Bifreiðakaupalán til öryrkja

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:08:09 (2093)

1995-12-18 15:08:09# 120. lþ. 69.91 fundur 145#B bifreiðakaupalán til öryrkja# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að heyra hæstv. heilbrrh. tala um að það komi henni undarlega fyrir sjónir að stjórnarandstaðan ætli að gera röfl út af því að það vanti stoð í lögum fyrir þessum bílakaupalánum. Það var ekki stjórnarandstaðan sem benti á það í þessum sal. Það var hæstv. heilbrrh. sem kom hingað og tjáði þinginu sjálf að það væri ekki hægt að hafa þessi bílakaupalán áfram vegna þess að það skorti lagastoð. Og það var í þeim umræðum sem ég kom upp og spurði hæstv. heilbrrh. hvort hún hygðist leggja fram frv. sem skyti stoðum undir þessi lán. Ég bætti því við að ef hún ætlaði ekki að gera það, þá mundi ég hlutast til um að stjórnarandstaðan gerði það. Hæstv. heilbrrh. kom þá upp og sagði: ,,Eigum við ekki að gera það saman?``

Fjölmiðlar túlkuðu það svo að hæstv. heilbrrh. hefði boðið hinum léttstíga formanni heilbr.- og trn. upp í dans og ég tók það svo. Það var af þeim sökum sem þetta mál hefur ítrekað verið tekið upp í heilbr.- og trn.

Ég vísa líka til þess, herra forseti, að í síðari umræðum sagði hæstv. heilbrrh.: ,,Ég hef falið heilbr.- og trn. að vinna þetta mál.`` Ég varð þess auðvitað áskynja að þetta kom ýmsum í meiri hluta nefndarinnar á óvart, en svona er staðan.

Heilbr.- og trn. hefur rætt þetta mál og það er ljóst að það er ekki samstaða innan nefndarinnar. Ég tók þá ákvörðun að bera þetta mál ekki upp innan nefndarinnar vegna þess að ég taldi að það væri verra fyrir málið. Það var alveg ljóst á fundi í morgun að það var ekki samstaða um þetta. Til að draga málið saman, herra forseti, það var ekki stjórnarandstaðan heldur hæstv. heilbrrh. sem kom hingað og sagði að það skorti lagastoð fyrir lánunum.

Að lokum. Í ályktun sem samþykkt var á miðstjórnarfundi Framsfl. fyrir réttu ári um málefni fatlaðra segir að þeir sem þurfi á bifreið að halda vegna fötlunar sinnar verði aðstoðaðir við að eignast og reka eigin bifreið.

Ég veit að Framsfl. er ekki eins og fíllinn. Hann hefur miklu takmarkaðra langtímaminni. En það er svo skammt um liðið að ég er viss um að forusta Framsfl. hlýtur að muna eftir þessari eigin samþykkt sinni.