Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 18:20:05 (2077)

1995-12-16 18:20:05# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[18:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta var á köflum nokkuð sérkennileg ræða hjá hæstv. ráðherra. Einkum fannst mér upphafið sérkennilegt þegar hæstv. ráðherra fór að gera mikið úr því að svo liti út sem einhverjir þingmenn Alþb. eða fulltrúar þingflokks Alþb. og óháðra yrðu ekki endilega samferða í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Hæstv. ráðherra taldi þetta stórmál. Að þessari forsendu gefinni fór svo hæstv. ráðherra að fimbulfamba um það að þar með lægi ljóst fyrir að ef Alþb. hefði átt aðild að ríkisstjórn nú um stundir, hefði ekki orðið af þessari stækkun. Hvað er hæstv. ráðherra að fara? Hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra? Er það e.t.v það að hæstv. ráðherra gefur sér þá forsendu að Alþb. hefði ekki verið tilbúið til að slaka jafnmikið á í umhverfismálum og Framsfl. og þar með hefði álverið ekki komið? Er hæstv. ráðherra með öðrum orðum að segja okkur að það hefði verið keypt hingað með því að slaka á kröfum um umhverfismálin? Er það það sem hæstv. ráðherra er að segja? Eða hvað er hæstv. ráðherra að fara með slíkum dylgjum? Auðvitað er þetta út í loftið því um slíkt er ekkert hægt að fullyrða. Og það er líka til sú leið, hæstv. ráðherra, sem hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki dottið í hug og það er að ná einfaldlega betri samningum. Samningum sem eru það góðir að allir eru ánægðir með þá. Það er líka hægt. En það gerist auðvitað ekki nema menn reyni það, hvort sem heldur er verið að gefa eftir í sambandi við síldarsamninga eða álversviðræður.

Í öðru lagi hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra varðandi afstöðu til brtt. sem fluttar eru af hv. þm. Svavari Gestssyni og alveg sérstaklega b-liðinn. Það eru mikil vonbrigði og í raun og veru alveg óskiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki reyna að sýna a.m.k. einhvern lit í sambandi við það mál. Síðan segir hæstv. ráðherra að menn eigi ekki að gefa sér þá forsendu að allar stórframkvæmdir verði á næstunni á einum stað á landinu. Það erum við ekki að gera. En því miður lítur út fyrir að svo verði. Allt það sem er í burðarliðnum, eins og nú er í tísku að segja, er bundið við þetta svæði. Hæstv. ráðherra fór einmitt sjálfur yfir þær rannsóknir sem verið er að gera á Grundartanga, stækkun í Straumsvík og Keilisnesi bíður. Þar er búið að kaupa lóð undir batteríið o.s.frv. Ég skora því á hæstv. ráðherra að gefa skýrari og jákvæðari svör í þessu efni.