120. lþ. 66.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[17:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald. Það er til komið vegna breytinga á kjarasamningum og með þessu frv. er ríkisstjórnin að reyna að afla tekna til mótvægis við það sem kjarasamningar kosta. Það er reiknað með því að frv. skili um einum milljarði kr. í ríkissjóð. Enda felst breytingin sem hér er verið að leggja til í því að hækka tryggingagjald um 0,5% auk annarra breytinga og með þessari hækkun er jafnframt verið að breyta fyrirkomulagi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ríkisvaldið ætlar að draga sig til baka við fjármögnun á sjóðnum og ætlar atvinnulífinu að standa undir honum. Þetta mál hefur komið til umfjöllunar í efh.- og viðskn. og jafnframt í félmn. vegna þess að ákvæði sem snerta Atvinnuleysistryggingasjóð er einnig að finna í þeim langa og vonda bandormi sem er til meðferðar í nokkrum nefndum þingsins og fer brátt að koma til lokaafgreiðslu í efh.- og viðskn. Í báðum þessum nefndum hefur það komið fram að þessari hækkun er tekið afar illa af þeim sem látið hafa frá sér umsagnir um hana, hvort sem það eru Alþýðusambandið, BSRB, BHMR eða hin ýmsu samtök atvinnulífsins. Það leggjast allir gegn þessari hækkun. Ástæðurnar eru fyrst og fremst af tvennum toga þó fleiri ástæður liggi þar að baki.

Í fyrsta lagi þykir aðilum atvinnulífsins það ósanngjarnt að hækka tryggingagjaldið á þá og ætla atvinnulífinu einu að standa undir Atvinnuleysistryggingasjóði. Menn benda á að það væri nær að nota þá peninga sem til eru til að hækka laun. Ég ætla að koma nánar inn á þessar röksemdir. En það er einnig bent á það sem kom ekki síst fram í félmn., að Alþýðusambandið hefur reiknað út að þessi fjárveiting sem hér er gert ráð fyrir muni ekki duga. Því sé þessi leið hrein og klár ávísun á það að aftur verði komið til atvinnulífsins og gjaldið hækkað aftur. Það er mjög alvarlegt mál og hefði þurft að skoðast miklu betur hvort sú staða verður komin upp á seinni hluta næsta árs, eða ljóst verður fyrir fjárlagavinnuna fyrir 1997, að það verði enn að hækka gjaldið og peningarnir muni ekki duga. Mér finnst rétt að koma þessu á framfæri því fulltrúar Alþýðusambandsins, og reyndar BSRB líka, lýstu yfir miklum áhyggjum af þessu.

Ég er þeirrar skoðunar að atvinnulífið eigi að leggja sitt af mörkum til samneyslunnar í þjóðfélaginu, til velferðarþjónustunnar, því hún snertir atvinnulífið að miklu leyti. Eins og ég rakti í ræðu minni við fjárlögin í gær skiptir líðan fólks miklu máli fyrir atvinnulífið og hefur mikil áhrif á hið efnahagslega umhverfi, á framleiðni t.d. og því er það svo að í langflestum löndum og líklegast nánast alls staðar, leggur atvinnulífið sitt af mörkum til hinna sameiginlegu þarfa.

Ég ætla að rifja það upp í þessu samhengi að þegar ég átti þess kost að ferðast um Bandaríkin í fyrra fengum við einmitt að hitta fulltrúa í bandarísku byggingarfyrirtæki. Það var kona sem rekur stórt byggingarfyrirtæki í Los Angeles. Hún var félagi í samtökum sem kallast fyrirtæki með félagslega ábyrgð. Það eru fyrirtæki sem stuðla að því að bæta umhverfi sitt, styðja t.d. við unglingastarf, kvennaathvörf, reisa barnaheimili o.fl. í þeim dúr, vegna þess að þeim er ljóst að fyrirtæki þrífast ekki í óvinsamlegu eða erfiðu umhverfi. Þess vegna eru þau að leggja sitt af mörkum í því tilviki til síns nánasta umhverfis. En þau leggja auðvitað sitt líka af mörkum til síns ríkis og reyndar alríkisins. Ég er fylgjandi því að atvinnulífið leggi sitt af mörkum en mér finnst miklu eðlilegra að gera það í gegnum tekjuskatt og ganga út frá stöðu fyrirtækjanna þannig að þau borgi meira þegar vel gengur en sé hlíft þegar ver gengur. Tekju- og eignarskattar á fyrirtækjum hafa verið lækkaðir mjög verulega á undanförnum árum. En þar á móti eru menn að seilast í ýmsa aðra vasa.

