Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 11:11:00 (2051)

1995-12-16 11:11:00# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[11:11]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég mun gera athugasemdir við nokkur orð sem fram komu hjá hv. frsm. meiri hlutans hér áðan þegar þar að kemur í greinargerðinni sem ég mun nú flytja.

Ég vil einnig láta koma fram að snúningspunkturinn í máli mínu eru tillögur sem ég flyt á þskj. 382 og snerta umhverfismál, atvinnulíf og orku- og stóriðjumál. Ég mun gera nánari grein fyrir því máli síðar. Ég tel mikilvægt ef hægt er á þessu stigi að fá upplýsingar frá hæstv. ríkisstjórn um það hvaða skoðun hún eða þeir sem fyrir hana tala hafa á nálguninni sem birtist í tillögum sem hér eru fluttar um ákvæði til bráðabirgða. Ég hefði gjarnan kosið að hv. talsmaður meiri hlutans hefði farið nokkrum orðum um það en úr því að hann gerði það ekki þá bíð ég spenntur eftir því að heyra hvað hæstv. ráðherra segir um málið.

Þá vil ég einnig víkja að einu mikilvægu atriði í sambandi við þetta mál sem mikið hefur verið talað um. Það er þessi svokallaða leynd um orkuverið. Eins og fram hefur komið samþykkti stjórn Landsvirkjunar á sínum tíma að óska eftir því að farið yrði með tiltekin atriði varðandi orkuverðið sem trúnaðarmál. Fyrir því eru viðskiptaleg rök sem eru í sjálfu sér öll gild að mínu mati. Ég vil hins vegar, vegna þeirra orða sem hér hafa fallið og þess m.a. hvernig hæstv. iðnrh. svaraði í fyrirspurnatíma í vikunni, láta það koma fram að ég átti þess ekki kost að vera á fundi stjórnar Landsvirkjunar sem tók ákvörðun um þessa leynd. Mér finnst það allt í lagi og hef ekki reynt að bera mig upp undan því en hæstv. iðnrh. átti bersýnilega við með orðum sínum að sem stjórnarmaður bæri ég ábyrgð á þessari leynd. Hann hefur a.m.k. aldrei látið svo lítið að segja frá því sem hann þó vissi að ég var ekki á þessum fundi stjórnarinnar. Mér hefði satt að segja fundist það heiðarlegt að segja frá því, án þess að ég sé að kvarta undan því að vera bendlaður við niðurstöður stjórnar Landsvirkjunar, sem ég get út af fyrir sig algjörlega tekið ábyrgð á. Á fundinum sat fyrir mig í stjórn Landsvirkjunar varamaður minn, sem er flokksmaður í Þjóðvaka. En eins og kunnugt er eiga stjórnarandstöðuflokkarnir ekki alltaf bæði aðalmann og varamann heldur kemur oft fyrir að varamaður er úr öðrum flokki en aðalmaðurinn. Ég endurtek að ég er ekkert að bera mig upp undan því að bera ábyrgð á niðurstöðum stjórnar Landsvirkjunar. Ég vil bara að það komi fram að málið liggur svona og þar með hafa fulltrúar allra flokka beint eða óbeint komið með einhverjum hætti að málinu.

Ég verð hins vegar að segja að ég tel að það hefði verið heppilegra ef meiri hluti iðnn. Alþingis eða nefndin öll hefði sjálf tekið þessa ákvörðun frekar en stjórn Landsvirkjunar eins og hún gerði það á sínum tíma. Ég tel að málið liggi þannig og þetta hafi skapað óþarfa tortryggni og erfiðleika. Ég hef sem stjórnarmaður í Landsvirkjun sett mér að fara ekki með þessa hluti á opinberan vettvang og mun ekki gera það. Ég tel engu að síður að þarna hafi verið sköpuð aðstaða til þess að menn hafi orðið tortryggnari umfram það sem nokkur ástæða var til. Og ég endurtek það sem ég hef reyndar sagt áður um þetta að ég vildi frekar halda á þessu máli ef leyndin væri ekki, vegna þess að ég tel satt að segja raforkuverðið það gott og niðurstöðuna það góða miðað við allar aðstæður að það væri auðveldara fyrir mig að halda á þessu máli ef þessi leyndarhjúpur hefði ekki verið lagður á málið. En það er veruleikinn sem ég horfist í augu við og hann er svona.

