Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 15:33:35 (2106)

1995-12-18 15:33:35# 120. lþ. 69.1 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[15:33]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ljóst að þessi samningur sem nú er lagt til að lögfesta hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Stærsti kosturinn er að stækkun álversins í Straumsvík og meðfylgjandi framkvæmdir munu verka sem vítamínssprauta á íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Í öðru lagi hef ég komist að þeirri niðurstöðu eftir athugun og umfjöllun milli umræðna að þótt raforkuverðið mætti sannarlega vera hærra þá er það viðunandi og að samningur þar að lútandi muni breyta afkomu Landsvirkjunar verulega frá því sem ella hefði orðið.

Í þriðja lagi tel ég til bóta að skattalegt umhverfi álversins í Straumsvík verði nú fært í átt til þess sem gildir um íslensk fyrirtæki og er það vel þótt eðlilegra hefði verið að fyrirtækið félli einfaldlega undir íslenskt skattalög. Þetta voru hinar jákvæðu hliðar málsins.

Hins vegar höfum við kvennalistakonur margt við umhverfisþátt málsins að athuga, svo sem ég lýsti við 2. umr. málsins sl. laugardag. Í þeim efnum tel ég að íslensk stjórnvöld hafi veitt afslátt af ýtrustu skilyrðum um mengunarvarnir í ákafa sínum við að koma stækkun álversins í gegn. Af þeim sökum getum við kvennalistakonur ekki greitt þessu frv. atkvæði okkar og munum sitja hjá við það en styðja brtt. minni hlutans.