Efh.- og viðskn. kallaði fjölda fulltrúa á sinn fund til að fara yfir þetta mál og það er mjög fróðlegt að glugga í athugasemdirnar sem komu frá þessum aðilum og ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins í þær. Það hefur enginn rakið þessar röksemdir í umræðunni en þær eru allar einróma. Þessari hækkun er mótmælt mjög harðlega. T.d. segir í samþykkt Landssambands íslenskra útvegsmanna:

,,Stjórnin samþykkti að mótmæla harðlega fyrirhugaðri hækkun á tryggingagjaldi um 0,5%. Frá því lögin um tryggingagjald tóku gildi í ársbyrjun 1991 hefur það tryggingagjald, sem lagt er á sjávarútveginn hækkað úr 2,5% í 3,63%, nái þessi hækkun fram að ganga eða um 45% á 5 árum.``

Við erum að tala um hækkun hér sem á að skila heilum milljarði. Það segir jafnframt í samþykkt LÍÚ: ,,Tryggingagjaldið er með sama hætti óheppilegur skattur að það tekur ekki tillit til afkomu atvinnulífsins ...`` Það er öllum gert að greiða hvernig sem á stendur. Síðan segir: ,,Þá er því mótmælt að ríkissjóður skuli ekki áfram greiða sinn hlut á móti því sem Atvinnuleysistryggingasjóður hafði í tekjur af tryggingagjaldi. Atvinnuleysi getur vart talist einkamál atvinnulífsins og því ætlað að standa einu undir útgjöldum sjóðsins.``

Sams konar rök koma fram hjá Samtökum fiskvinnslustöðva sem benda á að á þeim lendi 50 millj. kr. til viðbótar ef hækkunin nær fram að ganga meðan atvinnugreinin er rekin með tapi og fram undan eru launahækkanir og nýir kjarasamningar. Alþýðusamband Íslands benti á að nær væri að nota þessa peninga í að hækka launin og þeir benda á að hækkun á tryggingagjaldi virki til verðhækkunar á vöru og þjónustu með svipuðum hætti og hækkun virðisaukaskatts. Þeir benda einnig á að þessi hækkun auki hættuna á vaxandi launamun á almennum markaði annars vegar og hjá ríkinu hins vegar. Alþýðusambandið mótmælir þessari hækkun á tryggingagjaldi.

Það sama gildir um Verslunarráðið sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þekkir nú gjörla. Hann þarf að standa í því hér í þingsölum að mæla fyrir málum sem þau samtök sem hann vinnur hjá eru eindregið mótfallin og hlýtur það stundum að vera erfitt hlutskipti þó að þingmaðurinn taki því hetjulega. Verslunarráðið segir í sinni umsögn, með leyfi forseta:

,,Verslunarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með þau áform um hækkun tryggingagjalds, sem birtast í 2. gr. frumvarpsins, enda fela þau í sér að lagðar eru auknar álögur á atvinnulífið.`` Þeir benda einnig á það sem nokkuð var rætt á fundi efh.- og viðskn., að það eru í gildi tvö mismunandi stig á tryggingagjaldi og mörgum finnst óréttlátt hvernig sú skipting er.

Samtök iðnaðarins eru á sömu nótum og telja að með þessu gjaldi sé m.a. verið að koma í veg fyrir fjölgun starfa. Bið ég nú þingmenn stjórnarliðsins að hlusta vel eftir, sérstaklega framsóknarmenn sem hafa lofað því að fjölga störfum um 12.000 fram til aldamóta. Þessar aðgerðir eru ekki beinlínis til þess fallnar.