[11:15]

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti á þskj. 381 segir m.a.:

,,Minni hlutinn telur að orkusamningurinn sé ásættanlegur miðað við aðstæður. Verðið stendur að öllum líkindum undir kostnaði fyrirtækisins og er ekki lægra en svo að unnt á að vera að knýja fram öruggt kostnaðarverð í næsta áfanga virkjana ef ákveðnar verða á næstunni. Verðið er vissulega lægra en æskilegt væri en taka verður tillit til þess að verulegt orkumagn er ónýtt í orkukerfi landsmanna.``

Varðandi þetta atriði vildi ég skýra það aðeins nánar og segja að það verð, sem að öllum líkindum fæst fyrir orkuna samkvæmt þessum samningi um orku til stækkunarinnar, er ríflega framleiðslukostnaðarverð eða flýtikostnaðarverð á orkunni. Það liggur alveg fyrir. Það er ríflega það. Það sem hins vegar bætist við og gerir þennan samning kannski afbrigðilegan er svo að það orkuverð sem tekur gildi þegar afsláttartímabilinu lýkur nær einnig til gamla samningsins, til álverðsins eins og það er nú. Þar af leiðandi er þarna um talsverðan fjárhagslegan ávinning að ræða að bestu manna yfirsýn eða um 8 milljarða kr. núvirta eins og fram hefur komið og kom rækilega fram við 1. umr. málsins.

Það sem átt er við í síðari hluta setningarinnar þar sem segir: ,,... og er ekki lægra en svo að unnt á að vera að knýja fram öruggt kostnaðarverð í næsta áfanga ...`` er ósköp einfaldlega þetta: Þær orkuframkvæmdir sem lagt verður í í tilefni af stækkuninni eru við mjög ódýra orkuöflunarkosti, mjög hagstæða og ódýra orkuöflunrkosti og það er alveg hárrétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur mjög oft sagt að það er verið að fleyta rjómann ofan af orkukostum landsmanna fyrir þessa stækkun, það er alveg ljóst. Þess vegna er það líka ljóst að í næstu lotu, ef til þess kemur að menn þurfa að fara í framkvæmdir vegna stóriðju, verður um það að ræða að menn verða að fara í sérstakar framkvæmdir, jafnvel nýjar virkjarnir og það er augljóst mál að þar verður kostnaðurinn á kwst. mun hærri en hann er í þessum kostum sem hér eru á ferðinni. Hverjir þeir eru er misjafnt eftir aðstæðum. Hins vegar hefur það komið fram á opinberum vettvangi að í þeim nýju virkjunum sem hugsanlega þarf að ráðast í síðar, virkjunum eins og t.d. Vatnsfellsvirkjun, eru menn að tala um framleiðslukostnað sem er um eða yfir 20 mill á kwst. Þar er því um að ræða augljósan framleiðslukostnað sem er flóknara að glíma við í samningum um ný iðjuver en nú er. En ég tel og segi í þessu áliti að sú niðurstaða sem nú liggur fyrir útilokar ekki að að hægt sé að ná slíkum samningum um framleiðslukostnaðarverð fyrir orku til nýrra stóriðjufyrirtækja ef menn af öðrum ástæðum vilja fara í þau. Og ég tel að það sé mikilvægt atriði.

Ég vil einnig láta það koma fram, hæstv. forseti, í þessu samhengi að það hefur að sjálfsögðu ekki verið tekin nein ákvörðun svo mér sé kunnugt um hvaða orkuöflun á að nota næst ef þörf krefur. Ákvörðun um það liggur ekki fyrir og ég vil byrja á því að leggja þá spurningu fyrsta fyrir hæstv. iðnrh.: Liggur slík ákvörðun fyrir hvernig orku verður aflað til næstu skrefa í stóriðju ef út í það færi? Ég geri ráð fyrir því að það séu ýmsar hugmyndir uppi og reyndar veit ég að það eru margar hugmyndir uppi. En ákvörðun í þessum efnum, í einstökum atriðum, kannast ég ekki við að sé til. Mér finnst mikilvægt að því sé slegið föstu á þessu stigi málsins. Hitt er hins vegar ljóst að miðað við undirbúning, verkfræðilega vinnu og annað sem unnið hefur verið á vegum Landsvirkjunar og fleiri aðila, eru hugmyndir uppi um það hvað er best að fara í. En það eru engar ákvarðanir til í þeim efnum.

Í annan stað varðandi þessa samninga vil ég láta koma fram að ég tel að skattasamningurinn eins og hann liggur fyrir sé spor í rétta átt. Hann er spor í rétta átt fyrst og fremst vegna þess að hann er færður nær íslenskum skattalögum og líkist þannig þeim samningsdrögum sem lágu fyrir í næstsíðustu ríkisstjórn þegar fram fóru viðræður við Atlantsálshópinn um hugsanlegt álver á Keilisnesi. Ég tel reyndar að það væri langeðlilegast að það væru engin sérstök skattaákvæði í samningum um fyrirtæki af þessu tagi heldur lytu þau í einu og öllu íslenskum skattalögum og auðvitað íslenskum lögum yfirleitt. Ég tel að samningurinn sé ásættanlegur hvað varðar skattana og mér sýnist að fjárhagslega, eftir því sem ég hef vit á að mæla það, komi það alveg þokkalega út. Ég verð að segja að mér finnst það eina sem orkar tvímælis eða er breyting vera þeir skattar sem renna á næsta ári og þarnæsta ári samkvæmt samningsdrögunum, til Hafnarfjarðarbæjar. Það er greinilega verið að gera ansi vel við Hafnarfjörð en það er verið að gera það með þeim rökum að Hafnarfjarðarbær sé að missa tekjuvon á næstu áratugum samningsins með þeirri uppsetningu samningsdraganna eins og þau liggja fyrir. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það. En mér finnst samt að þar hefði mátt horfa á hlutina í aðeins stærra samhengi, bæði af hálfu Hafnarfjarðarbæjar og annarra. Mér fannst satt að segja dálítið sérkennilegt að upplifa þessar bréfaskriftir af hálfu álversins til bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, örfáum sólarhringum eftir að blekið var þornað á undirskriftum samningsins og mun ég koma að því nánar síðar.

