Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 16:08:42 (2121)

1995-12-18 16:08:42# 120. lþ. 69.2 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur


[16:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Þau lög sem hér er verið að afnema voru sett fyrir um það bil ári síðan af fyrrv. ríkisstjórn, eins og komið hefur fram. Forsenda þess að þessi leið var farin var sú að ekki stóð til að hægt væri að draga lífeyrisgreiðslur frá skatti þegar verið var að greiða inn í lífeyrissjóðina. Lífeyrisiðgjöld voru ekki skattfrádráttarbær. Á sl. vori gekkst þáv. ríkisstjórn fyrir því að gera breytingu á þessari stefnu sinni, einungis vegna þess að samið hafði verið við ASÍ um að greiðslur inn í sjóðina skyldu vera skattlausar. Það er eðlileg afleiðing af þeirri stefnu að hverfa frá þessari, sem mörkuð var fyrir ári síðan. Nú gerðist það fyrir fáeinum dögum að ný yfirlýsing kom frá núv. ríkisstjórn þar sem sagði að flýtt yrði frádrætti á lífeyrisinngreiðslum og þá er að sjálfsögðu eðlilegt að flýtt verði fyrir því að þetta ákvæði falli niður að fullu.

Það skal síðan tekið fram að það er rangt sem stundum er haldið fram að hér sé um að ræða sanngirnismál gagnvart öllum þeim sem greitt hafa í lífeyrissjóð á undanförnum árum vegna þess að allt fram til ársins 1988 var hægt að draga lífeyrisiðgjöld frá skatti eða að nota svokallaða 10% reglu. Um leið og ég leiðrétti þann sem talaði síðast og vissi betur þá segi ég já.