Bændasamtökin benda á það, og það verður að segjast eins og er, að þó að við höfum verið að gagnrýna samninga sem hafa verið gerðir við bændur, þá er nú ekki vansalaust hvernig komið hefur verið fram við þá. Tryggingagjaldið er einmitt dæmi um það. Bændum er gert að greiða tryggingar sem renna í Atvinnuleysistryggingasjóð en þeir hafa þar engin réttindi. Og þeir benda á að ekkert hefur gerst í þeim málum og segja: ,,Meðan svo er hljóta Bændasamtök Íslands að mótmæla fyrirhugaðri hækkun skattlagningar á landbúnaðinn til Atvinnuleysistryggingasjóðs.``

Loks, herra forseti, ætla ég að vitna í umsögn Vinnuveitendasambandsins og er þá allur skalinn kominn frá Alþýðusambandinu, Bændasamtökum, Samtökum iðnaðarins, Verslunarráðinu og yfir í Vinnuveitendasambandið og þetta eru nú engin smásamtök sem þarna eiga hlut að máli. Þetta eru hinir frægu aðilar vinnumarkaðarins og þeir sem oftast eru kallaðir til og mikið mark er tekið á. Þeir lýsa því yfir að hækkun tryggingagjaldsins gangi þvert á efnahagsmarkmið ríkisstjórnarinnar. Þeir rifja það upp að meðal markmiða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sé það að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir hagvöxt og einnig að tryggja stöðu og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreinanna. Og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þetta frumvarp er ekki í neinu samræmi við ofangreind markmið, þvert á móti. Það grefur undan stöðugleika í efnahagsmálum, dregur úr hagvexti og bitnar sérstaklega á rekstrarskilyrðum útflutningsgreina.

Flestum er ljóst að hækkun launatengdra gjalda dregur úr hagvexti og fjölgun starfa. Þannig hefur umræða um atvinnumál á alþjóðavettvangi síðustu misserin markast mjög af samstöðu allra helstu áhrifaafla um nauðsyn þess að lækka launatengd gjöld.``

Hér er verið að stefna í þveröfuga átt og þeir benda á að þessi skattahækkun leiði til 0,20--0,25% verðlagshækkunar og segja að lokum: ,,Vinnuveitendasambandið mælir því mjög eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps á Alþingi.``

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir því að þeir aðilar sem kallaðir voru til vegna þessa máls mótmæla gjaldinu harðlega. Ég hefði talið réttara að fara þá leið að hækka aftur tekjuskatt á fyrirtækjum ef menn vilja leita í þá sjóði, ekki síst vegna þess efnahagsbata sem greinilega er að koma í ljós, vegna þess m.a. að þá borga þeir sem betur standa. En með þessari leið er öllum gert að borga hvernig sem á stendur og það er einfaldlega ekki réttlátt. Eftir stendur, hæstv. forseti, og ég hlýt að beina þeim orðum til hv. form. efh.- og viðskiptanefndar, að við verðum að skoða betur að mínum dómi, milli 2. og 3. umræðu, hvort við erum með þessum breytingum, þ.e að draga ríkissjóð út úr Atvinnuleysistryggingasjóði og láta tryggingagjaldið koma þar á móti, að stefna inn í þá stöðu eins og fullyrt var af Alþýðusambandinu fyrst og fremst að þetta mundi ekki duga. Hvar stendur ríkissjóður ef þetta dugar ekki? Hvar stendur Atvinnuleysistryggingasjóður ef þetta dugar ekki? Ætlum við þá að hlaupa til einhverra aðgerða? Ég held að við þurfum að skoða þetta mál nánar og ég ítreka það sem reyndar kemur fram í því nefndaráliti sem ég hef lýst yfir stuðningi við að ég tel þetta ekki rétta leið og mun ekki greiða atkvæði með þessu frv.