Hæstv. forseti. Til viðbótar við þau atriði sem ég hef nefnt, þ.e. orkuna og skattana, eru önnur atriði sem ég vil gera athugasemdir við. Þau snerta í sjálfu sér bæði þennan samning en líka almennt stöðu álversins í landinu. Það er í fyrsta lagi í sambandi við meðferð umhverfismálanna. Ég segi alveg eins og er að ég tel að þar sé ekki um nægilega vandaða vinnu að ræða. Ég er þar ekki að tala um vinnu starfsmanna umhvrn. og Hollustuverndar ríkisins. Ég er sérstaklega að tala, eins og fram kemur í nefndarálitinu, um hinn pólitíska ramma sem þessum aðilum er settur. Ég ætla að nefna tvennt í því sambandi. Annað er ákvörðun meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins, sem er pólitískt kjörin stofnun, um að vísa frá spurningum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar vegna aðildarskorts hans að málinu. Hitt er 10 mínútna fundur umhvn. til að fjalla um þessi mál. Þetta eru ómöguleg vinnubrögð. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er að segja í þessum efnum sé ekki rétt. Menn hafa auðvitað leyfi til þess. En að meðhöndla alvarlegar athugasemdir með þeim hætti sem hér var gert er ekki boðlegt.

Ég tel ástæðu hins vegar til að geta þess og þakka fyrir það, m.a. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. formanni iðnn., að það var allrækilega farið yfir athugasemdir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á fundi iðnn. að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En það breytir ekki því að niðurstaða meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins og umhvn. er algerlega ólíðandi. Hún er ólíðandi ekki bara vegna þessa máls, hæstv. forseti, heldur líka vegna þess að hér getur verið um að ræða fordæmismál. Það á að vinna svona hluti vel. Það á að vanda sig við mál af þessu tagi. Það á að gefa þeim einhvern tíma en ekki umgangast þessi mál eins og þau skipti engu máli.

Ég vil nota þetta tækifæri úr þessum virðulega ræðustól, hæstv. forseti, til að mótmæla áliti Eiríks Tómassonar prófessors en það er á grundvelli þess álits sem meiri hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins byggir sína niðurstöðu um að hafna aðild hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að þessu máli. En í áliti Eiríks Tómassonar prófessors, dags. 31. október 1995, segir svo, með leyfi forseta:

,,Það er því niðurstaða mín að þeir einir, sem eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta, geti gert athugasemdir við tillögur að starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 8. kafla mengunarvarnareglugerðar.``

Það er alveg augljóst mál, hæstv. forseti, að andrúmsloftið á Íslandi eigum við saman, allir Íslendingar, hvar sem við búum á Íslandi. Það er útilokað að hafna því að einhverjir tilteknir aðilar eigi frekar aðild að máli af þessu tagi en aðrir. Ég skora á hæstv. umhvrh. að gera grein fyrir því hver sé hans skoðun á þessum vinnubrögðum. Og ég bendi á að formaður stjórnar Hollustuverndarinnar --- hver er hann? Er hann ekki aðstoðarmaður --- hvers? Landbrh. sem er sama persónan og er umhvrh. Er þetta ekki athyglisvert, hæstv. forseti? Er þetta ekki þannig að formaður stjórnar Hollustuverndar ríkisins er jafnframt aðstoðarmaður landbrh.? Þetta er ekki gott, eða hvað.

Nú er ég ekki að vantreysta þessum unga manni, það má enginn skilja það svo. Og það má enginn skilja það þannig að ég telji að... (JóhS: Er hann ekki varaformaður?) Varaformaður stjórnar Hollustuverndarinnar? (Gripið fram í: Jón Erlingur.) Það er undirritað af Jóni Erlingi Jónassyni fyrir hönd meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins, þetta bréf. (GÁ: Ingunn er formaður.) Ingunn Svavarsdóttir er formaður já, en hann undirritar þetta bréf sem hafnar aðild hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að málinu. Og ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég tel að þarna séu menn alveg á mörkunum svo ég segi ekki meira. Og ég endurtek að ég er ekki að vantreysta þessum unga manni. Það má enginn skilja orð mín svo. En ég er bara að vekja athygli á því að þetta er... (ÖS: En er hann grunaður um græsku?) Ja, ég segi það heldur ekki, hv. þm., heldur vek ég athygli á því að þarna kann þessi ágæti ungi maður að vera settur í óþolandi stöðu miðað við allar aðstæður.

