Bifreiðakaupalán til öryrkja

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:12:48 (2096)

1995-12-18 15:12:48# 120. lþ. 69.91 fundur 145#B bifreiðakaupalán til öryrkja# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Í mínum huga er málið mjög einfalt. Það er hæstv. heilbrrh. sjálf sem skýrði Alþingi frá því að það væri ekki hægt að halda þessum greiðslum áfram nema lög yrðu sett sem gætu orðið grundvöllur áframhaldandi greiðslna. Hæstv. heilbrrh. sagði þetta á Alþingi og hæstv. heilbrrh. tók undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það þyrfti þá að vinna í samráði heilbr.- og trn. og ráðuneytisins til að bæta það sem þarna væri áfátt.

Nú virðist vera að þess þurfi ekki lengur. Ég legg til, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. leysi þetta með einföldum hætti. Sem sé þeim að hún leiti til ríkislögmanns og fái álit hans sem allra fyrst þannig að það liggi fyrir hvort ríkislögmaður sé þeirrar skoðunar að það sé hægt að halda þessum greiðslum áfram án lagastoðar. Þetta er tiltölulega einfalt mál og ríkislögmaður gæti leyst það í fljótheitum. Ef það kemur í ljós að áliti ríkislögmanns að það sé hægt að halda þessum greiðslum áfram eins og ekkert hafi í skorist, þarf ekki lagabreytingu. Komi það hins vegar í ljós að ríkislögmaður sé sammála hæstv. ráðherra miðað við þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf Alþingi fyrir skemmstu, hafa verið tekin af öll tvímæli um að það þarf lagastoð fyrir greiðslunum. Ég er sannfærður um að hæstv. heilbrrh. og þá ekki síður hæstv. fjmrh. vilja hafa slík atriði í lagi áður en haldið er áfram greiðslum með þeim hætti sem hefð er þó komin á um.