Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 18:06:16 (2037)

1995-12-15 18:06:16# 120. lþ. 66.8 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., Frsm. 1. minni hluta JBH
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[18:06]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. ríkisstjórnarinnar um tekjuskatt og eignarskatt og breytingar á því. Ég vísa til afstöðu okkar þingmanna Alþfl. sem fram kemur í nál. á þskj. 391.

Efni þessa frv. er í aðalatriðum það að auka tekjur ríkissjóðs um 1,8 milljarða með hækkun tryggingagjalds eins og áður var rætt og frystingu persónuafsláttar. Í annan stað er gerð grein fyrir áformum um afnám sjálfvirkni eða sjálfvirkar tengingar skatta og bóta við verð- og launavísitölur auk þess sem kveðið er á um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda launafólks. Hér er enn fremur staðfest framlenging svokallaðs sérstaks tekjuskatts, í daglegu tali nefnt 5% hátekjuskattur, auk þess sem stigið er jákvætt skref til að draga ögn úr of háum jaðarsköttum með hækkun framlags til barnabótaauka um einar 500 millj. kr. sem réttir aðeins hlut barnafjölskyldna gagnvart jaðarsköttum.

Að því er varðar framlengingu hátekjuskattsins er um það eitt að segja að því var heitið á sínum tíma þegar hann var tekinn upp að hann skyldi standa a.m.k. svo lengi sem fjármagnstekjuskattur væri ekki innleiddur, en sem kunnugt er mun núv. ríkisstjórn ekki standa við yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar um það að hann skyldi lögleiddur nú um áramót.

Þessi tvö mál, breytingar á tekju- og eignarskatti eru auðvitað í nánum tengslum við það mál sem við ræddum áðan, um tryggingagjaldið. En það er einkum þrennt sem ber að vekja athygli á við afgreiðslu þess. Í fyrsta lagi eru það áformin um afnám sjálfvirkni í ríkisbúskapnum. Það mál hefur verið rætt við fjárlagaafgreiðsluna. Ég hef fyrir hönd okkar alþýðuflokksmanna lýst því yfir að við erum jákvæðir gagnvart því og teljum reyndar eðlilegt og nauðsynlegt að stíga skref í þá átt að afnema sjálfvirkni, sérstaklega að því er varðar markaða tekjustofna. En við drögum víglínuna nákvæmlega þar sem viðleitni stjórnarflokkanna er sú að höggva á tengsl milli annars vegar launa og atvinnuleysisbóta og hins vegar á milli launa og bóta lífeyristrygginga.

Við teljum að tengslin milli launa vinnumarkaðarins og bótagreiðslna, atvinnuleysisbóta og lífeyrisgreiðslna séu eðlileg og nauðsynleg og það vakir allt annað fyrir stjórnarflokkunum heldur en einhver umbótaviðleitni í ríkisfjármálum. Hins vegar erum við sammála því að það beri að rjúfa þessa sjálfvirkni, einkum og sér í lagi að því er varðar markaða tekjustofna sem margir hverjir velta á milljörðum króna. Ég nefni sem dæmi vegáætlun eða flugmálaáætlun og reyndar marga aðra lagabálka sem kveða á um markaða tekjustofna til einhverra tiltekinna framkvæmda eða þjónustuþátta. Það er ekki hægt að ná árangri í ríkisfjármálum ef útgjöld í veigamiklum útgjaldaflokkum af þessu tagi eru sett á sjálfvirkni alveg burt séð frá afkomu þjóðarbúsins. Þá kunna menn að spyrja: Já, en hvað með vinnumarkaðinn og bótagreiðslurnar? Það hefur komið á daginn, sérstaklega á undanförnum samdráttarárum, að það er miklu meiri sveigjanleiki á íslenskum vinnumarkaði og launamarkaði heldur en kannski í nokkru öðru þjóðfélagi á nálægum breiddargráðum. Það hefur gengið tiltölulega hratt fyrir sig að laga hlut launa að minnkandi þjóðartekjum. Það finna menn á pyngju sinni, það finna menn í þeirri staðreynd að launin á Íslandi hafa lækkað með lækkandi þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum. Það gagnrýniatriði að þau séu ósveigjanleg, þ.e. kveði á um sjálfvirkni útgjaldastigs, reynist því ekki rétt þegar nánar er skoðað.