Þetta tvennt, hæstv. forseti og hv. formaður iðnn., er það sem ég á við þegar ég tala um að málið sé sett í pólitískan ramma sem er óþolandi fyrir embættismenn og sérfræðinga. Það er það. Þess vegna held ég að mótmæli hv. formanns iðnn. við orðum mínum í nefndarálitinu um þetta dugi því miður ekki. Ég held að staðan sé því miður þannig að þarna hafi menn ekki gætt sín sem skyldi.

Nú ætla ég ekki, hæstv. forseti, að fara út í umhverfismálin í einstökum atriðum að öðru leyti. Margt er í því gagni sem ég hef látið dreifa á borð þingmanna og er nokkur texti sem er ágætt fyrir menn að lesa, annaðhvort núna eða um hátíðirnar því að hér er margt fróðlegt án þess að það flokkist undir bókmenntir beint, en hér er margt gagnlegt. Og ég vek athygli á því að þarna koma fram upplýsingar um brennisteinsdíoxíðmagn sem fer út samkvæmt þessum samningi, í svörum sem við fengum frá ráðuneyti umhverfismála.

Ég ætla að víkja lauslega, hæstv. forseti, að alþjóðlegum skuldbindingum sem uppi eru í þessum efnum. Það er fyrst samningurinn með langa nafninu eins og við kusum að kalla hann í iðnn. Styttri útgáfa af nafninu er: Samningur um loftmengun sem berst langar leiðir. Þetta er styttri útgáfan en það verður ekki farið með þá lengri hér vegna þess að þingmanninn brestur minni til að fara yfir það í smáatriðum. Þarna er um að ræða samning eða bókun sem mjög margar þjóðir hafa gerst aðilar að en það hafa Íslendingar ekki gert. Í gögnum sem eru í heftinu, sem ég hef látið dreifa, kemur í ljós að ef Íslendingar væru aðilar að bókun um SO2 hefði það haft bein áhrif á samninginn um stækkun álversins í Straumsvík og í raun og veru hindrað aðild okkar að honum, eins og hann lítur út. Þ.e. ef Ísland hefði verið búið að setja mörk um árlega losun brennisteins frá landinu samkvæmt þessum samningi. Það er rétt að taka fram að öll nágrannalönd okkar hafa skrifað undir bókunina. Þetta kemur fram í skjali frá umhvrn. sem dreift er með nál. mínu.

[11:30]

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara yfir einstök atriði í sambandi við bréf hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar til hv. formanns iðnn. um þessi mál. En þar eru tínd til 17 atriði sem eru öll mjög gild í þessu samhengi. Á fundi í iðnn. með Hollustuvernd ríkisins kom fram að þeir sem þar töluðu fyrir nefndina sem sérfræðingar sýndu öllum athugasemdunum sem hér koma fram fullan skilning. Mér fannst þeir taka þannig á málinu. Ég varð ekki var við að þeir vísuðu neinu á bug af því sem stendur hér. Þeir töldu að því er varðar 1. tölul., ófullnægjandi ákvæði í lögum og reglugerðum, að þar væri kannski ekki um að ræða hluti sem þeir gætu skrifað upp á. En þegar kemur að öðrum þáttum tel ég að þeir hafi á fundum nefndarinnar sýnt þeim beinan skilning. Ég bendi t.d. á ummæli hv. þm. um koltvísýringsmengun og alþjóðlegar skuldbindingar. Ég varð ekki var við að þar kæmu fram nein alvarleg mótmæli við ábendingum hv. þm. Því tel ég að það sé ekki að neinu leyti orðum aukið sem ég segi í nál. í þessu samhengi.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í heftinu sem ég hef látið dreifa er birt bréf, dags. 9. sept. 1995, frá þingflokki Kvennalistans til Hollustuverndar ríkisins þar sem fjallað er um starfsleyfið alveg sérstaklega. Í heftinu er einnig að finna svör umhvrn. við öllum athugasemdum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég held að mjög sé að gagnlegt að hafa það til hliðsjónar, m.a. þær forsendur sem umhvrn. byggir sínar ákvarðanir á. Loks birtist framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings um loftslagsbreytingar, sem er einn af Ríó-samningunum. Þar kemur margt mjög fróðlegt fram, hæstv. forseti, m.a. um koltvíoxíðssamninginn sem ég ætla að fara aðeins nánar yfir.

