Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 18:27:16 (2080)

1995-12-16 18:27:16# 120. lþ. 68.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[18:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo að það liggja allar upplýsingar fyrir um þennan samning um stækkun álversins sem þingið þarf að taka ákvörðun um. Það er því mikill misskilningur hjá hv. þm. þegar hann fullyrðir að það liggi ekki fyrir allar upplýsingar. Allar upplýsingar liggja fyrir um þetta mál sem þingið þarf að taka afstöðu til. Þær eru í því frv. sem menn munu koma til með að greiða atkvæði um.

Varðandi orkuþáttinn er það svo að það er samningur milli Landsvirkjunar og fyrirtækisins. Það er ekki Alþingis að fjalla um þann þátt. Hafi hv. þm. haldið að svo væri er það misskilningur. Samningur er frágenginn og iðnn. þingsins hefur fengið allar þær upplýsingar, eins og um var talað við 1. umr., sem hún taldi sig þurfa að fá til þess að geta sannfærst um að sá samningur er skynsamlegur og hagstæður. Og hann er það hagstæður að hann bætir stöðu Landsvirkjunar um 8 milljarða kr. á samningstímanum fyrir utan það að upp úr aldamótum er gert ráð fyrir því að raforkuverð til almennings fari lækkandi um 3% að raunvirði á ári. Segi menn svo að þetta sé ekki góður samningur er erfitt að sjá hvaða frekari upplýsingar þarf þingið að fá. Hér er engu leynt, hv. þm.

Varðandi staðarval og aðra slíka hluti og hvernig skuli staðið að atvinnuuppbyggingunni er það svo að markaðsskrifstofan og fjárfestingarskrifstofan vilja vinna að mati á aðstæðum eftir kjördæmum í samvinnu við sveitarstjórnirnar á viðkomandi stöðum en ekki bara frá iðnrn. Og það er auðvitað miklu mikilvægara að hafa sveitarstjórnirnar með í þessum efnum, heimamennina, heldur en þurfa að hafa stjórnarandstöðuna þar með.