Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 11:58:44 (2054)

1995-12-16 11:58:44# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[11:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara sem snertir nokkra þætti þessa máls og ég mun gera nánar grein fyrir.

Við 1. umr. kom fram í mínu máli að þingmenn Þjóðvaka mundu greiða fyrir umræðu þessa máls á þingi eins og kostur væri, en nauðsynlegt væri að skoða ítarlega í meðferð málsins, ekki síst orkusamninginn, skattalega hlið samningsins og þá þætti sem lúta að mengunarvörnum. Ýmislegt hefur skýrst varðandi þetta í umfjöllun iðnn. svo og umfjöllun efh.- og viðskn. um skattaþáttinn og umfjöllun umhvn. um umhverfismálin sem ég mun ræða nánar.

Í nefndaráliti meiri hlutans er nokkuð vikið að þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á leyndina sem hvílir yfir orkusamningnum. Við í Þjóðvaka höfum tekið undir þessa gagnrýni og teljum að leyndin sé óeðlileg og til þess fallin að vekja tortryggni um þennan mikilvæga þátt samningsins. Deili ég því ekki með meiri hlutanum þeim þætti málsins sem segir að meiri hluti iðnn. geri ekki athugasemd við þá málsmeðferð.

Upplýsingar komu fram í hv. iðnn. um orkusamninginn, einnig þann hluta er lýtur að trúnaðarþætti málsins en ég mun að sjálfsögðu virða ósk sem fram hefur komið frá stjórn Landsvirkjunar um þann þátt sem þeir vilja að falli undir viðskiptaleynd þó það geri þingmönnum að sjálfsögðu erfitt um vik að fjalla með eðlilegum hætti um þennan stóra þátt málsins. Ég vil þó undirstrika að við lítum svo á að hér sé ekki verið að marka stefnu til frambúðar og að samþykki stjórnar Landsvirkjunar varðandi þessa viðskiptaleynd nái eingöngu til samningsins sem við ræðum hér.

Það má ætla, ef spár ganga eftir, að samningurinn verði Landsvirkjun hagstæður þegar til lengri tíma er litið þó orkuverðið sé snautlega lágt að mínu mati fyrstu árin. Upplýst hefur þó verið að orkuverðið standi undir framleiðslukostnaði á afsláttartímanum sem er mjög mikilvægt. Samkvæmt útreikningi og áætlun Landsvirkjunar reikna þeir líka með hagnaði af samningnum á um 8 milljarða kr. ef spá um þróun álverðs gengur eftir. Þó er ljóst, að mínu mati, að við erum að setja eggin í eina körfu. Tekjur Landsvirkjunar frá Ísal nú eru um 22% af heildartekjunum en verða 30% eftir samninginn og orkumat til Ísals er 37% en verður rúmlega 50%. Þannig verður efnahagslífið verulega háð álverðssveiflum líkt og það hefur verið háð fiskverðssveiflum.

[12:00]

Ég vil líka ítreka mikilvægi þess að það gangi eftir, sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að Landsvirkjun geri ráð fyrir að orkuverð til almenningsveitna muni lækka til lengri tíma litið vegna áhrifa samningsins.

Við 1. umr. þessa máls vakti ég athygli á ýmsum spurningum sem vöknuðu um skattaþátt samningsins. Í fyrsta lagi varðandi það að fastagjald Ísals verði eftir stækkun lækkað úr 20 dollurum á framleitt tonn í 10 dollara á tonn og komi sú breyting til framkvæmda í upphafi fyrsta heila rekstrarárs stækkaðs álvers eða frá 1. jan. 1998. Með stækkuninni og aukinni framleiðslu, í allt að 200 þús. árstonn, mun þetta gjald aðeins gefa 130 millj. sem er sama upphæð og gjaldið gefur nú þannig að aukin framleiðsla mun engu skila umfram það sem verið hefur. Þótt það verði ekki frádráttarbært frá tekjuskattsgreiðslum eftir 2005 og arðgreiðslur geti Ísal ekki nýtt með sama hætti og íslensk fyrirtæki taldi ég að niðurstaðan væri mjög hagstæð fyrir samningsaðila okkar. Ekki síst í ljósi þess að þeir munu búa við núgildandi skattalegt umhverfi út allan samningstímann, þ.e. að þó að skattar á íslensk fyrirtæki breytist á samningstímanum, til að mynda til hækkunar, mun Ísal halda hagstæðri skattalegri stöðu sinni allan samningstímann. Íslensk fyrirtæki gætu því þurft að búa við óhagstæðara skattaumhverfi en fyrirtæki í eigu erlendra aðila.