Í maí 1994 lauk Orkustofnun við gerð bráðabirgðaeldsneytisspár sem unnin var út frá eldsneytisspá frá árinu 1988, að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á aðstæðum síðan. Eldsneytisspáin er síðan forsendan fyrir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna Ríó-samningsins og í henni stendur, með leyfi forseta:

,,Stefnumið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar miðast við að vinna að fullu`` --- ég endurtek --- ,,að fullu á móti þeirri aukningu útstreymis koltvíoxíðs sem búist er við frá 1990 til 2000, eða um 110 þús. tonn. Stefnt er að því að ná um 35 þús. tonna minnkun með breytingum á eldsneytisverði, um 50 þús. tonnum með rafvæðingu katla og öðrum aðgerðum í iðnaði og um 15 þús. tonnum með aðgerðum í samgöngumálum. Til viðbótar er ráðgert að rúmlega 10 þús. tonna takmörkun náist hjá fiskiskipunum. Með þessu móti er talið að heildarútstreymi koltvíoxíðs á landinu verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990.``

Nú vil ég beina spurningu til hæstv. umhvrh. sem við ræddum aðeins við 1. umr. en ég bið hann um að fara nánar yfir: Vill hann vera svo vinsamlegur að gera grein fyrir því hvernig hann hugsar sér framkvæmdina á þessari framkvæmdaáætlun? Er t.d. farið að leggja drög að því að hækka sérstaklega verð á bensíni út af þessum málum? Hér er verið að segja það. Eru menn að vinna í því að hækka aukalega verðið á bensíni eða dísilolíum eða hvað eru menn að gera? Er það þannig að umhvrn. ætlar að láta sér nægja að skrifa bara undir einhverja pappíra í útlöndum, koma svo heim og brjóta allar reglurnar sem skrifað er undir? Ég er viss um að svarið við þeirri spurningu er nei. Umhvrn. ætlar sér ekki að gera það. Ég veit að bæði hæstv. umhvrh. og ráðuneytisstjórinn í umhvrn. hafa miklu meiri metnað fyrir hönd ráðuneytisins en svo. Ég held að æskilegt sé að fá þessar upplýsingar.

Ég vil einnig vekja athygli, hæstv. forseti, á bréfi því sem Náttúruverndarráð sendi Skipulagi ríkisins um þessi mál, dags. 21. ág. 1995. Þar er um að ræða ábendingar sem benda til þess að ágreiningur sé á milli Náttúruverndarráðs og Hollustuverndar ríkisins um þessi mál. Ég vil biðja hæstv. umhvrh. um að fara nokkrum orðum um það mál á eftir hvernig hann ætlar sér að sætta þessar stofnanir sínar, annars vegar Náttúruverndarráð og hins vegar Hollustuvernd ríkisins, sem segja sitt hvað. Náttúruverndarráð segir, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

,,Gert er ráð fyrir að þurrhreinsibúnaður verði notaður. Náttúruverndarráð telur að nota eigi þann búnað sem gefur bestu hreinsun á kerreyk og bendir á að með vothreinsibúnaði (sjóskolun) megi ná mun meiri hreinsun á t.d. brennisteinstvíoxíði en sem svarar 21 kg/t Al eða allt niður í 2--5 kg/t Al. Þessu má einnig ná með brennisteinssnauðum kolaskautum.``

Þetta er mjög athyglisvert. Það er líka athyglisvert að Náttúruverndarráð tekur undir það sem fram hefur komið varðandi veðurmælingar í kringum Straumsvík, að þær séu of litlar. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarráð tekur undir þær athugasemdir sem koma fram í þessum lið um vöntun á veðurmælingum í Straumsvík og þeim byggðu svæðum (Hafnarfjörður, Bessastaðahreppur o.fl.), sem sérstaklega má ætla að verði fyrir loftmengun frá álverinu.``

Því verð ég að segja alveg eins og er, hæstv. forseti: Ég hef engan áhuga á því að varpa rýrð á það sem þetta fólk er að gera í málinu. Ég hef engan áhuga á því. Það sem fyrir mér vakir er að settar séu skynsamlegar, gagnsæjar, faglegar reglur um það hvernig á málum af þessu tagi er tekið. Ég held að ef núna er ekki tekið rétt á málum eins og umhverfismálunum, faglega og gagnsætt, geti það verið hættulegt fyrir framhaldið. Þess vegna tel ég að sú umræða sem nú fer fram sé mikilvæg forvarnaumræða, fyrirbyggjandi umræða, um stóriðjuver sem menn hugsanlega byggja hér í framtíðinni. Ég bið menn um að skilja orð mín sem innlegg í þá framtíðarumræðu, kannski ekki síður en sem umræðu um einmitt þessa stækkun. Hún er út af fyrir sig minna mál sem slík en margt annað sem gert hefur verið í þessu máli.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum, hæstv. forseti, um þessi umhverfismál, þótt ég gæti það sannarlega. Ég hef lagt fram nokkrar grundvallarspurningar um málið.

