Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 1995, kl. 19:19:11 (2089)

1995-12-16 19:19:11# 120. lþ. 68.2 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur


[19:19]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er ljóst að þetta frv. verður aftur til umræðu í þingsalnum þannig að þingmönnum gefst tækifæri til að ræða þær mikilvægu breytingar sem frv. boðar við 3. umr. En það er einn efnisþáttur sem mig langar sérstaklega til að víkja að núna og hann lýtur að þeim breytingum sem nú er gert ráð fyrir varðandi 15% skattafslátt til lífeyrisþega sem náð hafa 70 ára aldri. Áður hafði verið gert ráð fyrir því að fella þennan skattafslátt niður í tveimur áföngum, 7,5% og síðar 7,5%, en nú kemur í ljós að það á að fella skattafsláttinn niður í einu vetfangi.

Ég hef vakið máls á því áður í ræðustól að þegar fjárlagafrv. birtist á sínum tíma, segir í greinargerð sem birtist með því varðandi þennan skattafslátt að gert sé ráð fyrir að fella þessa undanþágu niður í tveimur áföngum og kemur sá fyrri til framkvæmda um næstu áramót. Og hér vitna ég í þetta þskj., með leyfi forseta:

,,Hins vegar verður þeim fjármunum sem sparast við þessa breytingu varið til að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga.``

Mín spurning til þeirra sem um þessi mál hafa vélað er sú, hvort til standi að gera þetta. Hvort til standi að hækka grunnfjárhæðir lífeyristrygginga í samræmi við þá breytingu sem nú er boðuð. Það er svolítið nöturleg staðreynd að þegar baráttan gegn tvísköttun lífeyris hófst fyrir fáeinum árum stóðu þar í fararbroddi eldri borgarar, samtök þeirra. Þau vildu leita leiða til að bæta kjör lífeyrisþega og lögðu ríka áherslu á að tvísköttun lífeyris yrði afnumin. Fleiri tóku undir þessa kröfu, þar á meðal stór hluti verkalýðshreyfingarinnar. Alþýðusambandið lagði ríka áherslu á að tvísköttun yrði afnumin en nálgaðist málið frá annarri átt. Í stað þess að létta skattlagningu af lífeyrisþegum, yrði veittur skattafsláttur vinnandi fólki og skatti aflétt af iðgjaldi til lífeyris. Sú lausn varð síðan ofan á og nú hefur hún orðið endanlega alveg ofan á. Það skýrir þær breytingar sem nú eiga sér stað að ríkisstjórnin ákvað að verða við kröfu Alþýðusambandsins og fleiri aðila um að flýta þessum skattbreytingum og láta skattafsláttinn af lífeyrisiðgjöldum koma fyrr til framkvæmda. En eftir standa þá lífeyrisþegarnir sem hófu þessa baráttu án þess að þeir hafi fengið nokkuð fyrir sinn snúð. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að fá að vita, áður en endanlega verður frá þessu máli gengið, hvort tillit verði tekið til þeirra loforða sem gefin voru þegar fjárlagafrv. var birt þinginu í haust að grunnfjárhæðir lífeyristrygginga yrðu hækkaðar.

Hér er um mjög stórt og mikilvægt mál að ræða, allar þessar aftengingar sem boðaðar eru með frv., og ljóst að um þær mun fara rækileg umræða við 3. umr. málsins. Að svo stöddu ætla ég því ekki að lengja þessa umræðu, en vildi leggja ríka áherslu á að þeir sem um þessi mál hafa vélað veiti þinginu svör við 3. umr. málsins.

(Forseti (ÓE): Forseti ítrekar að það sýnist gefast tími til þess að ræða þetta mál frekar, bæði í nefnd og við 3. umr.)