Eins og fram kemur í umsögn efh.- og viðskn. mun hinn nýi viðaukasamningur engu að síður þýða verulega auknar tekjuskattsgreiðslur Ísals í ríkissjóð til lengri tíma litið vegna aukinnar framleiðslu. Ljóst er að við munum þó þurfa að kosta nokkru til við skattaþátt málsins, í eftirgjöf. Engu að síður hlýtur að vega þungt þegar kostir og gallar skattalegs þáttar samningsins eru metnir að til lengri tíma litið getur hann þýtt verulega auknar skatttekjur ríkissjóðs.

Þó að þessir samningar hafi marga kosti, ekki síst þá að koma hreyfingu á efnahags- og atvinnulífið og að við nýtum alla umframorku okkar strax við gangsetningu verksmiðjunnar, auk þess sem stækkunin leiðir til þess að við þurfum að ráðast í verulegar fjárfestingar í nýjum virkjunum, sem eykur líka umsvif í atvinnulífinu, þá eru líka á þeim gallar. Það er dapurleg staðreynd sem ekki verður fram hjá litið að lág laun í landinu og sá mikli afsláttur af orkuverði sem við þurftum að gefa í nokkur ár, auk þess sem við vorum óþarflega umburðarlynd varðandi mengunarþáttinn, eru meginástæður þess að samningarnir tókust. Á heildina litið vega kostirnir þó þyngra en gallarnir. Það er ástæða þess að ég styð meiri hluta iðnn. í þessu máli, með þeim fyrirvörum sem ég er að lýsa nú við 2. umr.

Ég sé ástæðu til þess að nefna sérstaklega, áður en ég vík að mengunarþætti samningsins, að líka verður að hafa í huga þegar metin eru hve mörg störf samningurinn mun gefa á framkvæmdatímanum að þau eru alls ekki í hendi enn fyrir Íslendinga. Áætlað er að um þriðjungur af 14 milljarða framkvæmdum eða 4,5 milljarður kr. fari væntanlega til innlendra aðila og að ársverk vegna framkvæmdanna verði um 800 en útboð á eftir að fara fram á stærstu hlutum verkefnisins og það er alls óvíst hverjir þeirra koma í hlut íslenskra aðila og þá hve mikið af störfum Íslendingar hljóta.

Herra forseti. Það er ástæða til að nefna þetta til þess að menn geri sér ekki of miklar væntingar um áhrif samningsins á atvinnustigið í landinu þótt þess sé auðvitað að vænta, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, að íslensk fyrirtæki geti boðið í flesta verkþætti.

Þess verður líka að geta að þrátt fyrir að reiknað sé með um 90 varanlegum störfum vegna stækkunarinnar hefur störfum við álverið fækkað verulega á umliðnum árum. Með þessum 90 viðbótarstörfum verða þau í allt 497 eftir stækkunina, aðeins þremur fleiri en þau voru árið 1993. Í áliti Þjóðhagsstofnunar sem fram kemur í greinargerð með frv. segir að til greina komi vegna þessara framkvæmda að fresta opinberum framkvæmdum, þá væntanlega umfram það sem fjárlagafrv. næsta árs gerir ráð fyrir. Um þetta spurði ég hæstv. iðnrh. við 1. umr. málsins, en hæstv. ráðherra svaraði því þá til að engin áform væru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að draga úr opinberum framkvæmdum frá því sem áætlað er í frv.

Nú finnst mér af svörum sem ég hef fengið í hv. iðnn. um þetta efni að það sé alls ekki á hreinu og gæti allt eins verið að dregið yrði enn frekar úr opinberum framkvæmdum en fram kemur í fjárlagafrv. Því vil ég aftur spyrja hæstv. iðnrh. þessarar spurningar: Hefur orðið einhver breyting á þessu frá því að hæstv. ráðherra upplýsti þingið við 1. umr. málsins um að engin áform væru uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að draga frekar úr opinberum framkvæmdum en þegar var áformað?

Ég vil í lokin víkja að umhverfisþætti samningsins sem ýmsir hafa lýst verulegum áhyggjum af og haldið fram að sé ekki nægjanlega metnaðarfullur varðandi mengunarvarnir. Við í Þjóðvaka óskuðum eftir því við 1. umr. málsins að umhverfismálin fengju ítarlega skoðun, ekki bara í iðnn. heldur einnig í hv. umvhn. þingsins. Frá hv. umhvn. komu tvö álit, frá meiri hluta og minni hluta. Komið hefur fram, einnig við þessa umræðu, að málið hafi að mati sumra nefndarmanna í umhvn. alls ekki fengið nægjanlega umfjöllun þar, en ég hef gert ákveðna fyrirvara við umhverfisþátt málsins. Ég tel að álit minni hluta umhvn., frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, sé mjög gagnlegt og varpi á margan hátt skýru ljósi á hvað betur hefði mátt fara við mengunar- og umhverfisþátt samningsins. Það er full ástæða til þess að þakka hv. þm. fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í málið og mikilvægar ábendingar sem fram koma í áliti hans.

