Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 18:02:07 (2036)

1995-12-15 18:02:07# 120. lþ. 66.8 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[18:02]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum --- sem hafa verið allmargar og nánast árvissar, jafnvel ein og tvær á ári.

Hæstv. forseti. Ef við lítum á það frv. sem hér liggur fyrir, er þetta fyrst og fremst breyting sem felst í því að afnumin er svokölluð sjálfvirkni í uppfærslu upphæða. Í stað þess að miða við vísitölur innan árs og útreikning svokallaðrar skattvísitölu milli ára eru upphæðir ákveðnar beint í frv. sjálfu og í lögunum sjálfum. Þetta þýðir að ef framhald verður að Alþingi mun jafnan fyrir hver áramót þurfa að endurskoða upphæðir og breyta þeim beint eftir því sem þarf og eftir því sem menn vilja gera í hvert skipti.

Þegar nefndin fjallaði um frv. sendi hún það til umsagnar til hefðbundinna umsagnaraðila, fékk til sín umsagnir og auk þess var haldinn fundur þar sem umsagnaraðilar komu til fundar við nefndina og gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið að gera tillögur um breytingar á frv. Það eru fyrst og fremst tæknilegar breytingar og eins breytingar sem tengjast þeirri breytingu að afnema sjálfvirknina en ákveða upphæðirnar beint í lögunum sjálfum. Slíks eðlis eru breytingartillögur í liðum 1, 2 og 3 og síðan í lið 4. Þar er gerð brtt. sem er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um kjaramál frá 29. nóv. sem felast í því að frádráttur launþega vegna iðgjalda í lífeyrissjóði kemur hraðar til framkvæmda en gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Síðan er í lið 6 gert ráð fyrir því að bráðabirgðaákvæði V falli brott. Þar er verið að leggja niður svokallaða 15% reglu en hún fólst í því að vegna álagningar tekjuskatts var mönnum 70 ára og eldri heimilt að draga frá 15% af greiddum lífeyri úr lífeyrissjóðum. Þessi 15% regla er nú afnumin. Stendur það í samhengi við þá ákvörðun að heimila frádrátt vegna iðgjalds launþega í lífeyrissjóði og má segja að eftir að sú heimild er komin fram sé ekki með nokkru móti hægt að tala um að iðgjöld í lífeyrissjóði séu skattlögð tvisvar sinnum, bæði við inngreiðslu og úttekt.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem ég hef rakið.