Ég ætla því næst að víkja að öðrum atriðum í nál. mínu. Það eru samskiptin við Hafnarfjarðarbæ, sem ég kalla svo í álitinu. Mér finnst það nokkuð skrýtið mál. Ég segi það alveg eins og er. Mér finnst sérkennilegt að íslenskt fyrirtæki skrifar Hafnarfjarðarbæ á ensku, nokkrum dögum eftir að búið er að ganga frá samningnum, þar sem varað er við því að byggja á skipulögðum svæðum í Hafnarfirði og sagt, á þessum eina stað í skjölunum, að stækkunin geti orðið miklu meiri en nú er áformað. Mér finnst að sumu leyti heiðarlegt af álverinu að segja þessa hluti fullum fetum og láta koma fram að þetta geti verið svona. En það hefði átt að koma fram áður en samningarnir voru undirritaðir. Enn þá sérkennilegra er að bréf fyrirtækisins, sem heitir á sérkennilegri íslenskri mállýsku Icelandic Aluminium Corporation, er bréf frá íslensku fyrirtæki til Hafnarfjarðarbæjar. Það er ekki verið að senda þetta annars staðar að. Iðnrn. svarar alveg á stundinni þessu bréfi og segist taka undir þessi mál og bendir á að álframleiðsla í Straumsvík geti aukist í 300 þús. tonn á næstu árum eða þegar fram líða stundir og að hún muni líklega á næstu 5--10 árum aukast í 200 þús. tonn.

Ég vil staldra við þetta, hæstv. forseti, og segja: Ég hef hvergi séð annars staðar að þetta muni gerast á næstu 5--10 árum. Af hverju segir iðnrn. 5--10 ár? Hvaða rök eru fyrir því að iðnrn. segir 5--10 ár? Og hvaðan er þessi tala, 300 þús. tonn, komin? Ég held að það sé nauðsynlegt að iðnrn. geri grein fyrir því. Síðan ber að geta þess að iðnrn. dró að nokkru leyti til baka síðdegis sama dag sitt eigið bréf með símbréfi til Ingvars Viktorssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði. Það bréf er dags. 7. des. 1995. Þar segist ráðuneytið ekki taka neina afstöðu til einstakra þátta í framtíðarþróun byggðar í Hafnarfirði. En auðvitað er alveg ljóst að ráðuneytið er að segja við Hafnfirðinga: Þið verðið að taka tillit til álversins við skipulagningu byggðar á svæðinu. Ætli það heiti ekki sunnan til í Hvaleyrarholti eða niður að veginum sem liggur að gamla sædýrasafninu og þar í grennd, þar sem ráðgert var að byggja nokkra tugi húsa eða hátt í 100 íbúðarhús, ef ég man rétt.

Ég held sem sagt að fara þurfi aðeins betur yfir þetta og ég segi, hæstv. forseti, í þessu skjali: Álverið hefur ekki komið sér nægilega vel fyrir í þjóðlífinu. Ég endurtek það. Það er ekki nógu vel að þessum hlutum staðið. Mér finnst að það eigi að vanda sig við svona mál, bæði að því er varðar umhverfismálin, að ekki sé nú talað um orkumálin, skattamálin og hækkun í hafi og allt það. Ég ætla ekki að fara að tala um það. En þegar maður lítur t.d. á vinnuslysin sem ég kem að á eftir, samskiptin við Vinnueftirlit ríkisins, þessa þætti umhverfismálanna og samskiptin við næstu nágranna, Hafnarfjarðarbæ, þá er þetta ekki nógu gott. Ég held að við verðum líka að horfast í augu við það. Að því er varðar t.d. Járnblendifélagið, það er betra. Þar hefur t.d. tekist betra samstarf við starfsmenn, sýnist mér á öllu, en þarna suður frá. Mjög alvarlegar ábendingar varðandi samskiptin við starfsmenn komu fram í ferð okkar iðnaðarnefndarmanna til Straumsvíkur. Ég tek engu að síður mark á því sem fram kom hjá steypuskálastjóranum, Rannveigu Rist verkfræðingi, að þau hafa að mörgu leyti lagast og það hefur verið unnið skipulega í þeim. En það er ekki hægt að segja að álverinu hafi tekist vel að koma sér fyrir í þjóðlífinu og þar með að eyða tortryggni sem er eðlileg í kringum fyrirtæki af þessu tagi sem er allt öðruvísi en allur annar atvinnurekstur í landinu. Ég fer sem sagt fram á það af iðnrn. að samskiptamálin verði skoðuð og að staða fyrirtækisins verði skoðuð skipulega, með viðræðum við Hafnfirðinga og alla hlutaðeigandi aðila.