Ég tek undir það sem fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. 8. þm. Reykv., að það sé mjög óeðlilegt og sérkennilegt að stjórn Hollustuverndar ríkisins hafi hafnað aðild hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að málinu vegna þess að hann gerði alvarlegar athugasemdir við starfsleyfið. Auðvitað er alvarlegt að stjórn Hollustuverndar skuli ekki hafa tekið málið til efnislegrar afgreiðslu, ekki síst í ljósi athugasemda hv. þm. við umhverfisþátt málsins.

Hv. iðnn. fór ítarlega yfir álit minni hluta umhvn. og fékk á sinn fund, vegna þess álits, fulltrúa frá umhvrn., iðnrn. og Hollustuvernd ríkisins. Í áliti meiri hlutans segir að hann taki undir álit meiri hluta umhvn. Eins og fram kom í máli hv. formanns iðnn. hef ég skrifað undir nál. meiri hlutans með fyrirvara sem snertir nokkra þætti málsins, ekki síst mengunarmálin. Ég tel það hins vegar mjög jákvætt sem kemur fram í áliti meiri hluta iðnn. varðandi einstaka þætti umhverfismálanna, m.a. að það kunni að vera sérstakt athugunarefni fyrir stjórnvöld hvernig beri almennt að takmarka útblástur koltvíoxíðs og brennisteinstvíoxíðs, með tilliti til alþjóðasamninga þar um, án þess að það komi í veg fyrir að hreinar orkulindir landsins verði nýttar til uppbyggingar atvinnu. Ég tel einnig afar mikilvægt, sem fram kemur í áliti meiri hluta iðnn., að rétt sé að huga að frekari endurskoðun þeirra reglna sem gilda um mengunarvarnir með það fyrir augum að skilgreina eins og frekast er kostur mengunarmörk og önnur viðmið í umhverfismálum. Vil ég í því sambandi taka undir það sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta umhvn. um að ófullnægjandi ákvæði sé í lögum og reglugerð er varðar mengunarvarnir, ekki síst varnir gegn loftmengun.

Afar áríðandi er að framfylgt verði niðurstöðu meiri hluta iðnn. um að æskilegt sé að umhverfisyfirvöld kanni í samvinnu við Ísal hvernig minnka megi hljóðmengun frá súrálsuppskipun í Straumsvík. Á þetta atriði vil ég leggja ríka áherslu.

Ég fagna því sérstaklega sem kemur fram í lok nefndarálits meiri hlutans, og við í Þjóðvaka lögðum mikla áherslu á, en meiri hlutinn telur þörf á því að iðnrn. athugi sérstaklega hvernig auka megi úrvinnsluiðnað í tengslum við álverið og þá þjónustu sem þar er í boði. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. um álit hans á því. Hjá Ísal komu fram upplýsingar um úrvinnsluna, m.a. að Ísal gæti afhent ál af þeim styrkleika sem þyrfti til ýmiss konar úrvinnslu, svo sem alls konar málm- og álvinnslu. Efnagreining væri ódýr hjá þeim en mundi kosta mikið væri hún gerð annars staðar. Væri vel athugandi að setja á stofn einhvers konar sjóð, tímabundið, sem fengi ákveðið hlutfall af skattgreiðslum frá Ísal, jafnvel með mótframlagi þaðan, til að styrkja úrvinnsluiðnað sem notfærði sér það sem Ísal býður upp á, t.d. efnagreiningu og aðhendingu á fljótandi áli. Hugmyndin er vel þess virði að vera skoðuð rækilega í iðnrn. og gæti leitt til ýmiss konar nýsköpunar í úrvinnsluiðnaði. Ég vil inna hæstv. ráðherra sérstaklega eftir þessum þætti, sem fram kemur í áliti meiri hluta iðnn.

Herra forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði málsins og reynt að draga fram kosti samningsins og galla, eins og nauðsynlegt er að gera í svo stóru máli. Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir ýmsa galla sem ég hef dregið fram séu kostirnir tvímælalaust þyngri á metunum og því munu þingmenn Þjóðvaka styðja frv.

Í lokin, herra forseti, vil ég ásamt varaþm. mínum, Merði Árnasyni, sem fyrir hönd Þjóðvaka fjallaði að mestu um málið í iðnn. í fjarveru minni, þakka formanni hv. iðnn., Stefáni Guðmundssyni, fyrir trausta forustu í þessu máli og góða samvinnu um það í nefndinni.