Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 19:17:22 (2087)

1995-12-16 19:17:22# 120. lþ. 68.2 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[19:17]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það hafa þegar farið fram allítarlegar umræður um þetta mál við 2. umr. málsins og 3. umr. er vitaskuld eftir þannig að þá er hægt að taka á málum. En hér er auðvitað um að ræða eitt allra stærsta mál þingsins, þ.e. hvernig verður háttað tekju- og eignarskatti núna sem grundvallarforsendu fjárlaga íslenska ríkisins árið 1996. Það sem skiptir þarna langmestu máli er að það er í raun og veru verið að aftengja það að þeir þættir sem lúta að persónuafslættinum verði fengnir með þeim hætti sem verið hefur. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ágæta grein fyrir því máli af hálfu okkar í þingflokki Alþb. og óháðra. Ég tel því ekki ástæðu til að bæta þar miklu við.

Ef ekki er unnt að halda þessari umræðu áfram að viðstöddum ráðherrum, vil ég áskilja mínum þingflokki allan rétt til þess að taka nokkurn tíma í þetta mál við 3. umr. þótt óvenjulegt sé með hliðsjón af því að það er gert ráð fyrir þingfrestun um eða upp úr miðri næstu viku.