Að því er varðar það tvennt sem hér er nefnt, jaðarskatta og fjármagnstekjuskatt, vil ég segja það að fyrir seinustu kosningar lýstu fulltrúar þáv. stjórnarflokka og reyndar stjórnarandstöðu því yfir að það væri komið út í hreinar ógöngur með tekjutengingu bótagreiðslna og skerðingar á bótagreiðslum í tengslum við tekjur. Afleiðingarnar væru þær að skattlagning á hverja viðbótarkrónu sem launþegar ynnu sér inn væri orðin allt of há, um að þóttust allir vera sammála. Eins og ég segi, hér er gert ráð fyrir að stíga skref í því að hækka barnabótaauka og það dregur úr jaðarsköttum. Við teljum hins vegar að þetta sé aðeins fyrsta skrefið. Kjósendur máttu ætla af málflutningi framjóðenda að þetta væri það vandamál sem þeir mundu einbeita sér að. Stjórnarflokkarnir hafa ekki staðið við það. Þeir hafa lýst því yfir að þeir munu fresta þessu máli í stórum dráttum, setja það í nefnd og það komi ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1997. Í tillögum sem nú liggja fyrir að því er varðar fjárlagaafgreiðslu höfum við alþýðuflokksmenn þess vegna sýnt ákveðna viðleitni til þess að ganga lengra í þessu efni, bæði með því að við viljum verja meiri peningum til þess að barnabótaaukinn verði ekki tekjutengdur með þessum hætti, þ.e. gegn láglaunafjölskyldum og einnig viljum við að sömu reglur verði teknar upp að því er varðar vaxtabætur. Hvort tveggja þetta á að verða til þess að draga úr jaðarsköttunum og þar með að forða því að þeir tekjuhópar sem verða einna verst fyrir barðinu á þessu upplifi það sem vinnuletjandi og ranglátt kerfi.

Að því er varðar skatt á fjármagnstekjur er það staðreynd að núv. stjórnarflokkar lýsa því yfir í orði kveðnu að þeir stefni að því að taka hann upp. Það er mikill ágreiningur um útfærslu en allt bendir til þess að þeir muni ekki koma því í verk að framkvæma þetta á næsta ári.

Að því er varðar síðan þær tillögur sem hér er gert ráð fyrir, þ.e. að framtaldar fjármagnstekjur að ákveðnum hundraðshluta skerði bótagreiðslur, er það svo að þetta á að byggja á því að þær tekjur eru framtalsskyldar þótt þær séu ekki skattskyldar. Grundvallarspurningin sem menn standa þarna frammi fyrir er einfaldlega sú hvort þetta verði framkvæmanlegt í ljósi þess að fjármagnstekjur hafa af langri hefð aldrei verið framtaldar.

Í nefndaráliti okkar um þetta mál segir: ,,Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að fyrirhugað sé að taka upp fjármagnstekjuskatt á næsta ári. Alþýðuflokkurinn hefur lengi barist fyrir því að koma á fjármagnstekjuskatti sem réttlætismáli. Það var þó ekki fyrr en í tengslum við ráðstafanir sem gerðar voru í desembermánuði sl. að tókst að fá sjálfstæðismenn til að samþykkja yfirlýsingu sem var bindandi og ótvíræð um að lög þess eðlis skyldu samþykkt á því þingi sem nú situr.``

Það er athyglisvert að hinn stjórnarflokkurinn tregðaðist við og sinnti lengi vel ekki beiðni um að tilnefna mann í nefnd. Hann gerði það að vísu seint og um síðir en niðurstaðan er sú af hálfu stjórnarflokkanna að þeir hafa ekki staðið við það loforð sem gefið var af fyrrv. ríkisstjórn um að fjármagnstekjuskattur skuli koma til framkvæmda á næsta ári og er það mál reyndar í fullkominni óvissu.