Tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 18:38:05 (2041)

1995-12-15 18:38:05# 120. lþ. 66.8 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[18:38]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að taka fram í upphafi ræðu minnar að ég geri engar athugasemdir við hvernig hæstv. forseti stjórnar fundi. Sá sem situr nú í forsetastól gegnir því starfi með sóma. En ég get ekki komist hjá því að vekja athygli hæstv. forseta á því sem blasir við augum hv. þingmanna í salnum. Allir tíu ráðherrastólar ríkisstjórnarinnar eru auðir. Við höfum verið að ræða um mál sem talsverður ágreiningur er um og varðar a.m.k. þrjá ráðherra. Enginn þeirra, virðulegi forseti, hefur verið viðstaddur þessa umræðu, sem samt er ætlast til að stjórnarandstaðan ljúki á skömmum tíma. Hæstv. forsrh. sést ekki í salnum lengur nema í mýflugumynd. Hæstv. fjmrh. hefur ekki verið viðstaddur umræðuna, sem þó varðar mál sem er á hans forræði. Þarna eru mjög viðkvæm mál sem snerta heilbrigðismál og félagsmál. Hæstv. félmrh. er nú fyrst að ganga í salinn og enginn þeirra fjögurra heilbrigðisráðherra sem almannarómur segir að sitji í ríkisstjórn hefur verið viðstaddur umræðuna.

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta sé ekki boðlegt, að hafa umræður um mál af þessu tagi án þess að nokkur sá ráðherra sem kemur að málinu sé viðstaddur. Ég hafði hugsað mér að leggja fram spurningar til hæstv. fjmrh. varðandi mál sem var fyrr á dagskrá, um hvaða afstöðu hann hefði til þess að búið er að kæra mismunun í tryggingagjaldi til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þar liggur fyrir sú kæra til afgreiðslu og hæstv. fjmrh. ætlar ekki, fremur en í öðrum slíkum málum, að bregðast við með því að leiðrétta augljósan mismun sem er í skattlagningu atvinnufyrirtækja af þessu tagi. En hæstv. ráðherra hefur ekki verið við og því ekki getað svarað neinum spurningum. Ég mótmæli því, virðulegi forseti, og fer þess á leit við forseta að hann sjái til þess framvegis, ekki síst þegar tími er skammur, að ráðherrar sem málið varðar sjái sóma sinn í því að sitja í stólum sínum við háborðið á meðan umræður fara fram. Ég sé að vísu og það gleður mig að einn hæstv. heilbrrh. í ríkisstjórninni er kominn en ég hef ekki tíma til að leggja fyrir hann þær spurningar sem eðlilegt væri.