Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 18:24:48 (2079)

1995-12-16 18:24:48# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[18:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þetta er ótrúlegur samningur, en ótrúlegur fyrir hvað og í hvaða áttir? Ég tel ekki óeðlilegt og í raun og veru fullkomlega eðlilegt að svo geti farið að leiðir skiljist eitthvað með þingmönnum þegar þeir fara að taka afstöðu til þessa máls, eins og það er fram borið. Málið er ekki einboðið eða rakið og það sem verra er, menn hafa ekki allar upplýsingar málsins hér á borðinu. Þingmönnum er ætlað að taka afstöðu til þessa máls að hluta til á grundvelli leyndar um innihald samningsins sem þarna skiptir alveg sköpum. Og það er auðvitað ekki sú aðstaða við ákvarðanatöku sem á að líðast á þjóðþingi þar sem menn eiga skýlausan rétt á öllum upplýsingum til að mynda sér afstöðu til mála.

Um byggðamálin segi ég, herra forseti, að það er auðvitað enginn málflutningur hjá hæstv. iðnrh. að segja að þetta sé allt í lagi og engin ástæða til að taka á því máli af því að menn eru eitthvað að dunda við það í ráðumeytinu. Ég fer fram á, herra forseti, að forsrh. gefi út yfirlýsingu um þessi mál áður en málinu verður lokið héðan frá þinginu. Ég geri ekki kröfur til þess að það verði nú við þessa umræðu, ef því verður illa við komið. En byggðamál heyra undir hæstv. forsrh. og ég tel ekki boðlegt að fara svona frá þessum málum. Það þýðir ekkert að vísa í einhverjar nefndir og einhverja staðarvalshringekju sem á að fara af stað að því er mér heyrðist á hæstv. ráðherra í anda Jóns Sigurðssonar, að rugla um landið og fá menn til að setja sig á einhvern biðlista eða pöntunarlista eftir álverum sem koma svo aldrei. Þetta er bara rugl, hæstv. ráðherra. Það sem við okkur blasir er að það er verið að stækka í Straumsvík. Það er verið að undirbúa stækkun á Grundartanga, það á að fara í Hvalfjarðargöng og næsta stóra álverið yrði svo á Keilisnesi. Á sama tíma er t.d. verið að skera niður í samgöngumálum um 1.300 millj. kr. Þetta eru ekki kringumstæður í þessum efnum sem ég get sætt mig við. Það væri því lágmark að ríkisstjórnin féllist á að setja nefnd í að skoða þessa hluti þar sem stjórnarandstaðan gæti átt aðild að. Ég vek athygli á því að sú vinna sem hæstv. ráðherra er að verja sig með er auðvitað á þann veginn að þar komast engir að nema gæðingar ráðherrans og flokksbræður. Svona viljum við ekki hafa þetta.