Síðan kem ég í nál. aðeins að skýrslu Vinnueftirlitsins sem fylgir hér líka. Þar eru satt að segja hárreisandi tíðindi um vinnuslys í fyrirtækinu. Daginn sem við iðnaðarnefndarmenn komum þangað, um klukkan hálfellefu til ellefu, hafði sama morguninn orðið vinnuslys þar sem þrír menn slösuðust. En okkur var ekki sagt frá slysinu þegar við komum í fyrirtækið. Það var mjög sérkennilegt. Við heyrðum það í útvarpinu á leiðinni til Reykjavíkur að þarna hefði orðið óvenjumikið slys þar sem þrír menn slasast. Nú kunna að hafa verið einhver rök fyrir því, ég skal ekkert um það segja. Ég hef ekki haft aðstöðu til að ræða þetta við forráðamenn fyrirtækisins en alla vega verkaði þetta ekki vel á iðnaðarnefndarmenn. Það var eins og þarna væri verið að leyna einhverju og ég held að maður verði að taka mark á forstjóra Vinnueftirlitsins í þessu máli. Þetta er bara ekki alveg nógu gott hjá okkur.

[11:45]

Þetta er líka forvarnamál. Þetta er líka fyrirbyggjand umræða af minni hálfu til þess að á þessum málum verði betur tekið í framtíðinni.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, um einstök atriði nefndarálitsins vísa ég til þess og fylgiskjala en kem svo að lokum að þeim breytingartillögum sem ég flyt á þskj. 382. Það er tillaga um þrjú ákvæði til bráðabirgða sem hljóða svo, með leyfi forseta:

,,Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal ríkisstjórnin láta fara fram úttekt óháðra sérfræðinga á umhverfiskröfum þeim sem gera verður til álversins í Straumsvík með hliðsjón af íslenskum reglum og alþjóðlegum samningum. Úttektinni skal lokið fyrir 1. mars 1996 og verði starfsleyfi álversins þá endurmetið og það endurútgefið í samræmi við niðurstöður úttektarinnar.``

Ég ætla að fara yfir þetta. Ég er að biðja um það, hæstv. forseti, að það fari af stað ný úttekt á umhverfismálunum og henni verði samt sem áður lokið svo snemma að það hafi ekki veruleg áhrif á framkvæmdaferlið í Straumsvík ef niðurstaðan verður sú að þetta sé allt í lagi. Ég held að það sé sanngirnisósk að fara fram á þetta eins og málin eru og hafa þróast og þess vegna flyt ég þessa tillögu. Ég vona að hæstv. umhvrh. og meiri hlutinn í þessari virðulegu stofnun taki þessum ábendingum vel.

Í öðru lagi flyt ég tillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi kýs strax og lög þessi hafa tekið gildi sjö manna nefnd, atvinnumálanefnd, til þess að gera tillögur um eflingu alhliða atvinnulífs, m.a. með hliðsjón af þeim þjóðfélagslegu breytingum sem það kann að hafa í för með sér ef stórframkvæmdir næstu ára verða nær allar á sama svæði á landinu. Nefndin skili fyrstu tillögum sínum fyrir þinglok vorið 1996.``

Hvað er nú þetta? Þetta er það að nú er verið að leggja af stað með þessa stækkun og ég segi alveg eins og er að ég er ósammála þessum óskaplegu útmálunum Þjóðhagsstofnunar á því að þessi stækkun, mér liggur við að segja litla stækkun, muni setja allt á annan endann í þessu landi. Það er ekki þannig. Þetta eru ekki þau undur í atvinnumálum að þessi stækkun setji allt á annan endann á Íslandi. Það er ekki svoleiðis. Ég vil láta það koma fram að ég er ósammála mati Þjóðhagshagsstofnunar að því er það varðar.

