Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 16:28:33 (2067)

1995-12-16 16:28:33# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[16:28]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er að vísa til þeirra orðaskipta sem fóru fram um afgreiðslu umhvn. á fundi sem haldinn var að mig minnir 4. des., þá hafa sjónarmið mín og rök komið fram í því máli. Umhvn. vann þetta mál mjög vel á sumri og hausti og var þess vegna mjög vel undirbúin til að takast á við þá umsögn sem við vorum beðin um. Þurftum við þess vegna skemmri tíma.

Það hefur komið fram að beðið var um skriflega umsögn. Það var alveg ljóst áður en sá fundur hófst og ég hafði kannað það að ekki var hægt að fá lengri frest til að skila þessu áliti. Vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson þurfti að fara til útlanda til skyldustarfa eins og kom fram, og ég hafði þegar kannað það að aðrir þingmenn yrðu ekki viðstaddir þegar hann kæmi til baka, var ljóst að ekki var hægt annað en afgreiða þetta á fundinum sem þarna var haldinn, ella hefðum við lent í því að þurfa að afgreiða þetta á rúmri viku og slíkt gat ekki orðið. Læt ég lokið umræðunni af minni hálfu um þennan fund. En mér þykir vænt um föðurlegar ábendingar hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem ég veit að voru mæltar af heilindum. En ekki getur hann ætlast til þess að ég taki allt upp af hans góðu ráðum og breytni í þinginu þó að ég vilji vanda mig við þingstörfin eins og aðrir.