Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 17:25:32 (2072)

1995-12-16 17:25:32# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[17:25]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við að bæta um Noreg og þessi viðmiðunarmörk. Við bætum okkur ekkert meira með lengri deilu eða umræðu um það. Hins vegar er það sjálfsagt þörf ábending hjá hv. þm. að ég ætti að koma við hjá kollegum mínum eða einhverjum þeim sem fjalla um þessi mál í Noregi og ræða við þá. Það er góð ábending. Almennt held ég að við höfum reynt að taka mjög virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi með því að kynna okkur hvað er að gerast í kringum okkur. Þetta nýja og enn ekki stóra eða fjölmenna ráðuneyti sem fjallar um umhverfismálin og við ræddum ofurlítið um við fjárlagaumræðuna á dögunum, held ég að standi sig bara býsna vel á þessu sviði miðað við að það er ungt að árum og hefur sjálfsagt ekki náð enn tökum á öllum þeim málum sem undir það ættu þó að heyra. En ég fullyrði að menn hafa þó raðað þar í forgang eftir því sem menn hafa talið mikilvægast og reynt að sinna því vel sem þeir hafa tekið að sér.

Varðandi svo orkuverin og hvaða aðferðir eru notaðar til þess að framleiða raforku til þess að framleiða ál, þá er það auðvitað rétt hjá hv. þm. að það eru fleiri heldur en við sem framleiða raforku með vatnsafli eða svokallaðri hreinni orku eða hvað við viljum kalla hana. En þó vitum við að enn þá eru til orkuver sem valda mikilli mengun og eru óásættanleg eða væri a.m.k. nauðsynlegt að komast sem mest hjá að nýta. Og þó er auðvitað ein orkan enn sem við mundum kannski telja hreina í þessu tilliti en hefur með sér annan alvarlegan ókost. Það er auðvitað kjarnorkan og ég býst við því að hv. þm. sé ekki endilega mjög fýsandi þess að við tökum upp orkuframleiðslu með þeirri aðferðinni.