Hins vegar er það auðvitað þannig að hin beinu efnahagslegu áhrif sem eru reiknanleg í tölvum Þjóðhagsstofnunar eru eitt, en hin, mér liggur við að segja andlegu áhrif sem svona framkvæmdir hafa, t.d. á fólk á Siglufirði, á Seyðisfirði, á Vestfjörðum, eru talsverð. Það þarf að grípa til sérstakra ráðstafana út af því, líka vegna þeirra hörmunga sem hafa dunið yfir í ákveðnum hlutum dreifbýlisins, einkum á Vestfjörðum að undanförnu og líka vegna þess að nú er verið að tala um að fara í Hvalfjarðargöng. Ég sé að það eru allir með stjörnur í augunum yfir þessum Hvalfjarðargöngum. Ég er eini pólitíkusinn held ég í þessari stofnun sem hef stundum leyft mér að draga það í efa að nauðsynlegt sé að eyða öllum þessum peningum í þessi Hvalfjarðargöng. Það væri nær að eyða þeim í skóla eða einhverjar þarfar menningarstofnanir en ég er nú einn um það eins og fleira. Og svo eru menn að tala um fleiri stóriðjufyrirtæki. Ég ætla að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann getur frætt okkur nokkuð um frekari áform um stóriðjufyrirtæki. Það er alveg rétt sem bent var á í mínum þingflokki fyrir nokkrum dögum að það er dálítið þriðja heims andrúmsloft á Íslandi í sambandi við þessi stóriðjufyrirtæki. Þegar einhver útlendingur kemur með mikið af dollurum og ætlar að byggja eitthvað þá leysast menn upp í fögnuði, amen og halelúja og spyrja ekkert um hvað menn eru með í pakkanum ef þeir sjá dollarana fyrst. Ég held að málið sé þannig að menn þurfi að vera miklu gagnrýnni á þessa hluti en við höfum verið. Ég vil láta það koma fram að þó að ég verði að teljast tiltölulega jákvæður gagnvart þeim orkusölusamningi sem hér er verið að ræða, lít ég ekki á hann sem fordæmi að einu eða neinu leyti og mér finnst reyndar að það eigi að reyna að móta heildarstefnu í þessum málum eins og ég kem að á eftir. En spurningin er sú, svona í tilefni af þessu öllu, hvort það sé ekki nauðsynlegt, og það er mín skoðun að það sé nauðsynlegt, að Alþingi kjósi sérstaka nefnd til að fara í atvinnuþróunarmál í heild af framsýni og með hliðsjón af því ef allar stóriðjuframkvæmdir næstu ára verða hér á sama svæðinu. Ég segi á sama svæðinu vegna þess að ef við horfum frá Suðurnesjum og upp í Hvalfjörð, upp á Grundartanga þá er þetta er eitt atvinnusvæði þannig að ég tel að þessi tillaga eigi hér við. Og ég bendi á að þegar viðreisnarstjórnin samþykkti álverið 1966 eða 1965, ég man ekki hvenær lögin voru samþykkt reyndar, þá var gerð um leið sérstök samþykkt og tekin ákvörðun um tilteknar aðgerðir í atvinnumálum dreifbýlisins. Ég er sannfærður um að framsóknarmenn vilja síst láta það á sig sannast að þeir séu lakari en viðreisnarstjórnin í þessum málum og spyr að því hvort þeir hafi ekki áhyggjur af atvinnuþróuninni og ástandinu í dreifbýli að því er þessa hluti varðar. Ég beini því bæði til hæstv. iðnrh. og hv. formanns iðnn. því að ég tel að hér sé um að ræða mjög alvarlegt mál.

Í þriðja lagi flyt ég tillögu sem er svohljóðandi:

,,Alþingi kýs strax og lög þessi hafa öðlast gildi sjö manna nefnd til þess að gera tillögur til Alþingis um stefnumótun í orku- og stóriðjumálum til næstu áratuga á grundvelli sjálfbærrar þróunar í umhverfismálum. Nefndin skili tillögum sínum til Alþingis við upphaf þings haustið 1996.``

Þetta mál hef ég þegar rökstutt og tel að við eigum að horfa á þessa hluti líka í samhengi. Við eigum mikið vatnsafl. Við viljum breyta því í verðmæti. Hverju viljum við kosta til? Við viljum að þeir sem kaupa af okkur rafmagnið borgi fyrir það fullt verð svo ekki sé verið að borga með því. Við viljum ekki að almenningur á Íslandi borgi með þessu í sínum töxtum hjá almenningsrafveitunum. Við viljum tryggja það að þær orkuframkvæmdir sem ráðist er í séu umhverfisvænar og spilli ekki umhverfinu. Við viljum standa þannig að málum að stóriðjufyrirtækin sem byggð eru spilli ekki umhverfinu, á jörðu, í sjó eða í andrúmsloftinu. Þetta viljum við allt saman gera og af hverju ekki að setja þessa hluti niður á blað og reyna að horfa á málið í stærra samhengi. Það er það sem verið er að gera hér.

Nú hefur hæstv. iðnrh. óskað eftir því að stjórnmálaflokkar og fleiri aðilar tilnefni menn í allstóra nefnd til að fjalla um miklu víðara svið, þ.e. þróun orku- og iðnaðarmála til lengri tíma, skipulag orkuiðnaðarins alveg sérstaklega. Mér er kunnugt um að bréf um þetta efni liggur fyrir hjá flokkunum og ég hef orðið var við það reyndar víða. En það sem hér er á ferðinni er hluti af því stóra máli sem hann er þarna að rekja. Hér er bara verið að fara yfir orkunýtingarkostinn og stóriðjumálið en ekki allt sviðið, þ.e. skipulag orkumála o.s.frv. Þess vegna vil ég inna eftir því hvaða afstöðu hæstv. ráðherrar hafa til þessa máls.

Ég segi í lokin á nefndaráliti mínu:

,,Afstaða minni hlutans til frumvarpsins ræðst af því hvaða afgreiðslu og undirtektir þær tillögur um orkumál, atvinnumál og umhverfismál fá, sem fluttar eru í formi breytingartillagna við frumvarpið.`` Og ég þarf svo sem ekki að gera neitt annað en undirstrika þetta. Ég mun og við, taka ákvörðun um það hvernig við stöndum að afgreiðslu málsins við 2. og 3. umr., taka ákvörðun um það með hliðsjón af því hvernig undirtektir verða við almennar ábendingar okkar sem hér hefur verið gerð grein fyrir.